Search
Close this search box.

 Vísinda­ver­öld á Keldna­holti

Deildu 

Einhverjir vinsælustu staðir á byggðu bóli eru vísindasöfn eða -setur fyrir börn af öllum aldri, þar sem gestir og gangandi geta fræðst um undraheima vísinda, tækni og náttúru, meðal annars með eigin tilraunum. Miðstöðvar af þessu tagi eru ekki bara vinsæll viðkomustaður fjölskyldna um helgar og í skólafríum, heldur einnig einhver mikilvægustu stoðtæki skólakerfisins. Þær styrkja vísindalæsi, glæða áhuga á raungreinum og vekja gesti sína til vitundar um umhverfismál.

Stofnun og bygging veglegrar vísindaveraldar er því allt í senn fjölskyldumál, menningarmál, menntamál og umhverfisverndarmál. Enginn vafi er heldur á safn sem þetta myndi draga til sín fjölda ferðamanna og því styrkja við þá mikilvægu atvinnugrein. Þörfin eftir þjónustu af þessu tagi er mikil eins og ásóknin í þá sprota sem komið hefur verið upp, s.s. á vegum Háskóla Íslands, ber með sér. Mikilvægi vísindaveraldarinnar væri ekki bundið við Reykjavík. Íbúar alls landsins myndu njóta góðs af og má hæglega hugsa sér að slík stofnun gæti skipulagt minni farandsýningar í skóla og um land allt.

Hugsum stórt

Ljóst er að margir aðilar yrðu að koma að verkefninu ef vel ætti að vera. Auk Reykjavíkurborgar hlytu ríkið og háskólarnir að vera ofarlega á blaði, ásamt rannsóknarstofnunum og einkafyrirtækjum á sviði tækni og vísinda. Hugsa yrði verkefnið stórt frá byrjun og gera þegar í upphafi ráð fyrir stækkunarmöguleikum.

Vitaskuld koma ýmsar staðsetningar til greina fyrir verkefni þetta, en við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum sérstakan augastað á Keldnaholtslandinu, sem skipulagt verður á næstu misserum fyrir blandaða byggð. Keldnaholtið verður frábærlega tengt almenningssamgöngum með tilkomu Borgarlínu og glæsileg vísindaveröld yrði ákjósanleg miðstöð mannlífs og menningar í nýju hverfi. Ekki spillir fyrir að í landi Keldna er löng saga rannsókna á sviði vísinda og tækni sem gaman yrði að miðla til almennings.

Að koma upp vísinda- og tæknisetri krefst stórátaks og samvinnu margra aðila, en Vinstri græn í borginni líta á það sem eitt af sínum mikilvægustu málum sem styrkir þá grunnmálaflokka sem við stöndum fyrir: menntun, náttúruvernd, sterk hverfi og gott skipulag.

Höfundur skipar 2. sætið á lista Vinstri grænna í Reykjavík.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search