Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, vekur í grein í Fréttblaðinu 25. febrúar, athygli á því hve mikil ánægja er með heilsugæsluna. Vísar hún í þjónustukönnun Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), sem sýnir að 74% aðspurðra bera traust til heilsugæslunnar og 79% eru ánægð með þjónustuna. Það er fagnaðarefni að Hanna Katrín skuli taka höndum saman með okkur sem viljum efla heilsugæsluna og tryggja að hún verði fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu.
Falleg er líka ósk þingmannsins um að Svandís Svavarsdóttir skrifi fleiri greinar um málefnið enda er heilbrigðisráðherra afskaplega ritfær. Sérkennilegt er þó að þingmaðurinn velji sérstaklega þetta mál til að lýsa eftir skrifum ráðherra þar sem Svandís birti grein um þetta í Morgunblaðinu sléttri viku áður en Hanna Katrín birti sína í Fréttablaðinu.
Kannski er það samt ekkert skrýtið, þar sem tónninn hjá Hönnu Katrínu er í þá átt að þagað hafi verið yfir niðurstöðum þjónustukönnunarinnar. Fréttir af henni hafi lekið í fjölmiðla og, særir þingmaðurinn ráðherra til að skrifa grein um málið, sem ráðherrann hafði þegar gert. Lekar til fjölmiðla eru býsna algengir. Í þessu tilfelli voru niðurstöðurnar hins vegar birtar samviskusamlega á vef heilbrigðisráðuneytisins 13. febrúar og vef SÍ 21. febrúar. Það er því ekkert samsæri í gangi um þöggun á þjónustukönnun, en sosum í takt við umræðuna í stjórnmálum í dag að hika ekki við að ýja að því.
Í þeim anda skirrist þingmaðurinn ekki við fullyrða að sjálfstætt starfandi aðilar, og þá væntanlega heilsugæslustöðvar, séu „óæskilegur hluti kerfisins“. Staðreyndin er sú að fjármögnunarlíkanið er eins hvað varðar einkareknar og opinberar heilsugæslustöðvar. Hins vegar er rétt að greiðslufyrirkomulag vegna blóðrannsókna hefur verið mismunandi og um það meðal annars hefur Samkeppniseftirlitið sent tilmæli sem verið er að bregðast við.
Þau tilmæli bárust hins vegar áður en núverandi ráðherra tók við embætti, þannig að mikla loftfimleika þarf til að tengja þessa ólíku gjaldskrá stefnu núverandi ríkisstjórnar.
Rétt er að taka fram að heilbrigðisráðuneytið felur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fjölda verkefna, án þess að beinar greiðslur fylgi með. Nærtækasta dæmið er upplýsingar og fræðsla vegna COVID-19 veirunnar. Ráðuneytið hefur ekki leitað til einkarekinna heilsugæslustöðva með slíkt, en kannski er grundvöllur fyrir því að þær sinni líka þessari þjónustu án þess að fá sérstaklega greitt fyrir? Í það minnsta hlýtur Hanna Katrín að styðja það, þar sem hún vill að stöðvarnar sitji við sama borð óháð rekstrarformi.
Ágætt er einnig að horfa til sögunnar. Þrátt fyrir að staðinn hafi verið vörður um heilbrigðiskerfið í aðgerðum eftir hrun varð engu að síður umtalsverður samdráttur á fjárframlögum, þ.m.t. til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Á sama tíma voru framlög til einkarekinna heilsugæslustöðva varin í undirrituðum samningum og þær urðu ekki fyrir sömu skerðingu og opinbera kerfið. Þetta þarf allt að hafa í huga og eins að draga lærdóm af því hvers vegna einkareknar stöðvar mælast örlítið hærra í umræddri þjónustukönnun.
Aðalatriðið er hins vegar að samstaða sé um að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu. Framlög til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa aukist um 24% á árunum 2017-2020. Það er í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar. Heilsugæslan er okkar allra og það eru gæfuskref að efla hana, frekar en að búa til samsæriskenningar.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.