Search
Close this search box.

Viðspyrna gegn verðbólgu

Deildu 

Áskoranir á sviði hagstjórnar ráðast iðulega af utanaðkomandi aðstæðum sem við oft og tíðum ráðum litlu um. Við slíkar aðstæður skipta viðbrögð stjórnvalda öllu máli – það sýnir reynslan úr heimsfaraldri okkur þar sem árangur þess að nýta styrk ríkissjóðs til að styðja við heimili og fyrirtæki skilaði sér í hröðum bata og mikilli fjölgun starfa þegar faraldrinum sleppti. Hagvöxtur tók vel við sér og er nú einn sá mesti í Evrópu. Eins er bæði afkoma og skuldastaða ríkissjóðs mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir – í ár munum við ná þeim mikilvæga áfanga að afgangur verður af frumjöfnuði ríkissjóðs í fyrsta sinn síðan fyrir faraldurinn. Þessu spáðu fáir í upphafi faraldurs og sýnir það vel að skynsamleg viðbrögð stjórnvalda ráða miklu um þróun mála.

Nú blasir við okkur ný staða. Megin viðfangsefni hagstjórnarinnar í flestum löndum, austan hafs og vestan, er að takast á við þá miklu verðbólgu sem fylgdi í kjölfar stríðsátaka í Úkraínu með tilheyrandi vaxtahækkunum og áhrifum á lífskjör almennings. Forgangsmál er að hemja þensluna, vinna náið með peningamálastjórn Seðlabankans og slá niður verðbólguna og þar með nauðsyn á frekari hækkun vaxta. Við þessar aðstæður leggjum við fram nýja fjármálaáætlun sem sendir skýr skilaboð um viðspyrnu ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni, forgangsröðun mikilvægrar velferðar- og almannaþjónustu, m.a. með endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, og framtíðarsýn um áherslumál okkar í uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins.  Fjármálaáætlun til næstu fimm ára leggur þannig grunn að því að treysta hinn efnahagslega og félagslega stöðugleika og skapa forsendur fyrir lækkun vaxta. 

Markvissar aðgerðir

Við munum áfram beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti í þessu verkefni eins og þeim sem við höfum tekist á við á undanförnum árum með góðum árangri.  Annars vegar þurfum við að beita ríkisfjármálunum til þess að draga úr þenslu með aðgerðum á tekju – og gjaldahlið og draga úr fjárfestingarumsvifum ríkisins um sinn.  En ekki er minna um vert að við stöndum vörð um mikilvæga grunnþjónustu, tryggjum afkomuöryggi og styðjum þá hópa sem hafa minnst bjargráð til þess að mæta áhrifum verðbólgunnar.

Á síðasta ári gripum við til markvissra aðgerða til að verja kjör viðkvæmra hópa, hækkuðum örorkulífeyri, barnabætur og húsnæðisbætur og í fjárlögum þessa árs var einnig gripið til ráðstafana gegn þenslunni með öflun nýrra tekna, aðhaldi í rekstri og frestun framkvæmda. Í þessari fjármálaáætlun sem við nú setjum fram leggjum við til að haldið verði áfram á sömu braut og stigið enn fastar til jarðar. Þannig munum við beita frekari ráðstöfunum á tekjuhliðinni, sækja nýjar tekjur og draga úr skattaívilnunum en einnig munum við auka aðhald, hagræða í opinberum rekstri og fresta ýmsum framkvæmdum að sinni uns hægist á umsvifum í hagkerfinu. Afkomutryggingakerfin og viðkvæm velferðarþjónusta verða áfram varin fyrir aðhaldi.

Aukin tekjuöflun og hagræðing

Tekjuöflunin mun fyrst og fremst beinast að þeim geirum efnahagslífsins sem einkum eru aflögufærir. Þannig verður tekjuskattur lögaðila hækkaður tímabundið vegna ársins 2024 úr 20% í 21%, fiskeldisgjald hækkað, veiðigjöld endurskoðuð til hækkunar, gjaldtaka aukin í ferðaþjónustu og tekið upp varaflugvallargjald. Þá verður endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði lækkað, auk þess sem breytingar verða gerðar á gjaldtöku af ökutækjum og umferð til að mæta breyttri samsetningu bílaflotans og stuðningi við orkuskipti í samgöngum verður breytt úr skattaívilnunum í átt til beinna styrkja.

