PO
EN

Yfirlýsing vegna yfirtöku Ísraels á Vesturbakkanum

Rósa Björk

Deildu 

Við undirrituð lýsum áhyggjum af áætlun nýrrar ríkisstjórnar Ísraels um innlimun á svæðum Palestínumanna og áhrifum þess á deilur og átök Ísraela og Palestínumanna.

Áætlunin brýtur alþjóðalög og gengur gegn alþjóðlegum samþykktum og ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um málefni Palestínu og Ísraels. Hún gengur þvert á markmið um réttláta tveggja ríkja lausn, sem samið var um í Osló og Evrópa hefur beitt sér fyrir í áratugi, og setur fullkomið bakslag í alla möguleika á friðarviðræðum.

Framkvæmd áætlunar ríkisstjórnar Ísraels mun skapa mikla spennu á svæðinu, enda myndi hún skilja íbúa Palestínu eftir án vonar um fullmótað fullveldi og lífvænlegt ríki. Samkomulag ríkisstjórnar Ísraelsríkis kveður á um að byggingar nýrra landnemabyggða geti hafist strax á næstu dögum og vikum. Yfirgnæfandi líkur eru á að það muni endanlega gera út um horfur um frið milli Ísraela og Palestínumanna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ísland á sérstakt samband við Palestínu. Við vorum fyrsta Vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis árið 2011 og erum aðilar að fríverslunarsamningi við Palestínu í gegnum EFTA. Við höfum einnig söguleg tengsl við Ísraelsríki frá stofnun þess árið 1948.

Undirrituð hvetja utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands til að beita sér með ákveðnum og skýrum hætti fyrir friðsamlegri lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna og að koma því skýrt á framfæri við ísraelsk stjórnvöld að áform þeirra gagnvart Palestínu séu óviðunandi.  Ísland hefur alltaf stutt tveggja ríkja lausnina og ber ávallt að tala fyrir því að alþjóðalög séu virt og að diplómatískum og friðsamlegum leiðum sé beitt í deilum Ísraela og Palestínumanna.  Það er söguleg nauðsyn nú sem aldrei fyrr.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður og varaformaður utanríkismálanefndar.

Logi Einarsson, þingmaður í utanríkismálanefnd og form. Samfylkingarinnar.

Smári McCarthy, þingmaður í utanríkismálanefnd og form. þingmannanefndar EFTA og EES.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður í utanríkismálanefnd.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search