Search
Close this search box.

Ályktanir flokksráðs 7. – 8. febrúar 2014

Samþykkt:

Hjólreiðar og vistvænar samgöngur á Íslandi

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Grand Hóteli 7. febrúar 2014 skorar á öll sveitarfélög landsins að efla aðstöðu og innviði til að hvetja allan almenning til hjólreiða. Einkum skulu þau bæta aðstöðu barna til  hjólreiða. Hið opinbera skal skilgreina vægi hjólreiða í samfélaginu og vinna hjólreiðaáætlun fyrir Ísland. Fræðsla í hjólafærni, innleiðing notkunar reiðhjóla í allt skólastarf og samgöngugreiðslur vegna vistvænna ferða til og frá vinnu ættu að vera forgangsmál til að efla sjálfbæran lífsstíl.

 

Ályktun um aðgengi að náttúruperlum Íslands

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 7.-8. febrúar 2014, hafnar hugmyndum um sérstaka greiðslu fyrir aðgengi að náttúruperlum landsins. Náttúruperlur Íslands eru sameign okkar, sem við eigum ekki að þurfa að greiða aðgangseyri að heldur eigum við öll að eiga að þeim greiðan og jafnan aðgang. Uppbygging ferðamannastaða er brýnt verkefni bæði til að bæta aðgengi að þeim en ekki síður til að verjast átroðningi, forðast skemmdir og bæta þjónustu við ferðafólk. Til þessa brýna verkefnis þarf aukið fjármagn úr sameiginlegum sjóðum og frá greininni sjálfri og metnað er kemur að hönnun og útfærslu.

 

Oftrú á stærðarhagkvæmni í opinberum rekstri.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs haldinn á Grand Hóteli Reykjavík 7.-8. febrúar 2014 vill tryggja öflugt háskólastarf við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Jákvæð samfélagsleg áhrif háskólastofnana á landsbyggðinni eru óumdeild og margsönnuð. Reynslan sýnir að sérstök þörf er á að fara varlega þegar til umfjöllunar er að flytja yfirstjórn starfsemi til höfuðborgarinnar. Í slíkum hugmyndum birtist einnig oftrú á stærðarhagkvæmni í opinberum rekstri. Gera verður kröfu um að sýnt sé fram á að sameining stofnana sé til bóta rekstrarlega, faglega og samfélagslega.

Ákærur falli niður

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Grand Hóteli 7.-8. febrúar 2014, vill að ákærur á hendur þeim níu einstaklingum sem voru á meðal þeirra sem héldu uppi friðsömum mótmælum í Gálgahrauni verði afturkallaðar. Ákærurnar eru gróf árás á tjáningarfrelsi í landinu og aðför að lýðræðislegum rétti fólks til að mótmæla, sem er tryggður í stjórnarskrá landsins. Ákærurnar fela í sér misbeitingu valds, slæmt fordæmi og eru jafnframt til þess fallnar að fæla fólk frá því að nýta stjórnarskrárbundinn rétt sinn til mótmæla.

 

Ísland úr NATO

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Grand Hóteli 7.-8. febrúar 2014, fordæmir að enn á ný fari fram heræfingar NATO á Íslandi. Fundurinn bendir á að herafli NATO hafi aldrei sinnt þeim yfirlýsta tilgangi sínum að verja aðildarlönd sín en hafi hins vegar oft farið með hernaði og loftárásum gegn þjóðum heims, svo sem í Kósóvó, Afganistan og Líbíu svo dæmi séu tekin.

Flokksráð ítrekar þá afstöðu sína að Ísland eigi að vera herlaust land og málsvari friðar á alþjóðavísu. Heræfingar NATO brjóta í bága við þessa stefnu og heimila að æfa manndráp á íslenskri grund. Fundurinn ítrekar kröfuna um úrsögn Íslands úr NATO.

Um trú og menntun

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Grand Hóteli 7.-8. febrúar 2014, telur mikilvægt að nám taki ekki mið af einni ákveðinni trúar- eða lífsskoðun umfram aðrar og ætíð sé um að ræða fræðslu en ekki innrætingu. Mikilvægt er að hafa í heiðri útgefin meginviðmið mennta og menningarmálaráðuneytis um hvernig staðið skal að samskiptum trúfélaga og skóla. Börn eiga rétt á menntun sem eflir gagnrýna hugsun og verndar þau gegn hvers kyns trúarlegri innrætingu. Þann rétt ber að virða. Eðlilegast er að trúarlegt starf fari fram á vegum trúfélaga.

Gegn kynþáttahyggju

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Grand Hótel 7.-8. febrúar 2014,  telur að umræða um flóttamenn, hælisleitendur og ríkisfangslaust fólk á Íslandi beri vott um rótgróna fordóma þar sem jafnvel eru dæmi um að brotið sé á mannréttindum þeirra af hálfu opinberra stofnana á ábyrgð ráðherra. Fundurinn vill að hælisleitendum sé tryggð sanngjörn málsmeðferð og að íslenskar stofnanir sem hafa umsjón með málefnum hælisleitenda og flóttamanna og virði alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að.

