Search
Close this search box.

Viðtal við Katrínu um stjórnarskrárbreytingar

Deildu 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók í gær á móti undirskriftum ríflega fjörutíu þúsund Íslendinga sem vilja að Alþingi samþykki að breyta stjórnarskrá Íslands samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs frá árinu 2011. Píratar, Samfylking og Flokkur fólksins lögðu í dag fram frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá en fyrir því er ekki þingmeirihluti.

„Í fyrsta lagi held ég að þessar undirskriftir, sem eru margar, endurspegli mikinn áhuga fólks á því að stjórnarskrá verði breytt,“ segir Katrín. „Það má segja að ég hafi viljað hefja upp á nýtt ákveðið samtal á milli formanna flokkanna í upphafi þessa kjörtímabils, samtal um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem við myndum samt ekki ljúka á einu kjörtímabili heldur tveimur,“ segir hún.

Katrín sat í ríkisstjórninni sem setti ferlið af stað. Aðspurð hvort það sé erfitt fyrir hana að berjast ekki áfram fyrir þeim breytingum segir hún: „Ég held raunar að sá meirihluti hafi framfylgt viljanum í þjóðaratkvæðagreiðslunni með því að leggja fram þetta frumvarp og taka það til þinglegrar meðferðar. Síðan var kosið og þeir flokkar sem unnu mesta sigra í þeim kosningum voru þeir flokkar sem höfðu barist gegn þessum stjórnarskrárdrögum. Mitt markmið er að reyna að skapa eins mikla sátt og hægt er um stjórnarskrárbreytingar.“

Katrín hyggst sjálf, sem þingmaður, leggja fram fjögur frumvörp um breytingar á stjórnarskránni í næsta mánuði. „Það er öllum velkomið að flytja þessi frumvörp með mér. Það er algjörlega í boði,“ segir hún. 

„Auðvitað er það ljóst að fulltrúar þessara flokka nálgast þessi mál úr ólíkum áttum. Mér hefur fundist þessir fundir góðir og ég tel að frumvörpin eins og þau líta út núna – sum þeirra eru enn í mótun og önnur eru nánast tilbúin að mínu viti – hafi tekið mið af því,“ segir Katrín.

Kastljósviðtalið í heild

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search