Search
Close this search box.

Vinnumarkaðs- og verkalýðsmál

Landsfundur 2017.

Vinnumarkaðinn er ekki hægt að skoða án samhengis við það samfélag sem hann er hluti af. Þess vegna verður sterkt velferðarkerfi og góður vinnumarkaður að ganga hönd í hönd enda er gjaldfrjáls menntun barna og gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta kjaramál. Á fyrirmyndarvinnumarkaði geta allir, sem hafa til þess heilsu og vilja, tekið þátt og borið sanngjarnt endurgjald úr býtum. Réttindi eru virt og misrétti á milli hópa líðst ekki.

Samsetning vinnumarkaðarins tekur stöðugum breytingum hvað varðar aldur, menntun, uppruna og starfsgetu og þarfir samfélagsins fyrir starfsfólk tekur líka stöðugum breytingum. Með batnandi heilsu eldra fólks þurfa sífellt fleiri með fulla starfsgetu að yfirgefa vinnumarkaðinn sökum aldurs um leið og sífellt fleiri ná ekki að fóta sig á honum sökum veikinda snemma á starfsævinni. Á sama tíma fjölgar þeim sem ekki þekkja vel til réttinda sinna, svo sem innflytjendum og ungu fólki. Það á ekki að líðast að atvinnurekendur nýti sér veika stöðu starfsmanna sinna til að hafa af þeim laun og brjóta á réttindum þeirra

Við slíkar aðstæður er hlutverk stéttarfélaga mikilvægara en oft áður. Rétt eins og þau, í upphafi síðustu aldar, tóku þátt í að byggja upp það velferðarsamfélag sem við nú njótum, gegna þau nú mikilvægu hlutverki við að verja það sama velferðarsamfélag og sækja fram. Í okkar ríka samfélagi á það ekki að eiga sér stað að fólk búi við fátækt, neiti sér um heilbrigðisþjónustu eða að börn hætti námi til að aðstoða við að framfleyta fjölskyldunni.

Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem heilbrigður vinnumarkaður getur þróast. Það er gert með því að skapa lagaumhverfi sem kemur í veg fyrir mismunun og misnotkun, virku eftirliti og afleiðingum fyrir þá sem brjóta gegn öðrum. Það er einnig gert með því að draga úr kostnaði fólks vegna heilbrigðisþjónustu og menntunar, stuðla að fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkraþjálfa og sálfræðinga, sem dregur úr líkum þess að fólk hrökklist af vinnumarkaði. Persónuafslátturinn verður að duga til að vega á móti skattgreiðslum sem lagðar eru á laun undir framfærsluviðmiðum. Skattkerfið nýtist betur til að dreifa byrðum samneyslunnar í samræmi við getu fólks til að leggja af mörkum.

Heilbrigði, menntun og lífsgæði
Góður vinnumarkaður er sveigjanlegur, öruggur og fólk hefur tækifæri til að njóta sín bæði í starfi og frístundum. Við viljum:

 • Sterkt velferðarkerfi sem býður menntun og heilbrigðisþjónustu notendum að kostnaðarlausu.
 • Auka menntun í iðn- og tæknigreinum til að búa fólk undir breyttan vinnumarkað og hækka menntunarstig.
 • Hið opinbera beri ábyrgð á allri menntun sem krafist er til tiltekinna starfa.
 • Afnema aldurstakmörk á framhaldsskólastigi.
 • Stytta vinnudaginn í sex stundir.
 • Tryggja grundvallarfræðslu um vinnumarkaðinn og vinnuvernd undir lok grunnskólamenntunar.
 • Að sjóðir sem vinnandi fólk byggir upp til að auka lífsgæði sín valdi ekki skerðingu á opinberri aðstoð.
 • Brjóta upp hinn kynskipta vinnumarkað og útrýma launamuni kynjanna.

Lagaumhverfi og ábyrgð
Ábyrgð stjórnvalda á heilbrigðum vinnumarkaði er mikil og krefst sterkra laga og stofnana til að hafa eftirlit og tryggja réttindi vinnandi fólks. Við viljum:

 • Innleiða keðjuábyrgð í lög í öllum atvinnugreinum.
 • Stórefla stofnanir svo sem Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, skattayfirvöld, löggæslu og félagsþjónustu til að tryggja réttindi á vinnnumarkaði í samráði við stéttarfélög og aðra aðila vinnuamarkaðarins.
 • Innleiða raunverulega samfélagslega ábyrgð í opinberum innkaupum hvort sem keypt er þjónusta hér á landi eða erlendis.
 • Fyrirtæki og stofnanir geri grein fyrir launamuni innan hverrar einingar og að ásættanlegur launamunur verði skilgreindur.
 • Gera launastuld refsiverðan og takmarka möguleika atvinnurekenda til að stunda kennitöluflakk.
 • Skattleysismörk miðist við lágmarksframfærslu.
 • Verkfallsréttur stéttarfélaganna sé virtur.

Stéttarfélög og samningagerð
Stéttarfélög eru sterkasta afl vinnandi fólks til að sækja fram og verja réttindi. Samskipti hins opinbera við stéttarfélög eiga að byggja á sjálfræði félaganna sem lýðræðislegs vettvangs. Við viljum:

 • Þétta samstarf hins opinbera við stéttarfélög með formlegum samráðsvettvangi í aðdraganda fjárlagagerðar.
 • Að launaleynd verði með öllu afnumin.
 • Ná sátt milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um framtíðarskipan kjaramála þar sem tekið er mið af velferðarþjónustu, grunnframfærsla tryggð, unnið gegn misrétti og sameiginlegir sjóðir nýttir til aukinna lífsgæða fyrir alla.
 • Tryggja fullnægjandi upplýsingar um íslenskan vinnumarkað til þeirra sem koma erlendis frá að vinna á Íslandi.

Að vinna gegn misskiptingu á vinnumarkaði er hin eilífa áskorun. Misskiptingin felst bæði í auknum tekjumuni á milli þeirra sem bera mest úr býtum og þeirra sem vinna á lágmarkslaunum en ekki síður á milli kynja, aldurshópa og fólks sem kemur erlendis frá að vinna hér á landi. Þá verður hinn íslenski vinnumarkaður ekki slitin frá hinum alþjóðlega vinnumarkaði og ábyrgð okkar hérlendis ekki slitin frá sanngirni í alþjóðavæddum heimi.

Barátta vinnandi stétta fyrir sanngjörnum launum fyrir vinnuframlag er jafn brýn nú á dögum og áður. Baráttan er alþjóðleg og snýst um að draga úr misskiptingu og að arðurinn af vinnunni berist í vasa þeirra sem skapa arðinn. Vinnumarkaðurinn hér á landi og alls staðar annars staðar hefur tekið miklum breytingum síðustu áratugi og í augsýn er frekari bylting í tækniframförum. Hætt er við að sú bylting beri í skauti sér dvínandi öryggi fyrir vinnandi fólk og lakari kjör þar sem baráttan um vinnu verður harðari og samkeppnin leiðir til lægri launa. Það hefur því sjaldan verið jafn mikilvægt að vernda grunnstoðir íslensks vinnumarkaðar þar sem félagsleg undirboð eru ólögleg og efla stéttarfélög og tengja þau hefðbundinni stjórnmálabaráttu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search