Landsfundur 2021.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tryggja blómlega byggð í öllum landshlutum. Fjölbreytt atvinnulíf, menntun og nýsköpun, heilbrigðis- og félagsþjónusta ásamt góðum samgöngum, er undirstaða jákvæðrar byggðaþróunar. Allir landshlutar eiga að geta boðið upp á fjölbreytt og aðlaðandi búsetuskilyrði fyrir núverandi íbúa, nýja íbúa og nýjar kynslóðir.
Flutningur á orku, upplýsingum, vörum og fólki
Greiður flutningur á orku, upplýsingum, vörum og fólki innan landshluta og á milli þeirra er ein meginforsenda byggðar í landinu. Fjárfesting í þessum innviðum treystir byggð um land allt.
- Treysta þarf þann grundvallarrétt að almenningur hafi tryggan aðgang að raforku með uppbyggingu flutnings- og dreifikerfisins og jafna til fulls flutningsgjöld. Mismunandi flutningsgjöld á raforku veikja búsetuskilyrði.
- Tryggja þarf öfluga og örugga fjarskiptaþjónustu í dreifðum byggðum ásamt því að gera sérstakt átak í bættu fjarskiptasambandi á helstu stofnvegum landsins. Flýta þarf uppbyggingu á traustum háhraðanettengingum og jafna þann kostnað sem íbúar í dreifðari byggðum verða fyrir vegna þeirrar uppbyggingar.
- Tryggja þarf að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur fyrir þau sem vilja ferðast innan og á milli landshluta.Vöru- og fólksflutninga þarf að treysta um allt land með uppbyggingu og þjónustu vegakerfisins með gerð jarðgangna, styttingu leiða, breikkun á einbreiðum brúm og vegum og bættri vetrarþjónustu. Gerð jarðgangna er víða skilvirkasta aðgerðin til að styrkja búsetu.
- Styðja þarf sérstaklega við loftslagsvænar lausnir í flutningi á vörum og fólki s.s. með uppbyggingu hleðslustöðva og rafvæðingu hafna um allt land.
Lýðræði og byggðarþróun
Ólíkir landshlutar bjóða upp á ólík tækifæri og ólíkar áskoranir m.t.t. til atvinnu, samgangna og framkvæmdar á opinberri þjónustu.
- Styrkja þarf landshlutana með auknu samstarfi eða sameiningum sveitarfélaga. Efla þarf samráð ríkisins og sveitarfélaga.
- Tryggja þarf rétt íbúa í hverju sveitarfélagi til grunnþjónustu með því að skilgreina lágmarksþjónustuviðmið hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga.
- Mikilvægt er að auka byggðajafnrétti, s.s. með að gæta að því að fulltrúar ólíkra landshluta hafi sæti í nefndum á vegum ríkisvaldsins og með því að efla svæðisstöðvar RÚV í öllum landshlutum.
- Efla þarf almennt íbúalýðræði. Styðja þarf sérstaklega við lýðræðisþátttöku jaðarsettra hópa sem eiga mun færri fulltrúa í ráðum og nefndum en hlutfall þeirra segir til um. Mikilvægt er að stytta til muna þann tíma sem það tekur fyrir innflytjendur að fá kosningarétt til sveitarstjórna.
- Allt lagaumhverfi þarf að taka mið af fjölbreyttu búsetuformi, t.d. tímabundinni búsetu í ólíkum landshlutum. Styðja þarf við fjölbreytt mannlíf og fjölbreytt atvinnulíf í ólíkum landshlutum, t.d. með því að taka vel á móti innflytjendum og flóttafólki.
- Byggðaáætlun ríkisstjórnar ásamt aðgerðaáætlun eru mikilvæg verkfæri í byggðarþróun. Gæta þarf að því að uppfæra reglulega upplýsingar um stöðu og framþróun aðgerða.
Atvinna, nýsköpun, menntun og menning
- Hvetja þarf atvinnurekendur að auglýsa störf án staðsetningar. Opinberar stofnanir ættu að hafa forgöngu um að auglýsa störf án staðsetningar.
- Styðja þarf við uppbyggingu á fjölbreyttri atvinnustarfssemi í dreifbýli með því að treysta innviði, t.d. flutningskerfi raforku og fjarskipta ásamt uppbyggingu og þjónustu vegakerfisins.
- Styðja þarf við fullvinnslu afurða þar sem hráefnið verður til, það skapar atvinnu, dregur úr flutningskostnaði og minnkar kolefnisspor.
