PO
EN

Flokksráðsfundur 30. september – 1. október

Föstudagur 30. September

Elín Oddný Sigurðardóttir og Gísli Garðarsson rituðu fundargerð.

Fundur settur klukkan 17:19.

Áður en við göngum til formlegrar dagskrár er tilkynning frá BVG, sem minnist Páls Hlöðverssonar sem lést í sumar og var lengi mjög virkur í starfi VG hér fyrir norðan og á landsfundi.

Fundarmenn rísa úr sætum sínum til minningar um Pál og í virðingarskyni við fjölskyldu hans.

Gengið er til dagskrár, sem liggur fyrir og BVG fer yfir í upphafi fundar. Flutningsmenn ályktana eru beðnir að vera tilbúnir að kynna þær þegar þar að kemur á dagskrá.

Fyrsta dagskrárbreyting: Í stað þess að kosningaáherslur verði kynntar í fyrramálið verða þær kynntar síðar í dag svo ræða megi þær í almennum stjónrmálaumræðum í kvöld.

Ljúki almennum stjórnmálaumræðum ekki í kvöld verður þeim fram haldið í fyrramálið.

BVG var beðinn að vekja athygli á því að VGA verður með opið hús á morgun milli 15 og 17 fyrir gesti og gangandi og fundarmenn eru minntir á að kíkja þar við eftir að flokksráðsfund.

