Vel sóttur flokksráðsfundur VG fór fram um helgina og mættu yfir hundrað félagar til að taka þátt í umræðum. Formaður og varaformaður héldu tölu, stjórnmálaprófessor fór yfir hið pólitíska landslag, félagsmenn skiptu sér í hópa og ræddu núverandi stöðu VG og hvert skuli halda og erindi voru sömuleiðis haldin. Fjöldinn allur af ályktunum var samþykktur í lok fundar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður VG, setti fundinn að lokinni ræðu sinni þar sem hann lýsti meðal annars yfir áhyggjum yfir því að ekkert um stefnu í málefnum innflytjenda sé að finna á þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar. Það sé ekki góður fyrirboði.
„Nýr félagsmálaráðherra, sem rekið hefur harða útlendingastefnu og stefnuna „Íslendingar fyrst og svo aðrir“, ber ábyrgð á innflytjendamálum. Hvernig mun Inga Sæland haga jafnræði milli innfæddra og innflytjenda? Á milli jaðarhópa? Ráðherra sem hringir og hótar skólastjóra ömmubarnsins síns, ef marka má fréttaflutning, því skór unglingsins týndust,“ sagði Guðmundur Ingi.
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, tók síðan til máls þar sem hún lýsti yfir skýrum vilja flokksmanna til að halda ótrauð áfram þrátt fyrir mótbyr. Hún skaut sömuleiðis föstum skotum á núverandi ríkisstjórn, þá nýjan umhverfisráðherra sér í lagi og ákvörðun hans að leggja fram frumvarp til höfuðs dóms héraðsdóms um ógildingu virkjanaleyfis.
Umrætt frumvarp hefur í daglegu tali verið kallað „frumvarp um Hvammsvirkjun“.
„Yfirlýst markmið ráðherrans með frumvarpinu er að Hvammsvirkjun rísi þrátt fyrir nýfallinn dóm en Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu þann 15. janúar sl. að lögum um stjórn vatnamála hefði ekki verið fylgt og ógilti þar af leiðandi virkjanaleyfið. Kappssamur, hávær, árásargjarn og til í slaginn mælir ráðherrann fyrir þingmáli til að bregðast við dóminum. Eða svo er sagt. En frumvarpið fjallar um miklu meira.“
Svandís segir að verði frumvarpið samþykkt verði matið á því hvenær „almannaheill“ vegi þyngra en umhverfismarkmið ekki lengur faglegt, heldur alfarið pólitískt. Eins og yfirlýst markmið frumvarpsins alls. Hún segir að hér sé á ferðinni hættulegt fordæmi, að stjórnvöld hvers tíma geti einfaldlega sniðgengið niðurstöður dómstóla séu þær pólitískt óhagstæðar.
„Þannig vegur frumvarpið í heild að náttúruvernd og jafnframt lýðræðislegum rétti almennings til að tjá sig um umhverfismál. Málið er ótækt og veldur stórkostlegum skaða verði það samþykkt.“
Hópastarfið var fjölbreytt og skilaði góðum árangri. Rætt var um þrjú meginatriði: Hví fór sem fór? Hvað næst? Og komandi sveitarstjórnarkosningar 2026. Hópstjórar kynntu síðan niðurstöðurnar í lok fundar. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, fór yfir nýafstaðnar kosningar og breytt landslag á þingi, Finnur Ricart Andrason, sérfræðingur í umhverfis- og loftslagsmálum, hélt erindi um græna pólítík í Evópu, Líf Magneudóttir, nýkjörinn formaður borgarráðs, fræddi fundargesti um nýafstaðnar meirihlutaviðræður í borginni, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og varaforsetu Evrópuráðsþingsins, rýndi í stöðuna austan- og vestanhafs. Að fundi loknum var skipst á skoðunum og almennar stjórnmálaumræður fóru fram.