PO
EN

Hafðu áhrif í Reykjavík

Deildu 

Hafðu áhrif í Reykjavík

Framboðsfrestur fyrir rafrænt forval á framboðslista Vinstri grænna til Alþingis í Reykjavíkurkjördæmum Suður og Norður, sem fram fer dagana 16. til 19. maí, rennur út kl. 17:00 sunnudaginn 25. apríl 2021. Kjörstjórn hvetur alla félaga sem vilja hafa áhrif og leggja sitt af mörkum við að halda áfram að skapa hér sjálfbært velferðarsamfélag til framtíðar til að bjóða sig fram.

Forvalið

Forvalið er rafrænt og hefst kl. 8:00 sunnudaginn 16. maí og lýkur kl. 17:00 miðvikudaginn 19. maí.

Félagar sem skráðir eru í Vinstri græn í Reykjavík tíu dögum fyrir upphaf kosningar, það er fyrir klukkan 8:00 fimmtudaginn 6. maí, geta kosið í forvalinu. Til að greiða atkvæði í forvalinu þurfa félagar að auðkenna sig með Íslykli eða Rafrænum skilríkjum. Athygli er vakin á því að skráðir félagar í Vinstri grænum geta ekki fært sig til milli svæðisfélaga eftir að forval hefur verið ákveðið, sbr. 7. grein laga hreyfingarinnar, en forval í Reykjavík var ákveðið á félagsfundi Vinstri grænna í Reykjavík 18. janúar sl.

Í forvalinu verður kosið í fjögur efstu sætin á framboðslistum Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Kosningin fer þannig fram að hver kjósandi velur tvo frambjóðendur í hvert sæti frá 1. til 4. Forvalið fer fram samkvæmt reglum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um uppstillingu og forval, en þar segir um framkvæmd og birtingu niðurstöðu forvals í 13. gr. kafla um forval:

Kjörstjórn annast talningu atkvæða eins fljótt og auðið er að loknum kjörfundi og birtir úrslit kosningarinnar formlega á vettvangi sem stjórn félagsins ákveður. Úrslit forvalsins eru leiðbeinandi fyrir kjörstjórn við röðun frambjóðenda á lista en í samræmi við kvenfrelsisstefnu VG skal eftirfarandi reglum fylgt ef hallar á konur í niðurstöðu forvals: Fjöldi atkvæða í einstök sæti ræður úrslitum þannig að frambjóðandi sem fær flest atkvæði í 1. sæti telst hafa hlotið kosningu í það sæti; frambjóðandi af gagnstæðu kyni sem fær flest atkvæði í 1.-2. sætið telst hafa hlotið kosningu í 2. sæti; frambjóðandi sem fær flest atkvæði í 1.-3. sæti telst hafa hlotið kosningu í 3. sæti; en frambjóðandi af gagnstæðu kyni sem fær flest atkvæði í 1.-4.sætið telst hafa hlotið kosningu í 4. sæti og svo framvegis eftir því hvað kosið er í mörg sæti. Í samræmi við 3. gr. laga VG skal tryggt að á framboðslistum flokksins í heild, sem og í þau sæti sem kosið er sérstaklega, skuli hlutfall kynja vera sem jafnast.

Þegar niðurstöður forvals liggja fyrir mun kjörstjórn vinna tillögu að fullskipuðum framboðslistum í hvoru kjördæmi sem lögð verður fram til samþykkis á félagsfundi Vinstri grænna í Reykjavík. Það felur í sér að kjörstjórn mun gera tillögu að því til félagsfundar í hvoru kjördæmanna þau sem ná kjöri verða í framboði í og nota aðferð uppstillingar í önnur sæti.

Frambjóðendur

Allir félagar í Vinstri grænum sem hafa kjörgengi í alþingiskosningunum þann 25. september 2021 geta boðið sig fram í forvalinu. Kjörstjórn hvetur alla félaga sem áhuga hafa til að bjóða sig fram.

Framboðum skal skila til kjörstjórnar með tölvupósti í netfangið reykjavik@vg.is og rennur framboðsfrestur út klukkan 17:00 sunnudaginn 25. apríl 2021. Æskilegt er, ef kostur er á, að frambjóðendur láti stuttan texta um sig og ljósmynd fylgja tilkynningu um framboð til kjörstjórnar til þess að hægt sé að birta upplýsingar um og ljósmyndir af öllum frambjóðendum þegar framboðsfrestur rennur út.

Kjörstjórn mun boða alla frambjóðendur til fundar eins og fljót og auðið er eftir að framboðsfrestur rennur út. Á þeim fundi mun kjörstjórn kynna þær reglur sem gilda um forvalið, hvernig framkvæmd þess verður háttað, hvernig staðið verður að kynningu á frambjóðendum auk þess að gefa frambjóðendum kost á að bera fram spurningar.

Nánari upplýsingar:

Öllum fyrirspurnum og ábendingum er hægt að koma framfæri við kjörstjórn í netfangið reykjavik@vg.is

Kjörstjórn Vinstri grænna í Reykjavík

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search