  1. Ræða Björns Vals Gíslasonar, varaformanns VG og formanns flokksráðs: Óstöðugleiki og óvissa hafa neikvæð áhrif á líf okkar til lengri og skemmri tíma. Átta árum eftir hrun erum við í betri stöðu en við þorðum að vona og þar hafa allir stjórnmálaflokkar komið að – en á undanförnum þremur árum hefur ríkisstjórn hægriflokkana stuðlað að ójöfnuði með því að ausa peningum í efra lag samfélagsins og hagsmunasamtök með margvíslegum hætti meðan kjör neðra lagsins hafa versnað. Pólitískur og siðferðilegur óstöðugleiki. Mörg önnur mál, m.a. í uppgjöri við hrunið, hafa setið á hakanum á meðan. Óstöðugleiki hefur m.a. stafað af miklum illdeilum stjórnarflokkanna og ráðherrar úr báðum stjórnarflokkum hafa fallið í valinn á kjörtímabilinu vegna spillingar- og hneykslismála.Neikvæð áhrif á ímynd Íslands og rýrt kjör landsmanna. Vextir hafa ekki lækkað og fyrir það borgar almenningur í landinu og stjórnarliðar ættu að líta í spegil. Það þarf að vera stöðugleiki á öllum sviðum – því stöðugleiki á einu sviði en ekki öðru leiðir til ójafnaðar. Við þurfum að breyta þessu. Verkefnin framundan eru umfangsmikil og krefjast þess að við sýnum ábyrgð: hvernig ætlum við að stokka upp fjármálakerfið? BVG er sjálfur þeirrar skoðunar að sameina ríkisbankana að fullu. Það þarf að skilja að fjárfestinga- og viðskiptabanka annars vegar og hins vegar innlenda og erlenda starfsemi banka. Við verðum að ræða gjaldmiðilinn: hvernig við getum sem best tryggt góð lífskjör fyrir almenning í landinu? Það er fullreynt með ISK. Við þurfum að ræða þetta sem ábyrgur stjórnmálaflokkur með opnum huga, fordómalaust og með hagsmuni almennings í forgrunni. Þessi umræða má ekki bara snúast um ESB svo að komið sé í veg fyrir umræður um gjaldmiðilinn. Afnám verðtryggingar mun engu breyta um eðli málsins: við þurfum pólitískan og efnahagslegan stöðugleika. Hætta er á að efnahagslegur uppgangur búi til falskan kaupmátt í landinu. Við getum ekki boðið Íslendingum lengur upp á þetta umhverfi hafta en við skulum samt ekki falla í þann fúla pytt að halda því fram að auðvelt sé að skapa hér stöðugleika sem er sambærilegur við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Það mun taka tíma og verður flókið verkefefni. Á þessum fundi hefjum við kosningabaráttuna með því að setja okkur áherslur og tillögur þar að lútandi liggja fyrir fundinum. BVG vonar að fundarmenn kynni sér tillögur fundarins og taki þátt í umræðu um þær í kvöld. Við skulum ekki vera hrædd við að vera stefnuföst og umdeild í kosningabaráttunni framundan; sókndjörf og rökföst. Það er nóg af stjórnmálamönnum sem stýrast af blindu eigin persónulega metnaðar. Við erum best í sókn og látum kosningabaráttuna snúst um okkar málefni því við stöndum málefnalega vel.
  • Ræða Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG: Kveðja frá Ögmundi Jónassyni sem er erlendis, sem flutti sína líklega síðustu ræðu á þingi í gær. Við erum stödd á barmi kosningabaráttunnar og KJ leiðist það. Kosningabarátta er eins og sundlaugarrennibraut: hræðileg meðan á henni stendur en stundum dálítið skemmtileg eftir á. Þó aðeins merkilegra. Við höfum núna tækifæri til að uppskera nægilega mikið til að setja okkar mál á dagskrá og þoka þeim í rétta átt. Stundum hefur það gengið svo vel að fólk gleymir því hversu óvinsæl okkar mál voru fyrir tíu árum síðan. Hversu oft hefur ekki verið talað um öfgar í tengslum við femínisma og andstöðu við stóriðju og kapítalisma? Við erum í framboði hér af því að við vitum að erindið er brýnt og að hljómgrunnur sé með því hjá almenningi. Við þurfum að ræða við fólk, maður á mann, og vekja með fólki von um betra samfélag og jöfnuð. Það er ekki einfalt en það er hægt og fyrir það stöndum við. Nú keppast mennirnir sem hafa hugsað um þá ríku í þrjú ár um að skreyta sig með sósíalískri gæru með því að þykjast hugsa um aðra. Verk ríkisstjórnarinnar undanfarin ár sýna hver raunverulegur vilji stjórnarflokkanna er. Grænþvottur kortéri fyrir kosningar hjá flokkunum sem byrjuðu á því að afturkalla náttúverndarlög og taka rammaáætlun úr sambandi. Ef við viljum raunverulegar vinstri grænar áherslur inn í ríkisstjórn verða Vinstri græn að fá kosningu til þess í haust. Þessi ríkisstjórn hefur ekki og mun ekki standa fyrir þeim. Traustið er svo farið í þokkabót. Ríkisstjórn hinna glötuðu tækifæri tók við góðu búi en gat ekki búið til traust á sjálfri sér – þess vegna eru þeir dulbúnir sem undanrennugerðin af vinstri græna rjómanum. Íslendingar vilja samfélag jöfnuðar, umhverfisverndar og lýðræði. Við eigum að leggja hart að okkur og þá getum við staðið upp sem sigurvegarar þessara kosninga. Nú verðum við að nýta tímann vel, nú skiptir allt mál. Látum verkin tala. Heilbrigðiskerfið hefur verið fjársvelt í aldarfjórðung en ekki frá hruni. 