Áhugi á vindorku hefur aukist stórum á undanförnum misserum samfara hraðri framþróun í tækni til þess að nýta hana. Ekkert okkar hefur farið varhluta af umræðu um stórkarlaleg uppbyggingaráform hringinn í kringum landið.
Umræða um nýtingu vinds er tiltölulega ný af nálinni í okkar auðlindaríka landi. Ég tel tvennt mikilvægast í þessu samhengi. Annars vegar verður að ríkja sátt um staðsetningu vindorkuvirkjana í landinu og hins vegar verður að vera alveg skýrt að arðurinn af nýtingu þessarar auðlindar nýtist samfélaginu öllu. Sátt um hvort tveggja er forsenda þess að hér verði unnt að ráðast í uppbyggingu vindorkuvirkjana.
Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um gjaldtöku vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu. Við teljum að boðuð lagasetning um nýtingu vindorku hérlendis þurfi að undirstrika það sem ætti að vera meginregla, að leyfi til nýtingar vindsins tryggi íslensku þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í afkomu vegna nýtingar til framleiðslu raforku. Slíkt gjald á að endurspegla umhverfisáhrif, standa undir eftirliti, ítarlegum rannsóknum og mælingum á virkjanasvæðum. Taka verður tillit til raunverulegs umhverfiskostnaðar við framkvæmdir.
Við leggjum áherslu á að vindorkuvirkjanir byggist upp á afmörkuðum og þegar röskuðum svæðum með lágt verndargildi nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Taka þarf ríkt tillit til sjónrænna áhrifa, vistkerfa, dýralífs og náttúru. Uppbyggingu vindorkuvirkjana fylgir mikið umhverfisrask vegna mannvirkjagerðar, svo sem vega‑ og línulagna, sem kann að rýra og ganga á gæði lands í nágrenni virkjunarinnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á ýmis umhverfisáhrif, svo sem sjón‑, hljóð‑ og umhverfismengun, til að mynda frá byggingarefnum, að ótöldum áhrifum á lífríki, sérlega dýralíf. Þá er brýnt að okkar mati að mörkuð verði stefna um vindorkuvirkjanir á hafi en umhverfisáhrif þeirra eru eðli málsins samkvæmt annars konar en vindorkuvirkjana á landi.
Orri Páll Jóhansson, þingflokksformaður Vinstri grænna.