Search
Close this search box.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga við aðildarfélög BSRB – endurmat á launum kvennastétta.

Deildu 

Við gerð kjarasamninga við aðildarfélög BSRB 9. mars sl. urðu stjórnvöld og BSRB sammála um að stjórnvöld beiti sér fyrir framgangi verkefna er varða almenna velferð barnafjölskyldna í landinu og launajafnrétti með endurmati á launum kvennastétta.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur af þessu tilefni lagt fram yfirlýsingu ríkisstjórnar sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 13. mars sl.

Í yfirlýsingunni er tekið fram að ríkisstjórnin muni með vísan til áherslna sem fram komu við kjarasamningsgerðina setja af stað vinnu við heildarendurskoðun á stuðningi við barnafjölskyldur og endurmati á störfum kvenna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Þegar við tökum ákvarðanir um framþróun stuðningskerfa okkar er nauðsynlegt að geta byggt það á ítarlegum greiningum og gögnum. Við erum að fara af stað með nauðsynlega vinnu annars vegar í þágu barnafjölskyldna í landinu og hins vegar endurmati á störfum kvenna. Unnin verður greining á stuðningi við barnafjölskyldur undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra. Þá mun ég skipa starfshóp sem mun leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og vænti ég þess að fá tillögur til baka fyrir lok árs 2021.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB:

„Meginástæðan fyrir launamuni kynjanna er hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn er. Til að útrýma megi þeim launamun þarf fyrst að greina stöðuna og í kjölfarið endurmeta verðmæti þessara mikilvægu starfa þar sem konur eru í meirihluta. Markmiðið með barnabótakerfinu er að jafna tekjur og brúa bilið milli þeirra tekjulægri og þeirra sem hafa meira milli handanna. Kerfið hefur að meginstofni til verið óbreytt í fjölda ára og því er mikilvægt að greina stuðning til barnafjölskyldna með heildstæðum hætti og endurmeta með hliðsjón af þörfum nútímafjölskyldna.“

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í  tengslum við gerð kjarasamninga við aðildarfélög BSRB 9. mars 2020

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search