Málefni ungs fólks

Vinstri ungt og grænt – stefna í málefnum ungs fólks

Mikilvægt er að ungt fólk sjái fyrir sér möguleika til að byggja hér upp framtíð í fjölbreyttu og öflugu samfélagi. Boðið verði uppá húsnæði á viðráðanlegu verði, menntun verði aðgengileg öllum, námslánakerfi verði þannig að verulegur og vaxandi hluti lánanna verði styrkur, fæðingarorlof verði að minnsta kosti 12 mánuðir og leikskólinn taki við að því loknu án gjaldtöku. Sálfræðiþjónusta verði aðgengileg án endurgjalds á öllum skólastigum, skorin verði upp herör gegn ofbeldi í sérhverri mynd, og sköpun, listir og lýðræðisþátttaka verði höfð að leiðarljósi við alla samfélagsþróun. Almenningssamgöngur verði þéttar, tíðar og ódýrar og öflugt netsamband verði um allt land. Ísland á að vera spennandi valkostur fyrir ungt fólk óháð kyni og að því vilja Vinstri græn vinna.

Húsnæðisstefna

Löngu tímabært er að ráðast í aðgerðir til að tryggja húsnæði fyrir alla. Í því efni þarf bæði að líta til þess að skapa sterkan, stöðugan og öruggan leigumarkað og jafnframt að gera fólki kleift að festa kaup á sinni fyrstu íbúð. Sérstaklega þarf að líta til ungs fólks sem margt hefur enga möguleika á að koma sér þaki yfir höfuðið. Núverandi staða afhjúpar að markaðurinn ræður engan veginn við að leysa úr þeirri þörf. Hér þarf að grípa inn í með afgerandi hætti.

Leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er fátæktargildra fyrir ungt fólk. Stór fasteignafélög sem rekin eru í ábataskyni stjórna markaðinum, auk þess sem þúsundir íbúða í skammtímaleigu fyrir erlenda ferðamenn hafa mikil áhrif á framboð á íbúðum sem bjóðast til leigu til langs tíma.

Á landsbyggðinni er leigumarkaðurinn lítill. Lítið er byggt þar sem byggingarkostnaður er oft hærri en markaðsvirði húsnæðis á staðnum. Ljóst er að einnig þarf að leysa þann vanda. Gæta verður sérstaklega að félagslegu hlutverki Íbúðalánasjóðs með því að sjóðurinn láni fyrir húsnæðiskaupum á landsbyggðinni sem nemur markaðsvirði húsnæðis eða byggingakostnaði nýs húsnæðis.

Mikilvægt er að auka þátt leigu- og kaupleigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða á íslenskum húsnæðismarkaði. Fjölmörg félög á borð við Félagsstofnun stúdenta, Búseta og Brynju eru starfandi hér á landi. Þau eru þó flest þannig að þau bjóða húsnæði til skýrt afmarkaðra hópa. Til þess að efla rekstargrundvöll leigu- og kaupleigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða þurfa bæði að koma til lagabreytingar, breytingar á skattaumhverfi og lánastofnanir sem geta lánað fé til lengri tíma.

Mikilvægt er að húsnæðissamvinnufélög án hagnaðarsjónarmiða bjóði íbúðir af ýmsu tagi, allt frá einstaklingsíbúðum upp í stærri íbúðir. Sama fjölskylda gæti því flutt milli íbúða hjá sama félagi þrátt fyrir breyttar fjölskylduaðstæður.

Skoðað verði hvort hugmyndir um þak á leiguverði verði til að koma til móts við leigjendur.

