PO
EN

Yfir og allt um kring

Deildu 

Menntun er jafnréttismál, lýðheilsumál, umhverfismál, byggðamál og atvinnumál. Menntun er í raun ótal margt fleira því hún er yfir og allt um kring í öllu sem við gerum. Lífið er í raun eitt lærdómssamfélag, samfélag sem við lifum og hrærumst í um leið og við menntumst, formlega og óformlega. Svo lengi lærir sem lifir segir máltækið. Ef við viljum að íbúar landsins hljóti menntun og verði stöðugt færari um að takast á við áskoranir í síbreytilegu þjóðfélagi í örum vexti verðum við að hlúa sérstaklega vel að umhverfi og aðbúnaði unga fólksins okkar sem og allra hinna sem í nám sækja. Við verðum að skapa fjölmörg tækifæri, gefa svigrúm fyrir nýsköpun og stöðugt rýna í, breyta og bæta þau menntunartækifæri sem í boði eru.

Tækifæri fyrir öll

Það er nefnilega mikilvægt að við finnum öll til okkar, að við upplifum að við tilheyrum. Til að svo verði þurfum við fyrst og fremst að fá tækifæri. Tækifæri til náms á eigin forsendum, tækifæri til áhugamála, samskipta og vináttu og síðan tækifæri til að fá starf við hæfi og þannig skila aftur af okkur til samfélagsins. Hin eilífa hringrás. Það þarf meira en tækifæri, það þarf líka félagslegt réttlæti. Við þurfum á misjöfnum tækifærum að halda allt eftir því hver við erum, hvar okkar hæfileikar og styrkleikar liggja. Þar eiga samfélagslegar stoðir að koma inn. Kerfið svokallaða sem á að mæta okkur og grípa ef svo ber undir. Margir ná að sigla lífsveginn án teljandi áfalla eða skorts á lífsgæðum. En svo eru það þau sem þurfa á aðstoð að halda. Þau sem þurfa að nýta stoðkerfið meira en ella, hafa ekki bakland eða stuðning þegar eitthvað bjátar á. Þau þurfa kerfin að grípa. Þá þarf líka að tryggja að kerfin virki, að við höfum öll aðgang að þjónustu við hæfi hvort sem um ræðir heilbrigðis-, mennta- eða félagsþjónustu sem dæmi. Kerfin þurfa líka að vera mannúðleg og svið og deildir innan þess að koma fram við þau sem þangað leita af mannvirðingu og náungakærleik sama hvað. Við vitum nefnilega aldrei hvað liggur að baki athöfnum og atgervi fólks eða við hvaða aðstæður það býr. Það sem við vitum er að stuðnings og úrræða er þörf meira nú en áður. Lög og reglugerðir þurfa að endurspegla þennan veruleika og svo þurfa kerfin sem að okkur koma að tala saman og ráðamenn að tryggja fjármagn til reksturs.

Menntun í heimabyggð 

Ef við viljum tryggja blómlega byggð á landinu öllu verðum við að tryggja að menntun sé aðgengileg öllum, óháð búsetu. Fjölbreytt menntun og nýsköpun gegna þar lykilhlutverki og eru undirstaða jákvæðrar byggðaþróunar. Unga fólkinu okkar ætti að tryggja fjölbreytta menntunarmöguleika bæði í bóknámi og iðnnámi án þess það þurfi að þvera landið til að sækja sitt nám eða bíða þar til ákveðnum aldri er náð, því hætt er við að hugurinn leiti annað en til náms á meðan beðið er.

Það er að mörgu að hyggja hvað varðar nám að loknum grunnskóla. Tryggja þarf fjölbreytt nám í framhaldsskólum sem heldur utan um einstaklinga og er styðjandi hvað varðar þroska og hæfileika. Á þessum aldri er ungt fólk að upplifa miklar breytingar og mikilvægt að hægt sé að fara í gegn um nám á eigin hraða. Það þarf að gera ungu fólki kleift að búa áfram heima ef svo ber undir eða aðgang að heimavist eða öðru búsetuúrræði kjósi það nám sem krefst staðbundinnar viðveru í lengri eða skemmri tíma. Í framhaldsskólum þarf einnig að vera fjölbreytt námsval hvort sem er í stað- eða fjarnámi, jafnvel í samvinnu við aðra skóla og virkt samstarf við atvinnulífið ef um verknám er að ræða. Í samþykktri stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um menntamál segir meðal annars að tryggja þurfi jöfn tækifæri til menntunar óháð búsetu, þar sem sérstaklega þurfi að huga að aðgengi að iðn- og listnámi. 

Fjarnám er lykill að auknum jöfnuði

Breyta þarf viðhorfi og umhverfi háskólanáms. Leggja þarf aukna áherslu á gæða fjarnám enda mörg sem á landsbyggðunum búa stofnað heimili og jafnvel fjölskyldu. Fólk á að geta hafið nám hvenær sem er á lífsleiðinni, hvar sem það býr og sem liður í að auka menntunarstig á landsbyggðunum þarf að tryggja námsframboð. Auk þess þarf að huga að fjölbreyttum möguleikum á námi með vinnu sem og nýsköpunar- og rannsóknarstyrkjum sem eyrnamerktir eru hinum dreifðari byggðum. Efla þarf þekkingar- og fræðasetur á minni stöðum, þar ætti að vera aðstaða fyrir frumkvöðla og stuðningsaðila nýsköpunar í samræmi við 9. gr. laga um opinberan stuðning við nýsköpun (nr. 25/2001). Svokölluð stafræn nýsköpunargátt á landsbyggðunum þar sem aðgengi að stoðefni og miðlun ýmiss konar þekkingar og hæfni er í forgrunni ásamt samvinnu möguleikum, þar sem starfsfólk fyrirtækja sem fær að vinna í heimabyggð undir merkjum starfa án staðsetninga ásamt aðstöðu fyrir rannsóknir, lista- og menningarstarf. Þekkingar- og fræðasetrin geta auk þess stutt við fjarnám nemenda á framhalds- og háskólastigi og í fullorðinsfræðslu. Þar getur myndast mikill þekkingarauður og kraftur sem skilar sér út í samfélagið og eflir byggðir af öllum stærðum og gerðum eins og öflug dæmi eru um.

Tryggjum fjölbreytt nám og fjölbreyttar leiðir til að stunda nám undir merkjum byggðajafnréttis til eflingar landsins alls.

Álfhildur Leifsdóttir, kerfisfræðingur, grunnskólakennari, kennsluráðgjafi og formaður sveitarstjórnarráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Hólmfríður Árnadóttir, menntunarfræðingur og stjórnarkona í Vinstrihreyfingunni grænu framboði.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search