Search
Close this search box.

Yfirfullt hús á ráðstefnu um geðheilbriði barna

Deildu 

Á fimmta hundrað manns sækja norræna ráðstefnu um geðheilbrigði barna sem haldin verður á Grand hótel á morgun. Fjöldi manns er á biðlista. Streymt verður frá ráðstefnunni og vitað er að margir munu fylgjast með streyminu, hérlendis og erlendis.

Ráðstefnan er haldin í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og eru það Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra sem boða til hennar. Ráðherrarnir bjóða gesti velkomna kl. 9.00 og að því loknu flytur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, opnunarávarp. Þá tekur við panell norrænu ráðherranna. Þeir eru, auk Svandísar og Ásmundar Einars, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Pirkko Mattila félags- og heilbrigðismálaráðherra Finnlands, Åse Michaelsen lýðheilsu- og öldrunarmálaráðherra Noregs og Johan Carlson framkvæmdastjóri Lýðheilsustofnunar Svíþjóðar.

Kastljósinu verður beint að skólanum sem vettvangi geðræktar, forvarna og snemmtækrar íhlutunar. Geðræn vandamál koma oft snemma í ljós og geta haft mikil og langvarandi áhrif á líf fólks. Lengi býr að fyrstu gerð og því mikilvægt að hlúa að geðheilbrigði strax í æsku með geðrækt, forvörnum og veitingu gagnreyndrar meðferðar um leið og vanda verður vart. Einhver mikilvægasti skilningur sem náðst hefur í þessum málaflokki hin síðari ár er að geðheilbrigði þjóða sé ekki fyrst og fremst viðgangsefni heilbrigðisþjónustunnar heldur velti það ekki hvað síst á öflugu menntakerfi, félagsþjónustu, dómsmálakerfi og samvinnu við sveitarfélög.

Mikilvægt er að hafa hugfast að góð geðheilsa og líðan byggist á ákveðinni færni og þekkingu: Þekkingu á eigin tilfinningum og færni í því að takast á við þær, þekkingu á eigin styrkleikum og veikleikum og færni í því að nýta sér þá sem best í lífinu. Þetta er hægt að kenna og ábyrgð samfélagsins liggur í því að koma börnum sem vaxa úr grasi til manns með þessa færni í farteskinu. Skólakerfið er kjörinn vettvangur til slíkrar kennslu.

Á ráðstefnunni leiða saman hesta sína norrænir og alþjóðlegir sérfræðingar, fagfólk, fulltrúar stjórnsýslu, ráðherrar og ungmenni til þess að varpa ljósi á hvernig við getum betur nýtt skólann til að efla geðheilbrigði barna.

Ungmenni taka virkan þátt í ráðstefnunni

Mikil áhersla er lögð á þátttöku ungmenna í ráðstefnunni. Ráðherrar munu ræða málin í pallborði og sérfræðingar flytja lykilerindi um árangursríkar leiðir til að efla geðheilbrigði barna og ungs fólks. Finnar hafa náð góðum árangri í skólamálum, geðrækt og forvörnum og á morgun verður á ráðstefnunni vinnustofa um hagnýtar aðferðir sem nýst hafa Finnum vel til að efla félags og tilfinningafærni barna. Þar sem mikill áhugi hefur verið fyrir vinnustofunni og færri komast að en vilja verður streymt frá henni sérstaklega. Einnig verður haldin málstofa um jaðarsett börn og mikilvægi samráðs við börn. Önnur málstofa verður um heilsu barna almennt í víðu samhengi. Börn og ungmenni verða í aðalhlutverki á báðum málstofunum.

Í lok dags munu norræn ungmenni ræða upplifun sína og sýn á markmið ráðstefnunnar.

Ráðstefnan hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur hérlendis sem erlendis og fljótt var orðið fullt í öll sæti. Í ljósi vinsælda ráðstefnunnar og áhuga fólks á þessu mikilvæga umræðuefni verður ráðstefnunni streymt beint en einnig verða upptökur aðgengilegar að henni lokinni. Hlekkur á streymið verður aðgengilegur á vef ráðstefnunnar samdægurs.

Ráðstefnan verður haldin á ensku og ber titilinn Emotional Well-being of Children: School as the Venue for Mental Health Promotion, Prevention and Early Intervention. Ráðstefnan verður haldin fimmtudaginn 28. mars 2019 á Grand Hótel í Reykjavík.

Vefsíða ráðstefnunnar er á slóðinni www.summit2019.is

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search