80% landsmanna vilja félagslega rekið heilbrigðiskerfi en þrátt fyrir aukna krónutölu hafa hlutfallsleg framlög af VLF minnkað á kjörtímabilinu. Við munum raunverulega snúa þessari þróun við og fólk getur treyst því að við munum forgangsraða í þágu betra og gjaldfrjáls heilbrigðiskerfis um allt land og nýs Landspítala. Skattaundanskot á ári eru varlega áætluð 80 milljarðar – það eru ekki venjulegir launamenn, þeir skila sínu. Við verðum að tryggja að allir skili sínu til samfélagsins og að þeir sem nýti sameiginlegu auðlindirnar greiði af því og að þrepaskiptu skattkerfi verið aukinn fiskur um hrygg. Það skiptir máli hvernig við skiptum byrðunum. Það er ekki hægt að samþykkja almannatryggingafrumvarpið sem liggur fyrir þinginu. Það verður að setja inn frítekjumörk. Aldrað fólk vill taka meiri þátt í ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins. Lágmarksframfærsla aldraðra og öryrkja þarf að fylgja að minnsta kosti lágmarkslaunum upp í 300.000 krónum og að þessir hópar eins og aðrir geti lifað mannsæmandi lífi í samfélaginu. Það á ekki að vera ásættanlegt að þessir hópar sitji eftir, það hafa verið tækifæri til að bæta þeirra kjör en allt í einu á að gera það korteri fyrir kosningar. Það á líka að blása til sóknar í menntamálum. Ríkisstjórnin ætlar að fækka fólki sem sækir sér nám til að framlög á hvern nemanda hækki. Staða ungs fólks er líka sérstakt áhyggjuefni núna. Staða þess er verri nú en fyrir þrjátíu árum. Ungt fólk er fast á skekktum leigumarkaði sem útleiga til ferðamanna leggur undir sig. Til að laga þetta þarf alvöru aðgerðir. Fæðingarorlofskerfið hefur líka dregist aftur úr. Öflugt velferðar- og menntakerfi er forsendan fyrir því að fólk vilji búa hér og starfa. Við þurfum líka að ræða atvinnumálin: ranglæti kvótakerfisins hefur komið i veg fyrir sátt um stjórn fiskveiða. Kerfisbreytingar eru forsenda þess að það gerist: það þarf að tryggja sjálfbærni og sanngjarna auðlindarentu. Við erum tilbúin til að láta á uppboðsleið reyna ef hún nær þeim markmiðum sem við viljum sjá. Fjármálakerfið er farið að snúast um sjálft sig frekar en aðra atvinnuvegi. Við eigum að aðskilja viðskipta- og fjárfestingarbanka. Við eigum líka að taka á málefnum ferðaþjónustunnar. Umræðan hefur snúist um áhrif á húsnæðismarkað frekar en gæði innan ferðaþjónustunnar og sambýli við náttúruna. Menn hlógu eitt sinn að norðurljósasölu og hvalaskoðun. Kannske hlæja einhverjir að miðhálendisþjóðgarði nú. Það má ekki vanmeta tækifærin í umhverfisvernd. Það verður líka að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um að byggja nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs. Við eigum skýrt erindi í þessum kosningum. Skilaboðin eru skýr: traust, ábyrgð og heilbrigt samfélag. Stjórnmál snúast bæði um málefni og vinnubrögð. Fólk vill ekki misskiptingu. Við bjóðum upp á skýra stefnu. Við viljum að næsta beygja verði til vinstri og erum til í að vinna með öllum sem eru sammála okkur um það. Þessi ríkisstjórn á sér enga framtíð – við þurfum nýja ríkisstjórn og við viljum taka þátt í nýrri ríkisstjórn sem hlustar á og tekur mark á fólki. Hún verður kannske ekki fullkomin en hún verður skýr og samvinnufús. Það er okkar loforð í kosningaloforðaflauminum sem nú dynur á fólk. Nú kynnum við okkar áherslur og þurfum að sannfæra fólk um vilja okkar til að hrinda þeim í framkvæmd. Veltum skoðanakönnunum ekki of mikið fyrir okkur. KJ er bjartsýn á að við bætum stöðuna til að okkar áherslur verði í öndvegi á næsta kjörtímabili. Fólkið í landinu vill jöfnuð, aukið lýðræði og meiri umhverfisvernd og þar á það samleið með okkur. Við höfum allt að vinna – og munum öll gera okkar allra besta.
  • Ávörp gesta. Drífa Snædal er beðin um að koma upp, kynna gestina og stýra umræðunum.
    • Drífa biður Aðalstein Baldursson, formann Framsýnar og Zane Brikovska, verkefnastjóra fjölmenningarmála á Alþjóðastofu Akureyrar, að koma upp.
    • Aðalsteinn flytur erindi um undirboð á íslenskum vinnumarkaði. Miklar áskoranir framundan við að sporna gegn undirboðum og mansali. Ástandið er orðið verra en í aðdraganda hrunsins 2008. Eftirlitskerfi veralýðshreyfingarinnar er öflugt. Víða er keyrt á lágmarkslaunum, s.í.l. í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er einstaklega slæm og verkalýðshreyfingin fær spurningar um hversu lág laun megi greiða, sem vekur upp spurningar um vegferðina sem við séum á. Mikið af erlendu starfsfólki kemur úr umhverfi þar sem stéttarfélög eru mjög veik eða spillt. Mikið af því að ferðaþjónustan auglýsi sjálfboðaliðastörf. Mikið um svarta atvinnu og jafnvel að fólk leiti til verkalýðshreyfingarinnar því atvinnurekendur hafi ekki staðið við uppgjör á svartri atvinnu. Vitð vitum líka að það er blönduð svört atvinna í fjármálageiranum. Svartri atvinnu er jafnvel ekki tekið alvarlega, það er eins og það vanti sterkari viðurlög. Gullgrafaræðið er gífurlegt og alls konar mál koma inn á borðið hjá verkalýðshreyfingunni. Eftirlit með ferðaþjónustunni er vandasamt en menn reyna hvað þeir geta. Samstarf við önnur félög erlendis, m.a. á Norðurlöndunum, hefur verið. Kynferðislegt áreiti virðist vera vandamál í ferðaþjónustunni: ungar, erlendar stúlkur eru oft í hættu. Stúlkur frá austantjaldslöndum virðast sérstaklega lenda í því. Þetta er í lagi hjá allflestum en þessi tilfelli eru of mörg. Mikið um kjarasamningsbrot og jafnvel kennitöluflakk, sem væri gott ef VG gæti tekið á. Fagnar keðjuábyrgðinni hjá Landsvirkjun og Reykjavíkurborg. Mikilvægt að Alþingi lögfesti hana.
    • Zane flytur erindi um stöðu erlendra kvenna á vinnumarkaði. Þakkar boðið. Það eru hundruðir Akureyringa sem eru með erlent ríkisfang frá tugum landa. Það er ákveðið kynjajafnvægi en við þurfum að ræða kynjajafnrétti. 

