PO
EN

Ár framfara og áskorana

Deildu 

Krefjandi, viðburðaríkt, árangursríkt. Öll þessi orð koma mér í hug þegar árið 2019 er rifjað upp. Í apríl voru lífskjarasamningarnir undirritaðir á almennum vinnumarkaði en þeir mörkuðu ákveðin tímamót. Þeir eru umbótasamningar sem fólu annars vegar í sér nýja nálgun aðila vinnumarkaðarins á kjarasamninga og hins vegar ríkari aðkomu stjórnvalda en áður hefur tíðkast.

Ríkisstjórnin gaf út veigamikla yfirlýsingu um aðgerðir og umbætur til að bæta lífskjör í landinu og studdi þannig við samningana. Í lok árs voru samþykkt ýmis lög á Alþingi á grundvelli yfirlýsingarinnar. Samþykkt var nýtt þriggja þrepa skattkerfi sem er réttlátara og skilar skattalækkun sem verður mest hjá tekjulægri hópum. Samhliða því hækka barnabætur og hafa þær þá hækkað um 27% frá árinu 2018. Alþingi samþykkti frumvarp um uppbyggingu almennra íbúða og á næsta ári styrkja stjórnvöld byggingu tvöfalt fleiri íbúða en áætlað var. Þá verður fæðingarorlof lengt í heilt ár, sem er risastórt framfaramál fyrir allt barnafólk á Íslandi. Frekari aðgerðir eru framundan, þ. á m. fyrstu skrefin til afnáms verðtryggingar og aðgerðir gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði sem er samfélagsleg meinsemd sem ekki getur liðist.

Með lífskjarasamningunum er stigið mikilvægt skref til að peningastefna, ríkisfjármálastefna og vinnumarkaðsstefna vinni saman en frá undirritun hafa stýrivextir Seðlabankans lækkað töluvert og eru nú 3%.

Samfélagsleg framfaramál

Komandi ár verður krefjandi á sviði efnahagsmála þó að góður árangur hafi náðst. Framundan er verk að vinna við að auka opinbera fjárfestingu og blása þannig byr í seglin án þess að missa tökin á hagstjórninni. Þá þurfa samningar við opinbera starfsmenn að takast. Undanfarin misseri hafa minnt á að hagstjórn snýst um að vera stöðugt á vaktinni og tryggja þetta viðkvæma samspil með stóru myndina í huga: Að efnahagslegur stöðugleiki þarf að fara saman við velsæld almennings og sjálfbæra nýtingu auðlinda án þess að gengið sé á umhverfisleg gæði til framtíðar.

Samfélagsleg framfaramál hafa þó ekki verið bundin við úrlausnarefni á vinnumarkaði. Þannig hafa verið stigin stór skref á undanförnum tveimur árum til að draga úr kostnaði sjúklinga við heilbrigðisþjónustu en þar hefur sérstaklega verið forgangsraðað öryrkjum og öldruðum, fyrst hvað varðar tannlæknakostnað, og í kjölfarið komugjöld á heilsugæslustöðvar. Áform eru um að verja 3,5 milljörðum á komandi árum til að draga enn frekar úr sjúkrakostnaði fólks.  Um leið hefur verið stóraukin þjónusta á sviði geðheilbrigðis innan heilsugæslunnar auk ýmissa annarra umbótamála á þessu sviði.

Í sumar samþykkti Alþingi að draga úr skerðingum á greiðslur til örorkulífeyrisþega sem hefur verið baráttumál þeirra til margra ára. Það er fyrsta skrefið sem stigið hefur verið í þeim efnum í áratug.

Réttindabarátta skilar árangri

Þau réttindi sem við teljum sjálfsögð hafa sjaldnast fengist nema vegna mikillar baráttu. Sú barátta hefur skilað mikilvægum framförum á undanförnum tveimur árum. Tveir lagabálkar um jafna meðferð fólks tóku gildi í fyrra og nú á árinu samþykkti Alþingi lög um kynrænt sjálfræði sem marka tímamót fyrir þau sem vilja velja sér kyn og breyta kynskráningu sinni. Það var sérlega gleðilegt hve breið pólitísk samstaða var um málin á þingi. Á haustmánuðum rifjaðist hins vegar upp fyrir mörgum að svo hefur ekki alltaf verið þegar hinir afbragðs góðu þættir Hrafnhildar Gunnarsdóttur, Svona fólk, voru sýndir í Ríkissjónvarpinu.

