Search
Close this search box.

Kjara- og húsnæðismál

Landsfundur 2019.

Loftslagsváin sem heimurinn stendur frammi fyrir undirstrikar mikilvægi þess að huga að réttlátri skiptingu hins sameiginlega auðs, því að í ríku samfélagi geta allir haft nóg. Markmið okkar er að draga úr neyslu og sóun á öllum sviðum. Slíkt kallar á róttækar breytingar í atvinnulífi, aðra skiptingu gæða, samneyslu og samábyrgð.

Sjálfbærni

Ekki er hægt að byggja velmegun á ósjálfbærri framleiðslu og neysluhyggju sem gengur út á láglaunastefnu og misskiptingu. Endurhugsa þarf hvernig atvinnulíf og menntakerfi eru uppbyggð til að takast á við breyttan veruleika. Áherslu verður að leggja á sjálfbært atvinnulíf sem byggist á réttlátri skiptingu þeirra gæða sem til eru. Við þurfum að njóta hæfileika allra í samfélaginu og útrýma mismunun sem byggir á aldri, kyni eða uppruna. Við höfnum tvískiptum vinnumarkaði þar sem innflytjendur búa við lakari kjör en innfæddir og réttindi þeirra síður virt.

Leikskólar og fæðingarorlof

Í nútímasamfélagi hefur hraðinn í lífsgæðakapphlaupinu stöðugt aukist. Tryggja þarf að nýbakaðir foreldrar geti notið tímans með börnum sínum. Það er því skýlaus krafa ungs fólks að fæðingarorlofið eigi að vera að lágmarki tólf mánuðir. Í framhaldinu eiga öll börn að komast inn í gjaldfrjálsa leikskóla. Sú ömurlega staða sem margir ungir foreldrar eru í á tímanum milli fæðingarorlofs og þess tíma þegar börn komast inn á leikskóla er óviðunandi. Leikskólar eru fyrsta skólastigið og eiga að vera gjaldfrjálsir. Börn eiga rétt á þessari þjónustu óháð stétt og stöðu foreldra.

Vinnutími

Stytting vinnuvikunnar og minna vinnuálag er bæði lífskjara-, umhverfis- og lýðræðismál. Samhliða styttri vinnuviku þarf að vera hægt að lifa mannsæmandi lífi af lágmarkslaunum, svo líf allra geti snúist um meira en brauðstritið. Aukinn frítími kallar á minni eftirspurn eftir skyndilausnum í lífsstíl og neyslu og auðveldar fólki að velja umhverfisvæna kosti. Stytting vinnutíma getur falist í styttri viðveru á vinnustað, en líka í skarpari skilum milli vinnu og einkalífs og minna áreiti frá vinnu í frítíma. Styttri viðvera má ekki valda óhóflegu álagi, heldur kallar hún á betra skipulag og stjórnun sem og aukna mönnun, t.a.m. í vaktavinnu. Þannig getur stytting vinnuvikunnar opnað möguleika fyrir fleiri til að njóta sín á vinnumarkaði, svo sem fólk með skerta starfsgetu, og verið leið til að draga úr álagi og kulnun. Laga þarf löggjöf um eftirlaunarétt að nútímakröfum um sveigjanleg starfslok þannig að fólk hafi meira val um það hversu hratt og á hvaða tíma það fer af vinnumarkaði. Nú þegar þarf að hefjast handa um styttingu vinnuvikunnar og markmiðið er að hún verði ekki lengri en 30 tímar.

Menntun

Miklar breytingar eru að eiga sér stað í atvinnulífinu bæði vegna tækniframfara en ekki síður viðbragða við loftslagsbreytingum. Því þarf að auðvelda fólki að auka við færni sína og þekkingu og skipta um starfsvettvang og jafnframt hlúa að atvinnuuppbyggingu og ýta undir nýsköpunartækifæri fyrir ungt fólk um land allt. Komum til móts við framtíðina og vinnandi fólk með því að efla sí- og endurmenntun og mennta fólk til nýrra starfa og nýs skipulags á vinnumarkaði. Menntun opnar fólki fjölda möguleika í breyttum heimi þar sem störf hverfa og ný verða til á hverjum degi. Við skulum nálgast fjórðu iðnbyltinguna sem tækifæri vinnandi fólks fremur en ógnun. Tilgangur tæknibreytinga hlýtur að vera að bæta líf fólks og gera vinnuna auðveldari, en ekki að ýta undir óstöðugleika. Í því samhengi er mikilvægt að starfsfólk og fulltrúar þess sé haft með í þróun tækninnar. 

