Search
Close this search box.

Kosningaáherslur fyrir alþingiskosningar 2021

Það skiptir máli hver stjórnar

 • Með VG í forystu ríkisstjórnar höfum við hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi að til að ­tryggja öllum velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum. Það skiptir alltaf máli en ekki síst þegar óvænt áföll dynja á. 
 • Stjórnmál samtímans snúast um að brúa bilið milli þeirra verst settu og þeirra best settu og auka þannig sátt, samstöðu og velsæld til framtíðar. Það þarf að láta ­verkin tala, leysa úr ágreiningi og vera reiðubúin að gera málamiðlanir til að ná árangri fyrir samfélagið allt. 


Leysum málin með hagsmuni fólksins í landinu að leiðarljósi

Efnahagur

Efnahagsstefnan þarf að tryggja velferð og fjölbreytni

Skattkerfið á að vera réttlátt jöfnunartæki

 • Öflugt samtal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er undirstaða ­samfélagslegra framfara og efnahagslegs stöðugleika. 
 • Tryggjum áfram lága vexti og sterka velferð með því að viðhalda samspili ­ríkisfjármála og peningastefnu. Nýta á skattkerfið til að jafna kjör, og meta kosti þess að taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt. Skattkerfið á að styðja við markmið í loftlagsmálum.
 • Sköpum ný og fjölbreytt græn störf og komum í veg fyrir langtímaatvinnuleysi.
 • Tíminn er dýrmætur og mikilvæg lífsgæði. Meta þarf ávinning af styttri ­vinnuviku og halda áfram að tryggja jafnvægi einkalífs og atvinnu. 
 • Höldum áfram að styrkja rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar. Næsta skref á að vera að styrkja enn betur við Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð og gera varanlegar breytingar til að fjölga starfslaunum listamanna.
 • Háskólar eru undirstaða sterkari þekkingargeira. Tryggja þarf sambærilega ­fjármögnun þeirra og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.
 • Höldum áfram opinberum framkvæmdum sem eru löngu tímabærar, ljúkum við byggingu Listaháskóla í Tollhúsinu, ljúkum byggingu nýs Landspítala, ljúkum viðbyggingu við endurhæfingardeild Landspítala við Grensás og legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri. Halda þarf áfram uppbyggingu hjúkrunarheimila og að bæta húsnæði framhaldsskóla og heilsugæslu um land allt. Ljúkum við uppbyggingu Björgunarmiðstöðvar, aukum öryggi og drögum úr losun með fjölbreyttum samgönguframkvæmdum og höldum áfram uppbyggingu gestastofa og annarra innviða á náttúruverndarsvæðum og ferðamannastöðum um land allt.
 • Styðja þarf betur við innlenda matvælaframleiðslu, vinna tímasetta áætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu, auka stuðning við grænmetisrækt og tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar.
 • Efla þarf grænar fjárfestingar og loftslagsvæna nýsköpun. Skoða þarf að lögfesta skyldur á lífeyrissjóði og fjármálastofnanir um að fjárfestingar þeirra séu metnar og greindar út frá loftslagsáhrifum og samfélagslegri ábyrgð.
 • Heilbrigt atvinnulíf byggist á gagnsæi um eignarhald og skýrum leikreglum þar sem félagsleg undirboð eiga ekki að líðast. Við viljum réttlátt skattkerfi þar sem er ekkert rými fyrir skattaundanskot. Skýrar leikreglur tryggja heilbrigðan vinnumarkað.

Efnahagsstefna okkar tryggir velsæld almennings

Umhverfi

Ísland á að vera í fararbroddi í að losa minna og menga minna

Heilnæmt umhverfi er hluti af góðu samfélagi.