Konur af erlendum uppruna eru með meiri menntun en erlendir karlar er eru þó með lægri laun. Mikilvægt að meta hæfni og starfsreynslu erlendra kvenna til að tryggja að þær fái starf við hæfi.

Drífa Snædal stýrir umræðum í kjölfar erinda, spurningar og svör.

  • Kynning á framkomnum ályktunum og afgreiðslumálum

Björn Valur opnar á kynningu á framkomnum ályktunum.

Sóley Björk Stefánsdóttir kynnir drög að ályktun um fjármögnun þjónustu barna með fjölþættan vanda. Það er ríkisins að greiða fyrir þjónustuna en sveitarfélögin hafa ekkert fé fengið.

Gyða Dröfn Hjartardóttir kynnir ályktanartillögur frá framkvæmdastjórn UVG.

Gísli Garðarsson kynnir drög að ályktun um styttingu vinnuvikunnar og ályktun gegn plasti.

Berglind Häsler kynnir drög að ályktun um 3 fasa rafmagnsvæðing dreifðra byggða.

Svandís Svavarsdóttir, Einar Ólfssonog Gísli Garðarsson skipa ritstjórn sem halda utan um framkomnar breytingartillögur við ályktanir.

Matarhlé til kl. 20.00.

Fundur settur að nýju kl. 20.25

  • Svandís Svavarsdóttir kynnir kosningaáherslur VG fyrir alþingiskosningarnar 29. október 2016.
  • Almennar Stjórnmálaumræður

Fundi frestað til morguns kl. 22.40

Laugardagur 1. október

Björn Valur Gíslason setur fund að nýu kl. 9.45

Almennum stjórnmálaumræðum haldið áfram.

  • Una Hildardóttir og Daníel Haukur Arnarson kynna ársreikning VG fyrir árið 2015.
  • Afgreiðsla ályktana

Svandís Svavarsdóttir kynnir framkomnar breytingartillögur við framkomnar ályktanir fyrir hönd ritstjórnar.

Atkvæðagreiðsla

Ályktun 1 – Stytting vinnuvikunnar

– tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun 2 – Gleymum ekki spillingu í tíð núverandi ríkisstjórnar

              -tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun 3 – Réttindabarátta hinsegin fólks

– tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun 4 – Ungt fólk til áhrifa

– tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun 5 – Ungt fólk á landsbyggðinni

              – tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun 6 – Vistvænn landbúnaður

              – tillagan er samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur.

Ályktun 7 – Stöndum vörð um fjölskyldubúin

              -tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun 8 – Gegn plasti

              – tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun 9 – Stórátak í þrífösunarvæðing rafmagns í dreifbýli.

              – tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun 10 – Málefni barna með fjölþættan vanda / Hvað verður um börnin í sambandserfiðleikum ríkis og sveitarfélaga?

              – tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

  • Afgreiðsla kosningastefnuskrár

Svandís Svavarsdóttir fer yfir vinnu gerð kosningastefnuskrár.

Kosningaáherslur vegna alþingiskosninga 29. október 2016 lagðar fyrir flokksráðs og þær samþykktar samhljóða.

10. Katrín Jakobsdóttir formaður ávarpar fundinn.

Fundi slitið kl. 11.30.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search