PO
EN

Yfirlýsing Vinstri grænna vegna sprengjuárása Bandaríkjanna á Íran

Deildu 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð fordæmir loftárásir Bandaríkjanna á Íran í nótt. Árásirnar eru atlaga að alþjóðalögum og brot á þjóðarétti, þ.m.t. Sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðlegur samtakamáttur og virðing fyrir mannréttindum þurfa að ráða för við lausn á átökum, ekki valdbeiting og ólögmætar hernaðaraðgerðir.

VG lýsir miklum áhyggjum yfir aukinni spennu í Mið-Austurlöndum og telur að árásir Bandaríkjanna á Íran í nótt muni enn magna átök í heimshlutanum og leiða til enn meiri hörmunga en heimsbyggðin hefur þegar horft upp á. 

VG krefst þess að ríkisstjórn Íslands:

  1. Fordæmi opinberlega allar árásir sem grundvallaðar eru á valdbeitingu gegn fullvalda ríki án samþykkis Öryggisráðs SÞ, hvar sem er og hver sem í hlut á.
  2. Taki undir með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og krefjist tafarlausra diplómatískra aðgerða til að draga úr spennu, meðal annars með því að hvetja til  tafarlausra vopnahlés- og friðarviðræðna undir forystu SÞ.
  3. Auki stuðning við mannúðar- og þróunarsamvinnu í Mið-Austurlöndum sérstaklega, þannig að áhrif átakanna á almenning verði sem minnst.
  4. Undirstriki þá stefnu að hernaðaríhlutun og valdbeiting sé ekki leið til friðar, heldur sé þvert á móti líkleg til að magna átök og óstöðugleika.

Stjórn VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search