PO
EN
Search
Close this search box.

Virðum (alla) þjóðaratkvæðagreiðsluna

Deildu 

Það hefur verið magnað að fylgjast með þeim áhuga sem stór hluti þjóðarinnar hefur á stjórnarskrármálum og birst hefur í góðri þátttöku í undirskriftasöfnun stjórnarskrárfélagsins. Það er mikilvægt fyrir samfélag að vera í reglulegu samtali um sínar grundvallarreglur. Nú, þegar 43 þúsund hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun um að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2012, er ekki úr vegi að beina sjónum að henni.

Fyrst aðeins að forsögunni. Stjórnlagaráð skilaði drögum að nýrri stjórnarskrá í júlí 2011. Forsætisnefnd Alþingis skilaði af sér skýrslu um málið í október sama ár. Hún fór til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem skipaði, í júní 2012, nefnd óháðra sérfræðinga til að undirbúa þingmál á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Nefndin hafði það að leiðarljósi að hrófla sem minnst við tillögunum, nema út frá lagatæknilegum sjónarhóli. Einhverjar breytingar þurfti að gera, ekki síst á skýringum sem fylgdu tillögunum og nefndin tók meðal annars upp ákvæði um þjóðkirkju í takt við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin í október 2012 og voru sex spurningar lagðar fyrir þjóðina. Sú fyrsta var: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Tæp 67% þeirra sem tóku þátt svöruðu þeirri spurningu játandi. Fimm aðrar spurningar voru lagðar fyrir þjóðina og sneru þær allar að því hvort kjósendur vildu ákveðin ákvæði í nýrri stjórnarskrá. Þau ákvæði lutu að náttúruauðlindum í þjóðareign, þjóðkirkju, meira persónukjöri, jöfnu atkvæðavægi og hlutfalli sem getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Fjallað var um öll þessi mál í drögum stjórnlagaráðs og það segir sig sjálft að með því að spyrja sérstaklega út í þessi fimm ákvæði var morgunljóst að ekki var ætlunin að taka þau drög óbreytt upp sem stjórnarskrá. Annars hefði ekki þurft að spyrja nema fyrstu spurningarinnar.

Enginn sem tók þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012 átti að velkjast í vafa um að ekki var verið að kjósa um heildarpakka. Það var alltaf vilji þeirra sem að þjóðaratkvæðagreiðslunni komu að hún væri aðeins liður í mun lengra ferli. Væri til grundvallar. Þannig nægir að nefna að nefndin sem undirbjó þjóðaratkvæðagreiðsluna samþykkti að á kjörseðilinn skyldi rita:

„Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.“

Hér er sérstaklega vakin athygli á því að frumvarpið geti tekið breytingum í meðförum þingsins og reyndist það einmitt raunin. Í gegnum árin hefur verið óljóst til hvers er verið að vísa þegar þess er krafist að nýja stjórnarskráin sé samþykkt. Lögð hafa verið fram frumvörp um að drög stjórnlagaráðs séu samþykkt óbreytt en einnig um að drögin eftir meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar séu samþykkt. Þegar leið á undirskriftasöfnunina kom fram hjá forsvarsfólki hennar að hún sneri að málinu eftir meðferð þingnefndarinnar.

Eftir stendur spurningin til hvers er ætlast af Alþingi. Hvað er það sem segir að ekki megi breyta því máli sem þingnefnd skilaði af sér fyrir átta árum síðan? Hvað er það sem segir að nákvæmlega þeir níu þingmenn sem í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sátu kjörtímabilið 2009-13, ágætir sem þeir eru, séu þeir einu sem megi gera breytingar á drögum stjórnlagaráðs? Af hverju eru þeir þingmenn færari til þess en þeir sem nú skipa þá nefnd?

Mikilvægt er að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það er hins vegar ekki valkvætt hvað úr henni við veljum að virða. Þau sem skrifuðu undir undirskriftasöfnunina og kröfðust þess að þjóðaratkvæðagreiðslan væri virt, voru væntanlega jafn mikið að krefjast ákvæðis um þjóðkirkju í stjórnarskrá og þess að drög stjórnlagaráðs yrðu lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá, eða hvað?

Alþingi tókst ekki að samþykkja stjórnarskrárbreytingar fyrir sjö árum síðan. Fyrirvarinn á kjörseðlinum um málsmeðferð reyndist þarfur. Eftir stendur það verkefni að uppfylla þjóðaratkvæðagreiðsluna, hvernig öllum þeim sex álitaefnum sem þjóðin þá tók afstöðu til verður komið áfram. Til þess eru ýmsar leiðir, meðal annars sú sem forsætisráðherra hefur boðað með frumvörpum til breytinga á stjórnarskrá. Frumvörpum sem mörg hver eru beint svar við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir átta árum, sællar minningar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search