Vinstri græn vilja koma sérstaklega til móts við ungt fólk sem hyggst komast á fasteignamarkaðinn með því að skoða möguleikann á því að ríkið eða Íbúðalánasjóður bjóði upp á sérstök útborgunarlán sem næmu 25% af verði hóflegrar fyrstu eignar vaxtalaust til 5 ára. Lán af slíku tagi byðist fólki til fyrstu kaupa á íbúð og væri hugsað til þess að brúa það bil sem oft er óbrúanlegt fyrir margt ungt fólk sem er að hefja búskap og vill eignast íbúð. Loks er brýnt að standa vörð um Íbúðalánasjóð í samfélagslegri eigu.

Betri menntun fyrir alla

Vinstri græn telja mikilvægt að nemendur framhaldsskóla og iðnnemar skuli fá styrki til bóka- og efniskaupa. Börn og ungmenni um allt land eiga að geta í auknum mæli fengið styrki til tómstundarstarfs. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir aðlögun ungra innflytjenda.

Lýðræðisleg þátttaka nemenda í skólastarfi skal vera tryggð, þeir aldir upp í lýðræðislegum vinnubrögðum og upplýstir um réttindi sín og skyldur. Nemendur framhalds- og háskóla njóti réttinda til jafns við einstaklinga á atvinnumarkaði, þar með talið réttinda til veikindadaga, hádegishlés og annarra almennra réttinda. Brottfall í framhaldsskólum sé lágmarkað með því að því að bjóða uppá fjölbreyttar mislangar námsleiðir og standa vörð um félagslegt umhverfi í skólasamfélaginu.

Öflugri LÍN

Vinstri græn leggja áherslu á það að verulegur og vaxandi hluti af stuðningi við námsmenn verði styrkur ef sýnt er fram á fullnægjandi námsframvindu. Gæta þarf sérstaklega að félagslegu hlutverki LÍN svo fjölskyldufólk, einstæðir foreldrar og efnalítið fólk njóti sömu möguleika til náms og aðrir. Námslán eru oft þungur baggi fyrir ungar fjölskyldur að afloknu námi. Með því að breyta hluta af námslánum í styrki minnkar greiðslubyrði ungs fólks á þeim tíma sem það er oft að koma undir sig fótunum í lífinu. Með þessu færist kerfið nær því sem þekkist á Norðurlöndunum en sjálfsagt er að líta til nágrannalanda okkar sem náð hafa miklum árangri í menntun og vísindum og taka lána- og styrkjakerfi þeirra okkur til fyrirmyndar.

Mikilvægt er að ungt fólk geti sótt menntun nálægt sínum heimahögum og námslánakerfið þarf að henta fólki hvort sem það er í háskólanámi eða verk- og iðnnámi. Þá þarf að styðja sérstaklega við fólk sem þarf að sækja nám fjarri heimahögum sínum. Allir eiga að geta sótt nám óháð stétt og stöðu í samfélaginu. Einnig leggja Vinstri græn til að námslán, sem yrðu að verulegum hluta styrkur, verði greidd út fyrirfram í byrjun hvers mánaðar. Með þessum breytingum vilja Vinstri græn koma til móts við námsmenn sem almennt hafa þurft að leita eftir yfirdráttarláni frá viðskiptabanka sínum fram að útgreiðslu lána við lok hvers misseris, með tilheyrandi kostnaði.

Leikskólar og fæðingarorlof

Í nútímasamfélagi hefur hraðinn í lífsgæðakapphlaupinu stöðugt aukist. Tryggja þarf að nýbakaðir foreldrar geti notið tímans með börnum sínum. Það er því skýlaus krafa ungs fólks að fæðingarorlofið eigi að vera að lágmarki tólf mánuðir. Í framhaldinu eiga öll börn að komast inn í gjaldfrjálsa leikskóla. Sú ömurlega staða sem margir ungir foreldrar eru í á tímanum milli fæðingarorlofs og þess tíma þegar börn komast inn á leikskóla er óviðunandi. Leikskólar eru fyrsta skólastigið og eiga að vera gjaldfrjálsir. Börn eiga rétt á þessari þjónustu óháð stétt og stöðu foreldra.

Gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta

Tryggja þarf nemendum á öllum skólastigum aðgengi að nauðsynlegri sálfræðiþjónustu. Mikilvægt er að slík þjónusta sé gjaldfrjáls, svo fjárhagur ungs fólk standi ekki í vegi fyrir því að það geti leitað sér aðstoðar þegar þess er þörf.

Meðhöndlun kynferðisbrota

Vinstri græn vilja betri úrræði fyrir þá sem verða fyrir ofbeldi og almennilega meðhöndlun á kynferðisbrotum. Ungar stelpur lifa við þann veruleika að munu líklegast lenda í einhvers konar kynferðisofbeldi. Mjög lítið hlutfall af þeim kæra svo, því að öllum líkindum mun kerfið bregðast þeim. Vinstri græn vilja breyta þessu með aukinni fræðslu í grunnskólum og menntaskólum. Einnig finnst þeim löngu tímabært að lögreglan sé með almennilega verkferla þegar kemur að kynferðisbrotamálum.

Almenningssamgöngur

Góðar samgöngur eru lífæðar nútímasamfélags sem létta aðgengi að vöru og þjónustu og efla tengsl manna á milli. Þar sem samgöngutæki og -mannvirki anna ekki umferðarþunganum getur þetta markmið snúist upp í andhverfu sína.

Almenningssamgöngur eru ódýr, umhverfisvænn og hagkvæmur kostur. Öllum ráðum þarf að beita til að auka vægi þeirra hvarvetna á Íslandi og gera þær aðgengilegar. Ástæða er til að gefa gaum allri nýbreytni á því sviði. Sérstaklega ber að líta til þess að byggja upp lestarsamgöngur til að tengja saman þéttbýlissvæði og léttlestakerfi innan þéttbýlis. Með þessu móti er hægt nýta í auknum mæli innlenda endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum.

Einnig þarf að efla þær almenningssamgöngur sem fyrir eru, svo sem strætisvagna og langferðabíla, og nýta endurnýjanlega orkugjafa eftir því sem kostur er. Byggja skal upp net almenningssamgangna á landinu öllu og huga þá sérstaklega bæði að strandsiglingum og flugi. Mikilvægt er að bera saman kostnað af slíku neti almenningssamgangna og vegagerð fyrir einkabíla.

Stytting vinnuvikunnar

Vinstri græn vilja stytta vinnuvikuna og stuðla að fjölskylduvænna samfélagi þar sem meiri tími gefst til samveru með fjölskyldunni.

Hvar viltu búa og starfa?

Mikilvægt er að gera ungu fólki um land allt kleift að fá störf við sitt hæfi í heimabyggð. Því mætti ná fram með því að auglýsa sem flest opinber störf án staðsetningar. Til að auðvelda þetta gætu ríki og sveitarfélög hringinn í kringum landið tekið sig saman um að innrétta opinbert húsnæði sem stendur víða ónotað þannig að þar sé hægt að koma fyrir starfsmönnum ráðuneyta og stofnana, með nauðsynlegri fjarfundaaðstöðu til að tengjast höfuðstöðvunum og sameiginlegri aðstöðu með öðrum opinberum starfsmönnum í sama húsnæði.

Stjórnmálaþátttaka ungs fólks

Vinstri græn telja mikilvægt að hvetja ungt fólk til stjórnmálaþátttöku svo ákvarðanir um samfélagið séu teknar af sem breiðustum hópi. Ein leið til þess er lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár. Dræm og dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til þings og sveitarstjórna er staðreynd og veldur áhyggjum. Hætt er við er að fólk geti orðið afhuga stjórnmálaþátttöku og nýti síður atkvæðisrétt sinn í kosningum ef það fær ekki tækifæri til þess að hafa áhrif á samfélagið sem það býr í.
Vinstri græn vilja að ungt fólk fái að hafa áhrif á stefnumótun samfélagsins. Ungt fólk til áhrifa!