- Náttúruvernd er mikilvægur þáttur í jákvæðri byggðaþróun. Fjölga þarf friðlýstum svæðum og þjóðgörðum sem eykur aðdráttarafl og eflir þannig ferðaþjónustu sem skilar mörgum störfum og efnahagslegum ávinningi heim í hérað.
- Mikilvægt er að opinber stuðningur við nýsköpun standi öllum til boða óháð efnahag og búsetu. Brýnt er að nýta þá innviði sem til staðar eru á landsbyggðunum með góðu samstarfi við háskólana og atvinnulífið. Sérstaka byggðaáherslu þarf við úthlutun úr rannsókna- og nýsköpunarsjóðum.
- Auka þarf menntunarstig í dreifðari byggðum, t.d. með því að taka upp afslátt eða niðurfellingu á endurgreiðslu námslána. Efla þarf framhaldsskólana þannig að börn geti búið heima hjá sér til 18 ára aldurs. Tryggja þarf námsframboð iðn-, verk-, og tæknigreina í öllum landshlutum í takti við þarfir samfélaganna. Möguleikar til fjarnáms þurfa að vera almennir og tryggja þarf fjármögnun þess.
- Tryggja þarf tækifæri fyrir öflugt menningarstarf um allt land fyrir og með þátttöku allra aldurshópa og fólks með ólíkan bakgrunn. Styrkir til menningarstarfsemi þurfa að ná til allra byggða landsins. Má þar nefna safnastarfssemi, menningar- og listviðburði og vinnustofur fyrir listamenn. Styðja þarf að auknum krafti við menningarstofnanir og miðstöðvar um landið allt.
Heilbrigðisþjónusta, velferðarþjónusta og húsnæðismál
- Gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu í nærsamfélaginu er ein meginforsendan fyrir góðum búsetuskilyrðum. Styrkja þarf heilsugæslu og heilbrigðisstofnanir um allt land ásamt öruggum sjúkraflutningum. Á hverri heilbrigðisstofnun þarf að vera til staðar öflugt teymi heilbrigðisstarfsfólks sem getur sinnt bæði líkamlegum og andlegum þáttum heilbrigðis. Tryggja þarf reglulega þjónustu sérfræðilækna og annarra sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu.
- Efla þarf fjarheilbrigðisþjónustu sem er skilvirk og þægileg aðferð fyrir margt fólk. Nýta þarf betur möguleika „Heilsuveru“ og annarra samskiptatækja í því tilliti.
- Sterk og fagleg velferðarþjónusta sveitarfélaga er grundvallarstoð í réttlátu og öflugu samfélagi. Íbúar allra sveitarfélaga þurfa að hafa gott aðgengi að félagslegri ráðgjöf og þjónustu sem mætir þörfum þeirra í ólíkum áskorunum á lífsleiðinni. Heildarsýn, virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings, hjálp til sjálfshjálpar og stuðningur til fullrar þátttöku í samfélaginu skal vera markmið góðrar velferðar- og félagsþjónustu.
- Innleiða þarf opinber rafræn skilríki sem eru aðgengileg öllum sem hluta að aðgangi að opinberri þjónustu.
- Víða um land er húsnæðisskortur vegna mismunar á byggingarkostnaði og markaðsverði. Einkum er skortur á leiguhúsnæði og litlum íbúðum. Efla þarf samvinnu sveitarfélaga, ríkis og óhagnaðardrifinna byggingarfélaga þannig að byggt verði meira af hagkvæmu og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði. Áhersla þarf að vera á leiguíbúðir og kaupleiguíbúðir sem henta bæði einstaklingum og fjölskyldum.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að:
- Jafna flutningsgjöld á raforku til fulls
- Uppbyggingu dreifikerfis fjarskipta og raforku verði flýtt
- Almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur um allt land
- Loftslagsvænar lausnir liggi til grundvallar í samgöngum
- Réttur íbúa til grunnþjónustu verði tryggður með skilgreiningu á lágmarksþjónustuviðmiði ríkis og sveitarfélaga
- Efla byggðajafnrétti með þátttöku fulltrúa frá öllu landinu í nefndum og ráðum ríkisins og efla svæðisstöðvar RÚV um allt land
- Hið opinbera hafi forgöngu um að auglýsa störf án staðsetningar og aðrir atvinnurekendur verði hvattir til hins sama
- Efla námsframboð á öllum skólastigum í öllum landshlutum
- Styrkja heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir og fjarheilbrigðisþjónustu
- Byggja upp meira af hagkvæmu og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði um allt land