EN
PO
Search
Close this search box.

Viljum við borga?

Deildu 

Í orðræðunni um loftslagsmál og stjórnvöld heyrast orð eins og aðgerðaleysi og falleinkunn. Það eru orð sem ég tel að séu engum til gagns. Ég ítreka að loftslagsmálin krefjast hlutlægni og gagnrýni sem er studd rökum og staðreyndum. Vissulega verður að gera betur en okkur hefur auðnast og þangað stefnum við öll. Langur listi aðgerða krefst aukinnar þátttöku, t.d. bæði sveitarfélaga og stjórnvalda. Í nýjum loftslagslögum eru stjórnarráðið, ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, auk sveitarfélaga, skylduð til að setja sér loftslagsstefnu, með rúmum tímamörkum og samvinnu.

Aukin þátttaka í andófi gegn loftslagsbreytingum á líka við um almennu fyrirtækin og hún færist vissulega í aukana núna. Innlegg félagasamtaka og almennings til andófsins eru á uppleið. Niðursveiflan í hagkerfinu má aftur á móti ekki hamla okkur. Við þurfum að verja þá fjármuni sem eru settir til þessa í ríkisfjármálum. En það þarf líka að auka fjármagnið. Kanna verður hvort ekki beri að setja á tímabundið flatt loftslagsgjald til hliðar við kolefnisgjaldið, sem hækkar hægt, annaðhvort á alla skattgreiðendur í landinu eða á notendur jarðefnaeldsneytis, t.d. flugfélög, útgerðir og flutningsfyrirtæki, á einkaaðila og ótal fyrirtæki. Ég bendi á að 1.000 kr. frá 250.000 gjaldendum gefa okkur fjórðung úr milljarði, 250 millj. kr. á ári. Þannig að 2.000 kr. eða 3.000 kr. ársframlög, svo hóflega sé orðað, varða okkur afar miklu. Afrakstrinum væri skipt á ríki, sveitarfélög og fleiri aðila en gengi ávallt beint til aðgerða. Fyrirkomulagið væri fremur auðvelt að leysa. Nú, tíu árum áður en við eigum að standa við Parísarsamkomulagið, er kominn tími til að skoða svona jákvæða skattheimtu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search