Við stöndum vörð um ósnortna náttúru

 • Þau sem nýta auðlindir í þjóðareign, hvort sem það er land, orka, sjávarauðlindin eða annað, þurfa að greiða sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu. Alþingi á að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd.
 • Ísland þarf að sýna forystu og frumkvæði í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með tímasettri áætlun um orkuskipti í samgöngum, þungaflutningum, ­sjávarútvegi, landbúnaði og byggingariðnaði með það að markmiði að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2045.
 • Markmið Íslands verði uppfærð og stefnt að auknum samdrætti í losun eða a.m.k. 60% árið 2030 og kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. 
 • Allar loftslagsaðgerðir þurfa að tryggja jöfnuð þannig að umskipti yfir í grænt ­hagkerfi verði réttlát.
 • Leggja skal áherslu á fjölbreytta samgöngumáta, þ.m.t. göngu- og hjólastíga. Tryggja þarf orkuskipti í almenningssamgöngum samhliða eflingu þeirra. Græn tenging milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar verði eitt af forgangsmálunum. Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínu. Efla þarf almenningssamgöngur um land allt og gera þær að raunhæfum valkosti.
 • Hringrásarhagkerfið skapar sóknarfæri til að skapa ný græn störf sem byggja á þekkingu og nýsköpun. Þannig fara saman umhverfismarkmið og samfélagsmarkmið.
 • Ísland getur náð einstökum árangri í náttúruvernd á alþjóðavísu með því að vernda óbyggð víðerni. Stefna ber að verndun 30% svæða á landi og á hafi fyrir árið 2030. Áfram þarf að vinna að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og þjóðgarðs á Vestfjörðum. Slíkir þjóðgarðar eru einnig mikilvægir til að tryggja vernd jarðfræðilegrar og líffræðilegrar fjölbreytni. 
 • Afgreiða þarf 3. áfanga rammaáætlunar. Endurskoða þarf löggjöfina um rammaáætlun með náttúru- og minjavernd að leiðarljósi, alþjóðlegar skuldbindingar um líffræðilega fjölbreytni og landslagsheildir og byggja jafnframt á mati á framkvæmd gildandi löggjafar í samráði við hagaðila og sérfræðinga. Endurskoða þarf stærðarviðmið virkjanaframkvæmda þar sem megavött eru ómarktækur mælikvarði á umhverfisáhrif og halda þarf áfram vinnu við ­endurskoðun á regluverki vegna ­vindorku. 
 • Orkuþörf samfélagsins þarf að meta á forsendum grænnar uppbyggingar og ­sjálfbærni. 
 • Almenningur á að hafa beina aðkomu að ákvörðunum snemma í ferli ákvarðanatöku með góðu aðgengi að upplýsingum og þátttökurétti.
 • Tengjum saman allar einingar stjórnkerfisins til að ná markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum undir hattinum Sjálfbært Ísland.

Ísland á að vera í forystu um róttækar, raunhæfar og réttlátar aðgerðir í ­umhverfismálum og beita sér af krafti innanlands og á alþjóðavettvangi

Velferð

Tryggjum afkomu allra

Tryggjum öllum aðgang að grunnþjónustu

Tryggjum þak yfir höfuðið fyrir okkur öll

 • Tryggjum öllum aðgang að húsnæði og aukum stöðugleika á húsnæðismarkaði með því að auka enn frekar stuðning við félagslegt húsnæði og fjölga íbúðum í almenna íbúðakerfinu. 
 • Vinnum markvisst gegn fátækt barna og bætum hag tekjulægri fjölskyldna með því að halda áfram endurreisn barnabótakerfisins og láta það ná til fleiri barnafjölskyldna.
 • Bætum lífskjör öryrkja og sköpum fleiri tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu með réttlátum úrbótum á framfærslukerfi öryrkja þar sem tekjulægstu hóparnir og öryrkjar með börn eru í forgangi. Fjölgum hlutastörfum fyrir fólk sem býr við skerta starfsgetu.
 • Aukum getu opinbera heilbrigðiskerfisins þannig að það standi enn betur en fyrir heimsfaraldur, geti sinnt fleiri verkefnum og skili enn betri árangri um land allt. Aukin fjárfesting í innviðum heilbrigðiskerfisins og bættri heilsu skilar margföldum ávinningi fyrir samfélagið allt.
 • Höldum áfram að lækka kostnað sjúklinga með því að afnema öll komugjöld í heilsugæslunni og lækka gjöld fyrir aðra heilbrigðisþjónustu, lyf og hjálpartæki.
 • Tryggjum menntun og mönnun og bætum starfsskilyrði í heilbrigðisþjónustu til langs tíma með markvissri aðgerðaráætlun.
 • Stuðlum að samtali kynslóðanna um stór og lítil mál, setjum fram aðgerða­áætlun gegn einmanaleika aldraðra. Byggjum upp fjölbreyttari úrræði fyrir eldra fólk í samstarfi við sveitarfélögin í landinu og gerum fólki kleift að búa lengur heima.
 • Gerum úrbætur á almannatrygginga- og lífeyriskerfinu til að auðvelda ­sveigjanleg starfslok og gerum fólki kleift að vinna lengur.
 • Tryggjum búsetujafnrétti og frelsi fólks til að velja sér búsetu með eflingu og uppbyggingu innviða og grunnþjónustu um land allt. Góð grunnþjónusta, öflug fjarskipti, fjölbreyttar og greiðar samgöngur sem tengja byggðarlög um land allt eru lykilþættir fyrir allar byggðir landsins.
 • Rekum öfluga menningarstefnu sem tryggir aðgengi að menningu og listum, skapar möguleika á þátttöku í skapandi starfi og mætir þörfum ólíkra hópa ­samfélagsins. Menningarstarf og þátttaka í því eykur velsæld og er hluti af innviðum samfélagsins.
 • Tökum vel á móti fólki á flótta, bæði kvótaflóttamönnum og umsækjendum um alþjóðlega vernd, enda aldrei fleira fólk verið á flótta vegna stríðsátaka og loftslagsbreytinga.
 • Höldum áfram að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu um land allt. Byggjum upp raunverulegar forvarnir í geðheilbrigðismálum og bregðumst við kvíða ungs fólks með bættum úrræðum og samráði við unga fólkið.
 • Samþættum forvarnir og heilsueflingu inn í alla stefnumótun hins opinbera og byggjum þannig upp heilbrigðara samfélag. Vinnum markvisst gegn heilsufarslegum ójöfnuði.

