Search
Close this search box.

Vöktun náttúru hafin á 80 svæðum

Deildu 

Náttúra Íslands er verðmæt í mörgu tilliti, ekki síst vegna eigingilda náttúrunnar sjálfrar. En hún er líka fjöreggið okkar þegar kemur að megin atvinnuvegunum, þar með talið ferðamennsku. Hún er ein helsta ástæða þess að ferðamenn kjósa að leggja leið sína hingað til lands. Þannig ber okkur ekki bara skylda til þess að standa vörð um náttúruna hennar sjálfrar vegna, heldur líka vegna þess að hún er auðlind sem við verðum að tryggja að sé nýtt með sjálfbærum hætti. Við verðum að gæta þess að ganga ekki á gæðin. 

Í síðustu viku hófst formlega skipulögð vöktun á tugum náttúruverndarsvæða vítt og breytt um landið. Þar verða könnuð áhrif ferðamanna á vistgerðir og plöntur, fugla, spendýr og jarðminjar. Sérfræðingar náttúrustofa, Náttúrufræðistofnunar Íslands og friðlýstra svæða munu koma að vinnunni á um 80 svæðum á landinu, en undirbúningur og prófanir hafa staðið yfir í tvö ár. Um 100 milljónir króna renna til verkefnisins árlega. Upplýsingar sem þarna er aflað geta hjálpað okkur við ákvarðanatöku í framtíðinni.

Nú eru ferðamenn aftur farnir að leggja leið sína til Íslands og það er óhætt að segja að innviðirnir sem taka á móti þeim á mörgum friðlýstum svæðum og fjölsóttum ferðamannastöðum séu allt aðrir en þeir voru fyrir fáum árum síðan. Síðan árið 2018 hefur grettistaki verið lyft, meðal annars með fjármagni úr landsáætlun um uppbyggingu innviða og á sama tíma hefur landvarsla verið aukin til muna. Friðlýstum svæðum hefur einnig fjölgað mikið. Þessar umbætur eru gerðar til þess að tryggja vernd náttúrunnar og á sama tíma getur upplifun ferðamanna af íslenskri náttúru orðið jákvæðari. Með sjálfbærri ferðamennsku getum við áfram skoðað náttúruna, mært hana og notið um ókomna tíð. 

Það er áskorun að láta náttúruvernd og ferðamennsku haldast í hendur, en það á vel að vera hægt. Með vöktun á áhrifum ferðamanna fáum við upplýsingar um ástand og þróun mála og erum betur í stakk búin að bregðast við ef þarf. Þannig pössum við betur upp á fjöreggið okkar. 

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search