Framundan er vinna við endurskoðun jafnréttislaga og á þessu ári var  mikilvægt skref stigið í jafnréttisátt þegar ný þungunarrofslöggjöf var samþykkt sem styrkir sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Þegar kemur að jafnrétti kynjanna er þó enn mikið verk óunnið, ekki síst á sviði kynbundins ofbeldis, sem fjallað var um á Metoo-ráðstefnu stjórnvalda í Hörpu í haust sem vakti athygli langt út fyrir landsteinana. Markmið okkar á að vera að útrýma meinsemdinni sem kynbundið ofbeldi er, með skýrri stefnu og aðgerðum eigum við að sýna í verki að það er hægt.

Tími aðgerða er kominn

Í haust sótti ég loftslagsfund Sameinuðu þjóðanna í New York og var þar beðin að fjalla um aðgerðir Íslendinga í kolefnisbindingu. Þar höfum við ýmislegt fram að færa, hvort sem er í hefðbundnum aðgerðum á sviði landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis eða í nýsköpun á þessu sviði þar sem íslenskir aðilar hafa verið að þróa nýja tækni í kolefnisbindingu.

Ísland stefnir að kolefnishlutleysi í síðasta lagi 2040 en við verðum að sýna árangur strax í þeirri vegferð. Orkuskipti í samgöngum og aukin kolefnisbinding eru lykilatriði í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Grænar ívilnanir og grænir skattar munu flýta fyrir orkuskiptum – en nú um áramótin taka gildi nýjar ívilnanir gagnvart rafhjólum og reiðhjólum – og eins mikil fjárfesting í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, í gegnum borgarlínuverkefnið. Með verkefnum í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis sem eru þegar farin af stað munum við binda 50% meira kolefni árlega árið 2030 en við gerum núna. Stjórnvöld og atvinnulíf tóku höndum saman um stofnun Grænvangs, samráðsvettvangs um aðgerðir á sviði loftslagsmála og þegar opinberir styrkir til uppsetningar hraðhleðslustöðva um landið allt voru kynntir tók atvinnulífið rækilega við sér en alls má gera ráð fyrir um hálfum milljarði í fjárfestingu í hleðslustöðvum á komandi ári. Ákveðið var að forgangsraða fjármunum í nýrri markáætlun í rannsóknir á loftslagsmálum og sett var ný löggjöf um loftslagsmál.

Við munum ekki ná árangri í  baráttunni gegn hamfarahlýnun nema við tryggjum um leið velsæld fólks og blómlegt og sjálfbært efnahagslíf. Það er krefjandi úrlausnarefni en um leið eigum við alla möguleika á að ná góðum árangri. Á árinu sem var að líða voru fimmtíu ár liðin síðan menn lentu á tunglinu. Ef mannkynið gat leyst úr því viðfangsefni þá munum við líka geta tekist á við loftslagsvána. Þar munum við hlusta á skýra leiðsögn vísindanna sem hafa lagt staðreyndir á borðið en einnig tillögur um aðgerðir.

Samheldni til framtíðar

Við sem hér búum ættum að vita það manna best hve miklu veður og umhverfi skipta okkur öll. Óveðrið sem gekk yfir landið í desember var okkur áminning um það hve háð við erum náttúruöflunum og það tjón sem aldrei verður bætt er sá mannskaði sem varð í veðrinu norður í Sölvadal.

Vegir lokuðust og samgöngur stöðvuðust, foktjón varð verulegt og íbúar á Norðurlandi máttu þola umfangsmesta rafmagnsleysi síðari tíma. Það minnti okkur líka á að líf okkar allt er orðið mun háðara rafmagni en áður. Fjarskipti eru háð rafmagni, fjós eru háð rafmagni og svo mætti lengi telja. Ríkisstjórnin ákvað því að setja á laggirnar átakshóp sem vinnur nú hratt að því að skila tillögum til stjórnvalda um forgangsröðun aðgerða og breytt skipulag til að tryggja betur þá innviði sem við þurfum á að halda um land allt.

En slíkt veður minnir okkur líka á það sem við eigum hér á Íslandi. Þann kraft sem býr í samfélaginu og birtist í fólkinu sem tekst á við áföll og áskoranir, birtist í þeim 94 björgunarsveitum sem starfa um land allt, mannaðar þúsundum sjálfboðaliða, sem alltaf eru reiðubúnir til að standa vaktina og leggja sjálfa sig í hættu við að bjarga fólki og veraldlegum eigum. Þessi samfélagslegi kraftur eru mestu verðmæti nokkurs samfélags og birtist í samheldninni og samstöðunni á erfiðum tímum. Við erum á slíkum stundum ein þjóð í einu landi, óháð öllu öðru sem skilur okkur að. Fyrir það getum við verið þakklát þegar við horfum fram á veg og höldum á vit nýrra verkefna og nýrra áskorana.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs árs.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search