Aukum velsæld, lífsgæði og hamingju fólks.

Jafnrétti

Jafnrétti kynjanna og mannréttindi allra eru undirstaða heilbrigðs lýðræðissamfélags

 • Höldum áfram því verkefni að útrýma kynbundnu ofbeldi í samfélaginu.
 • Tryggjum betur réttarstöðu brotaþola kynbundins ofbeldis, kynferðisofbeldis og áreitni með skýrum lagabreytingum og markvissri framkvæmd.
 • Stígum stór skref í að útrýma launamun kynjanna, m.a. með því að endurmeta störf kvennastétta og tryggjum það að Ísland standi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um fullt jafnrétti kynjanna fyrir árið 2030.
 • Innleiðum Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og stofnum sjálfstæða mannréttindastofnun til þess að fylgja því eftir sem og öðrum mikilvægum verkefnum á sviði mannréttinda.
 • Stígum fleiri skref í hinsegin stjórnmálum og spornum gegn hatursorðræðu gegn hinsegin fólki.

Við þurfum ríkisstjórn sem er alltaf á vaktinni þegar kemur að mannréttindum og jafnrétti kynjanna. 

Menntun

Tækifæri framtíðar byggjast á að við öll getum ræktað hæfileika okkar

 • Tryggja þarf fullt jafnrétti til náms. Horfa þarf sérstaklega til fjölbreyttra valkosta í námi, búsetu, aldri, kyni og framfærslu. Þetta á við um öll skólastig og fjarnám, sí- og endurmenntun. 
 • Meta þarf reynsluna af Menntasjóði námsmanna á kjörtímabilinu og kanna hvernig breytingar á kerfinu hafa tryggt betur jafnrétti til náms. Sérstaklega þarf að skoða hvernig sjóðurinn getur stuðlað betur að byggðajafnrétti.
 • Klárum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Fyrsta skrefið var að
  lengja fæðingarorlof og næsta skrefið er að gera tímasetta áætlun í
  samstarfi við sveitarfélögin um hvernig leikskólarnir geta tekið við börnum að loknu fæðingarorlofi.
 • Sköpum framhaldsskólanemum aukið svigrúm til fjölbreytni og félagsstarfs með auknum sveigjanleika í námslengd á framhaldsskólastigi.
 • Stefnt skal að því að leggja af sérstök skólagjöld í listnámi á háskólastigi.
 • Höldum áfram að bæta fjármögnun háskólakerfisins og tryggjum að háskólarnir geti verið aflstöðvar um land allt. 
 • Tryggja þarf aðgengi að iðn- og verknámi um land allt. Greina þarf
  möguleika á fleiri heimavistarrýmum í tengslum við iðnnámsskóla og nýta möguleika fjarnáms til hins ítrasta. 
 • Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu þannig að hún taki mið af
  áskorunum samtímans, ekki síst tæknibreytingum og grænni umbreytingu.
 • Eflum sveitarfélögin og tryggjum jafnrétti óháð búsetu.

Við tryggjum jöfn tækifæri.

Skoðaðu stefnumál Vinstri grænna

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search