Félagsleg undirboð og mansal

Stöðva verður misnotkun á vinnandi fólki, sama hvaða nafni nefnist. Félagsleg undirboð, starfsmannaleigur, gerviverktaka, mansal og aðrar aðferðir sem beitt er til að svíkja fólk um laun fyrir vinnu sína verður að stöðva. Efla þarf eftirlit stofnana á borð við Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun í samvinnu við stéttarfélögin. Opinberir aðilar þurfa að falla frá útvistun kjarnastarfsemi, til dæmis ræstinga, til undirverktaka. Því fleiri sem milliliðirnir eru, þeim mun minna fær sá sem vinnur verkið og auðveldara verður að fela réttindabrot. Framfylgja þarf lögum um keðjuábyrgð og samfélagslega ábyrg innkaup af fullum þunga. Gera þarf launaþjófnað refsiverðan, eins og annan þjófnað, og takmarka möguleika til að stunda kennitöluflakk.

Breyttur vinnumarkaður

Mikilvægt er að breyta lagaumhverfi með það að markmiði að ýta undir atvinnulýðræði og efla aðkomu starfsmanna að ákvörðunum og stefnumörkun stofnana og fyrirtækja. Starfsmenn geta rekið fyrirtækin eða starfsfólk haft beina aðkomu að stjórnun og ákvarðanatöku.

Með tilkomu netvanga, sem brjóta bæði upp hefðbundið ráðningarsamband og verktakavinnu, er mikilvægt að löggjafinn tryggi að réttindi þeirra sem selja vinnu sína í gegnum netvanga verði virt, kjarasamningar og önnur réttindi launafólks gildi um vinnu í gegnum netvanga og að félagsleg undirboð eigi sér ekki stað í gegnum þá.

Húsnæðismál eru kjaramál

Það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið og mikilvægt að tryggður sé aðgangur að vönduðu húsnæði á viðráðanlegu verði, svo kjarabætur hverfi ekki í hækkandi húsnæðiskostnaði. Í takt við breyttan hugsunarhátt með sjálfbærni að leiðarljósi munu líklega færri kaupa sér eigið húsnæði. Stjórnvöld og stéttarfélög þurfa að efla enn frekar fjölbreyttari búsetuform með félagslegum lausnum af ýmsu tagi, svo sem óhagnaðardrifnum leigufélögum og möguleikum á öruggri langtímaleigu. Setja þarf leigufélögum og leigusölum ramma til að koma í veg fyrir að hægt sé að hækka húsaleigu umfram verðlagsþróun og halda þannig hópi fólks föstum í fátækragildru. Leggja þarf áherslu á félagslegar langtímalausnir í húsnæðismálum sem þjóna þörfum fólks.

Vinstri græn vilja koma sérstaklega til móts við ungt fólk sem hyggst komast á fasteignamarkaðinn með því að skoða möguleikann á því að ríkið eða Íbúðalánasjóður bjóði upp á sérstök útborgunarlán sem næmu 25% af verði hóflegrar fyrstu eignar vaxtalaust til 5 ára. Lán af slíku tagi byðist fólki til fyrstu kaupa á íbúð og væri hugsað til þess að brúa það bil sem oft er óbrúanlegt fyrir margt ungt fólk sem er að hefja búskap og vill eignast íbúð. Brýnt er að standa vörð um Íbúðalánasjóð í samfélagslegri eigu.

Sérstaklega þarf að huga að leigumarkaðnum á landsbyggðinni. Lítið er byggt þar sem byggingarkostnaður er oft hærri en markaðsvirði húsnæðis á staðnum. Ljóst er að einnig þarf að leysa þann vanda. Gæta verður sérstaklega að félagslegu hlutverki Íbúðalánasjóðs með því að sjóðurinn láni fyrir húsnæðiskaupum á landsbyggðinni sem nemur markaðsvirði húsnæðis eða byggingakostnaði nýs húsnæðis.

Mikilvægt er að auka þátt leigu- og kaupleigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða á íslenskum húsnæðismarkaði. Fjölmörg félög á borð við Félagsstofnun stúdenta, Búseta og Brynju eru starfandi hér á landi. Þau eru þó flest þannig að þau bjóða húsnæði til skýrt afmarkaðra hópa. Til þess að efla rekstargrundvöll leigu- og kaupleigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða þurfa bæði að koma til lagabreytingar, breytingar á skattaumhverfi og lánastofnanir sem geta lánað fé til lengri tíma.

Mikilvægt er að húsnæðissamvinnufélög án hagnaðarsjónarmiða bjóði íbúðir af ýmsu tagi, allt frá einstaklingsíbúðum upp í stærri íbúðir. Sama fjölskylda gæti því flutt milli íbúða hjá sama félagi þrátt fyrir breyttar fjölskylduaðstæður.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search