Eldri Vinstri græn halda vorfund félagsins í Stangarhyl miðvikudaginn 12. apríl. Skemmtileg og fróðleg dagskrá að venju og öll velkomin. Tengiliður Þóra Elfa Björnsson.
Kæru félagar
Næsti EVG-fundur verður haldinn 12. apríl kl. 20 í Stangarhyl 4, húsnæði FEB. Peningamál eru ofarlega í umræðu dagsins og stundum er erfitt að átta sig á hvað er hvað í súpunni. Sigurbjörg Gísladóttir sem er efnafræðingur að mennt og er varaformaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík fer stuttlega yfir mikilsverða þætti. Allir muna eftir Nonna og af honum ætlar Helga Birgisdóttir að segja okkur sögur en hún er doktor í bókmenntum, kennir á Menntavísindasviði og í Tækniskólanum. Stefán Pálsson er sagnfræðingur sem hefur skoðað söguleg atriði frá margvíslegum hliðum, ekki bara þeim alvarlegu. Svo er auðvitað söngur, kaffi og spjall að venju. Fundarstjóri er Guðrún Hallgrímsdóttir. Mætum glöð og hress
- Kjör eldri borgara – hvaðan kemur hvað inn á reikninginn okkar? Sigurbjörg Gísladóttir efnafræðingur er með stutt yfirlit um afar mikilsverða hluti í lífi okkar
- Eitthvað nýtt af Nonna – Helga Birgisdóttir aðjúnkt og kennari veit allt um það
- Kaffi og spjall
- „Sollur og sumarbústaðir“– Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi ræðir um orlofshús, borgarmyndun og verkalýðsbaráttu á léttum nótum.
- Og söngur eins og ævinlega – Páll Eyjólfsson og Sigurður Alfonsson leika undir söngvum sem auðvitað allir kunna, Gunnar Guttormsson gefur tóninn.
Kaffihlé og kleinur um 9-leytið – munið seðil í kaffisjóðinn! – Sem fyrr er fólk minnt á að taka með sér gesti því fundirnir eru öllum opnir. Næsti fundur verður 11.október 2023.
Hittumst heil.
Ath. Unnið hefur verið að því að fækka pappírsfundarboðum en þau standa að sjálfsögðu líka til boða áfram. Og munið að netpóstsending gefur færi á að áframsenda einhverjum sem gæti haft gott af því að koma á fundina okkar en veit kannski ekki af þeim.
Undirbúningshópurinn:
Bryndís 861 9186; Svanhildur 863 2354; Þóra Elfa 824 6518, Þuríður Backman 8619031.
__________________________
Almennt um fundina:
Eldri vinstri (EVG) græn hafa frá því í des. 2005 haldið hópinn og hist reglulega einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina. Sjálfboðaliðar hafa undirbúið fundina og lagt áherslu á að – auk spjalls yfir kaffibolla – sé jafnan eitthvað til fróðleiks og skemmtunar. Þessi tilhögun hefur mælst vel fyrir – Starfssvæði hópsins er óskilgreint, engin félagsgjöld en frjáls framlög í kaffisjóð til að standa undir útlögðum kostnaði. – Tilgangurinn er fyrst og fremst að miðla fróðleik og rifja upp ýmis áhugaverð efni sem liggja til hliðar við eða sem aðeins óbeint tengjast hinni daglegu pólitísku umræðu. Hér má nefna ýmis menningarmál, málefni sem tengjast baráttu launafólks, útgáfumál, bókmenntir og listir, menntamál, þjóðfrelsismál, alþjóðamál o. fl. – Skemmtiatriði af ýmsu tagi eru fastur liður, svo sem tónlistarflutningur og fjöldasöngur. – Stefnt er að því að fundunum ljúki að jafnaði um kl. 22.