Áætlunin ber skýr merki um þá áherslu ríkisstjórnarinnar að treysta grunnþjónustuna og styðja við þá hópa sem eru viðkvæmastir fyrir verðbólgunni. Áform okkar um frekari eflingu barna- og vaxtabótakerfisins og áframhaldandi uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu eru liður í því. Framlög til heilbrigðis- og öldrunarþjónustunnar eru áfram aukin til að mæta fjölgun þjóðarinnar og hækkandi lífaldri. Þá verður áfram dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðsþjónustunni og framlög aukin til sjúkratrygginga og til reksturs nýrra hjúkrunarheimila. Allt eru þetta mikilvæg velferðarmál.

Endurskoðun örorkukerfis tryggð

Fjármagn er tryggt í áætluninni til löngu tímabærrar heildarendurskoðunar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga og til að treysta stuðning og þjónustu við þau sem hafa skerta starfsgetu. Gert er ráð fyrir að hefja undirbúning breytinganna á árinu 2024 og taka í upphafi árs 2025 upp nýtt endurbætt greiðslukerfi sem styður betur við þennan hóp. Þar að auki munum við hækka örorkulífeyri almannatrygginga  um mitt þetta ár til að mæta verðbólgunni og verja kjör öryrkja.

Liður í aðhaldsaðgerðum til að hemja verðbólguna er frestun á tilteknum nýframkvæmdum ríkisins til að draga úr þenslu í hagkerfinu. Vissulega er það bagalegt, því um er að ræða mikilvægar framkvæmdir. En bæði í bráð og lengd er það mikilvægara að ná tökum á verðbólgunni. Við erum ekki að falla frá þessum framkvæmdum en þær bíða að sinni. En ríkið hættir ekki að framkvæma, við munum halda áfram viðamikilli uppbyggingu nýs Landspítala og áfram verður fjárfest í samgönguinnviðum og almennum íbúðum fyrir tekjulág heimili ásamt því sem við bætum í fjárframlög til rannsókna og háskólamála.

Samtaka gegn verðbólgu

Aðalatriðið er að ný fjármálaáætlun sendir skýr skilaboð. Ríkisstjórnin ætlar að ná verðbólgunni niður, með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru en jafnhliða því verjum við viðkvæma hópa eins og unnt er. Þessi fjármálaáætlun er hluti þeirrar vinnu. En fleira þarf að koma til. Framundan eru kjarasamningar og sú krafa stendur nú upp á forystu atvinnulífsins að sýna ábyrgð og gæta hófs í arðgreiðslum en leita fremur allra leiða til að koma í veg fyrir að hækkun á vöru og þjónustu leiti út í verðlagið. Öllum má ljóst vera að launafólk eitt mun ekki að bera megin þungann af baráttunni við verðbólguna, atvinnurekendur verða að axla ábyrgð til jafns.  Nýliðin saga kennir okkur að til að ná árangri í baráttunni við verðbólguna þá þarf samvinnu allra, launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera.

Við eigum öll mikið undir því að það takist að hemja verðbólguna áður en hún grefur um sig og verður ill viðráðanleg. Allar forsendur er til staðar til þess að við getum náð árangri, efnahagslífið er þróttmikið og staða ríkissjóðs batnar jafnt og þétt. Við þessar aðstæður verður ríkisfjármálaáætlun áfram rædd á þingi nú í vikunni. Megináherslurnar eru skýrar: Ríkið mun afla aukinna tekna, hagræða í rekstri og fresta framkvæmdum. Þessar aðgerðir munu slá á verðbólgu og skapa aðstæður til lækkunar vaxta. Þannig styðja ríkisfjármálin við Seðlabankann í stjórn peningamála og jafnframt tryggja aðgerðirnar forsendur fyrir félagslegum og efnahagslegum stöðugleika og áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða fyrir almenning í landinu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search