PO
EN

Yfirlýsing frá Norrænum Vinstri Grænum

Deildu 

Norræn vinstri græn (NGV) fordæma harðlega árásir á palestínsku þjóðina. Við lýsum yfir okkar dýpstu samstöðu með óbreyttum borgurum á Gazaströndinni, Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem. Ástand mannúðarmála á þessum svæðum er ólýsanlega grimmilegt og algjörlega óásættanlegt. Ísrael rekur stefnu gjöreyðingar og kerfisbundins hungurs, sem í reynd veldur því þjóðarmorði sem nú stendur yfir.

Tryggja verður að mannúðaraðstoð berist til þessara svæða tafarlaust og án takmarkana. Ísraelsríki ber að tryggja öruggan aðgang að mat, neyðaraðstoð og lækningabúnað. Við gerum alvarlegar athugasemdir við það hvernig Ísraelsríki brýtur gróflega gegn alþjóðalögum og mannréttindasáttmálum.

Við teljum að alþjóðasamfélagið verði að bregðast við tafarlaust og af festu. Við krefjumst þess að norrænu ríkisstjórnirnar og Evrópusambandið:

· Stöðvi öll vopnaviðskipti við Ísrael.

· Beiti efnahagslegum refsiaðgerðum og viðskiptabanni gegn Ísrael á meðan hernámið og árásirnar halda áfram.

· Þau Norðurlönd sem enn hafa ekki viðurkennt sjálfstæði Palestínu verði að gera það án frekari tafar. Þetta er nauðsynlegt og ábyrgt skref til stuðnings réttlátri og varanlegri lausn.

Norðurlöndin verða að axla meiri ábyrgð gagnvart fólki á flótta og:

· Auka móttöku flóttafólks frá Palestínu, með sérstakri áherslu á börn, fatlað fólk og sjúka sem þurfa heilbrigðisþjónustu.

· Tryggja skjótari fjölskyldusameiningar og efla móttöku- og umönnunarúrræði.

· Senda þegar í stað að minnsta kosti tvö sjúkrahússkip til Gazastrandarinnar.

Fyrirtæki sem stuðla að eða hagnast á stríðsglæpum verða látin sæta ábyrgð. Þetta á einnig við um opinbera fjárfestingarsjóði. Til dæmis hefur verið sýnt fram á að Norski olíusjóðurinn hafi fjárfest í fyrirtækjum sem stuðla að brotum á alþjóðalögum og þjóðarmorði, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að siðareglum hafi verið fylgt. Við teljum að Norska olíusjóðnum beri skylda til að draga sig algjörlega út úr fyrirtækjum í Ísrael.

Við krefjumst fulls gagnsæis varðandi tengsl norrænna ríkja við átökin, þar á meðal:

· Yfirlits yfir norræna ríkisborgara sem þjóna í ísraelska hernum.

· Skýrleika hvað varðar norræna ríkisborgara sem búa í ólöglegum landnemabyggðum á hernumdum svæðum Palestínu.

Við krefjumst þess að lög og alþjóðalög séu virt – einnig á Vesturbakkanum – og að ólöglegt landnám sem fer gegn alþjóðalögum verði ekki liðið. Norðurlöndin verða að ganga á undan með því að virða og styrkja alþjóðalög þegar kemur að skiptingu og yfirráðum yfir Vesturbakkanum.

Við krefjumst þess að stríðinu ljúki, að um vopnahlé verði samið tafarlaust og að allir gíslar verði leystir úr haldi. Það er brýnt að réttindi og líf óbreyttra borgara séu virt. Við tökum skýra afstöðu gegn öllu gyðingahatri og leggjum áherslu á að gagnrýni á gjörðir Ísraelsríkis megi aldrei rugla saman við hatur á gyðingum.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search