Hæstvirtur forseti
Því er gjarnan haldið á lofti að Ísland sé ríkasta land í heimi af svokölluðum endurnýjanlegum orkugjöfum og þjóðin hefur verið dálítið stolt af. Við erum nefnilega heimsmeistarar í ansi mörgu – sérstaklega þegar sérhagsmunirnir sjálfir halda um reiknistokkinn.
Þegar grannt er skoðað í þessum efnum eigum við hinsvegar bara eitt staðfest heimsmet á alþjóðlegum mælikvarða og það er mesta orkuframleiðsla í heimi á hvert mannsbarn. Og þar stökkvum við helmingi hærra en næsta þjóðríki á eftir.
Svo eigum við annað heimsmet, „reyndar óstaðfest“ vegna skorts á rannsóknum, en það er mesta orkusóun á hvert mannsbarn.
Við erum sömuleiðis ein þjóða heims að sólunda yfir 80% af orkuauðlindum okkar til orkufrekrar mengandi starfsemi.
Og nú hefur bæst í liðið hinn nýji óhefti frjálsi orkugeiri með grænþvottarstimpilinn á lofti sem merkir sér allt sama hvaða ósómi er undir.
Nú eigum við grænasta ál í heimi, framleitt með grænustu orku í heimi og svo eigum við auðvitað grænustu gagnaver í heimi sem grafa eftir grænustu rafmynt í heiminum, og svo eru áform um græna orkugarða sem flokka mætti kannski frekar undir efnaverksmiðjur.
Virðulegi forseti -Vindorkuáform sem nú þegar hafa verið sett á svið eru af áður óþekktri stærð, án þess að sýnt hafi verið fram á þörfina og allt er þetta undir grænum formerkjum þrátt fyrir óafturkræf náttúruspjöll hafi verið sett á dagskrá með slíkum vindorkuverum!
Ef markmiðið er að skapa sátt um vindorkuver hér á landi þá sýnist mér það því miður stefna í algjört óefni eins og staðan er. Atgangur orkugeirans er einfaldlega alltof mikill þegar vanmáttug sveitarfélög eru annarsvegar og ekki er til að dreifa haldbærum lögum eða reglum í málaflokknum.
Núna þurfum við ekki á að halda erlendu stórkapitali í bakgarðinn okkar sem er nú þegar er farið að kljúfa samfélög víða um land þar sem íbúum hefur verið stillt upp við vegg á íbúafundum þar sem aðeins hlið orkugeirans er dreginn upp.
En fyrst og síðast er verið að ráðast hér að okkar verðmætustu auðlind með þeim grófustu iðnaðaráformum sem sett hafa verið á svið frá upphafi í íslenskri náttúru.
Þingræða. Andrés Skúlason