Search
Close this search box.

Styrking heilbrigðiskerfisins í fjármálaáætlun

Deildu 

Útgjöld til heilbrigðismála eru fyrirferðamesti málaflokkurinn í fjármálaáætlun áranna 2022-2026 sem rædd var á þinginu fyrir páska, eða 31% rammasettra útgjalda áætlunarinnar. Framlög til heilbrigðismála hafa aukist mikið á kjörtímabilinu.Framlög til rekstrar verða orðin tæplega 267 milljarðar króna á árinu 2022 og um 19 milljaðra króna hærri fjárhæð verður lögð í fjárfestingar í heilbrigðiskerfinu árið 2022 en 2017.

Í Covid 19-faraldrinum hefur verið lögð áhersla á að verja innviði og vernda þann árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu í velferðar- og heilbrigðismálum. Fjármálaáætlun markast af þeirri áherslu og í henni má sjá áframhaldandi áherslu á styrkingu heilbrigðiskerfisins.  

Nefna má nokkur áherslumál sem fjármögnuð eru samkvæmt fjármálaáætlun; byggingu nýs Landspítala við Hringbraut, viðbyggingu við Grensásdeild LSH, lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga og eflingu geðheilbrigðisþjónustu.

Bygging nýs Landspítala er risavaxið verkefni. Á fjárlögum ársins 2021 renna um 12 milljarðar til framkvæmdanna og samkvæmt fjármálaáætlun munu renna rúmlega 70 milljarðar í byggingu nýs Landspítala á tímabilinu 2022-2026.

Uppsteypa meðferðarkjarna er hafin og verður samkvæmt áætlunum lokið árið 2023 og framkvæmdir við önnur hús á lóðinni eru í burðarliðnum, s.s. rannsóknahús og tvö bílastæðahús. Byggingaframkvæmdin verður bylting í allri aðstöðu spítalans. 

Viðbygging Landspítala við Grensás er einnig fjármögnuð að fullu í fjármálaáætlun, en árin 2022 til 2024 eru 2,4 milljarðar eyrnamerktir framkvæmdinni sem kostar í heild samtals um 2,9 milljarða króna. Verkefnið er löngu tímabært og mun bæta aðstöðu til endurhæfingar á Grensási til muna.   

Greiðsluþátttaka sjúklinga lækkar um 800 m.kr. á ári til ársins 2025 og hefur þá lækkað um 3,2 milljarða á tímabili fjármálaáætlunar. Það hefur verið mitt markmið að greiðsluþátttökuhlutfall íslenskra heimila verði sambærilegt því sem best gerist á Norðurlöndunum. Samkvæmt fjármálaætlun má ætla að hlutfallið verði komið niður í 13–14% um árið 2025 og að markmiði okkar um sambærilegt greiðsluhlutfall og annars staðar á Norðurlöndunum verði náð fyrir það.

Ég hef lagt mikla áherslu á eflingu geðheilbrigðisþjónustunnar en samtals hafa framlög til geðheilbrigðismála verið aukin um rúman 1,1 milljarð frá því ríkisstjórnin tók við. Þessi hækkun hefur skilað sér í stóraukinni geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni og fullmönnun geðheilsuteyma, svo nokkur dæmi séu nefnd. Fjárframlög til geðheilbrigðisþjónustu hækka árlega um 100 m.kr. árin 2022-2025.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi um verkefni en áframhaldandi styrking heilbrigðisþjónustunnar á fjölbreyttan hátt er mikilvæg, fyrir okkur öll.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search