PO
EN

Virk og öflug vernd mann­réttinda

Deildu 

Við á Ís­landi höfum borið gæfu til að sam­þykkja mörg fram­fara­mál sem varða réttindi fólks á undan­förnum árum á sama tíma og sjá má bak­slag víða í heiminum. Í þessum málum er bar­átta hags­muna­hópa mikil­væg en að sjálf­sögðu ræður vilji stjórn­valda á hverjum stað í raun úr­slitum um hver staðan verður, eins og mörg dæmi eru um ný­verið. Hér á landi verður á­fram unnið í slíkum fram­fara­málum.

Í stjórnar­sátt­mála er kveðið á um að sett verði á stofn öflug, óháð mann­réttinda­stofnun sem þarf að upp­fylla á­kveðin al­menn skil­yrði sem sett eru fram í við­miðunar­reglum Sam­einuðu þjóðanna. Við­miðin gera ráð fyrir sjálf­stæði slíkra stofnana frá stjórn­völdum. Við myndun nýrrar ríkis­stjórnar voru mann­réttinda­mál færð til for­sætis­ráðu­neytis frá dóms­mála­ráðu­neyti og hófst í kjöl­farið vinna við græn­bók um mann­réttindi.

Við vinnu við græn­bók er upp­lýsingum safnað um mann­réttindi, þróun, töl­fræði, saman­burð við önnur lönd og teknar saman mis­munandi leiðir til að mæta þeim á­skorunum sem við blasa í mann­réttinda­málum.

Í hví­vetna verður lögð á­hersla á víð­tækt sam­ráð við vinnslu græn­bókarinnar og í haust er ætlunin að standa fyrir sam­ráðs­fundum í öllum lands­hlutum um stöðu mann­réttinda­mála. Í byrjun árs 2023 verða drög að græn­bók kynnt í sam­ráðs­gátt stjórn­valda og gera á­ætlanir ráð fyrir að frum­varp um stofnunina verði lagt fram á Al­þingi haustið 2023.

Mann­réttinda­stofnanir skipta máli til að tryggja virka og öfluga vernd mann­réttinda. Ég hef lagt á það á­herslu að Ís­land sé leiðandi þegar kemur að mann­réttindum og verður til­vist mann­réttinda­stofnunar veiga­mikið skref í þá átt. Mikil­vægt er í þessu sam­bandi að til­vist slíkrar stofnunar er for­senda þess að hægt verði að lög­festa samning Sam­einuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks líkt og kveðið er á um í stjórnar­sátt­mála ríkis­stjórnarinnar. Allt miðar þetta að því að við eigum öll jafnan rétt til að njóta mann­réttinda án mis­mununar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search