Mannsæmandi laun

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafnar svokallaðri þjóðarsátt sem byggist á því að laun og kjör fyrir neðan allt velsæmi sé fest í sessi, mikilvæg og vandasöm störf séu vanmetin og ósiðlegum mun á tekjum og lífskjörum sé viðhaldið sem eðlilegu ástandi. Með samstilltri stefnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á síðasta kjörtímabili var leitast við að verja kjör hinna tekjulægstu. Þrátt fyrir það eru lægstu laun og kjör margra lífeyrisþega enn óviðunandi. Á meðan stór hluti útgerðarinnar skilar miklum arði og er hlíft við eðlilegu gjaldi fyrir aðgang að auðlindinni hefur sjómönnum ekki tekist að endurnýja kjarasamninga sína árum saman. Stjórnendur taka sér skilgreiningarvald á ábyrgð og vanda þegar þeir skammta sér laun langt umfram það sem eðlilegt getur talist á meðan önnur störf í samfélaginu eru alls ekki metin að verðleikum. Sé þörf á þjóðarsátt nú, verður hún að byggjast á raunverulegum jöfnuði þar sem allir geta notið mannsæmandi launa og lífskjara.

 

Stöndum saman um réttlátt og sjálfbært samfélag

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík 7.-8. febrúar 2014 samþykkir eftirfarandi yfirlýsingu.

Skil í íslenskum stjórnmálum eru nú skarpari en oft áður. Algjör viðsnúningur hefur orðið frá stjórnarstefnu ríkisstjórnar vinstriflokkanna á síðasta kjörtímabili og þeirrar sem hægri öflin standa fyrir nú í nær öllum málum. Í stað náttúruverndar og friðlýsinga er nú stefnt á ágenga nýtingu lands og náttúruauðlinda eins og áður þekktist. Dregið hefur úr stuðningi og velvild stjórnvalda gagnvart nýjum atvinnugreinum, nýsköpun, rannsóknum, skapandi greinum, menningu og listum um leið og rykið er dustað af úr sér gegnum hugmyndum í atvinnumálum. Í stað jöfnuðar stefnir nú aftur í átt til aukins ójöfnuðar, skattar hafa verið lækkaðir á þá tekjuhærri og slegnir algjörlega af hjá þeim auðugustu á meðan hagsmunir annarra eru látnir mæta afgangi, þannig að fátækt eykst og þeim fjölgar sem ekki ná endum saman og hafa ekki þak yfir höfuðið. Fyrir okkur í VG er verkefnið skýrt. Fjölbreytni í atvinnulífi og framsækni í umhverfisvernd verða undirstöður framtíðar okkar. Lægstu laun verður að hækka og allar breytingar á skattkerfinu eiga að vera í þágu jöfnuðar. Gjaldskrár sveitarfélaganna hafa mikil áhrif á kjör og framfærslu barnafjölskyldna og ber að leitast við að draga úr gjaldtöku eins og nokkurs er kostur. 

Ríkisstjórn hægriflokkanna komst til valda í krafti óraunhæfra kosningaloforða. Nú þegar er ljóst að niðurfærsla skulda heimila yrði fyrst og fremst millifærsla á sameiginlegum tekjum allra landsmanna til hinna tekjuhærri. Loforð um afnám verðtryggingar virðist eiga að efna með því að fækka möguleikum almennings til að fjármagna húsnæðiskaup og gera efnaminni einstaklingum og ungu fólki nánast ókleift að eignast húsnæði. Reynt er að gleyma loforðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um stórmál, á borð við ESB-aðild, og veita loðin svör. Þrátt fyrir margboðað samráð og samvinnu um stór þjóðfélagsmál hefur nú verið klippt á allt samstarf við minnihlutann á Alþingi um úrlausn mikilvægra mála sem snerta alla landsmenn og varðar framtíðarhagsmuni okkar allra. 

Úrlausnarefni stjórnmálamanna eru gríðarlega stór og krefjast samstillts átaks svo að árangur náist. Þar má nefna áætlun um afnám gjaldeyrishafta og framtíðarstefnu í efnahagsmálum. Á undanförnum árum hefur tekist að skapa traust á íslensku efnahagslífi sem þó stendur enn höllum fæti eftir hrunið 2008. Fátt er mikilvægara íslenskum almenningi, heimilum og fyrirtækjum en að verja þann ávinning og halda áfram að byggja upp traust á Íslandi, jafn innanlands sem utan.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að félagslega sinnuð stjórnmálaöfl snúi bökum saman í sveitarfélögum og á Alþingi. Með samstöðu og samvinnu gegn stefnu hægriflokkanna í efnahagsmálum, skattamálum, atvinnumálum, umhverfismálum, menntamálum og velferðarmálum, má hindra stórfelldar neikvæðar breytingar á íslensku samfélagi á kjörtímabilinu. Varðstaða um náttúru landsins, almannahagsmuni og velferðarsamfélagið verður sífellt meira aðkallandi. Með samstöðuna að vopni er unnt að hafa áhrif á framgang mikilvægra mála og draga úr áhrifum stjórnarflokkanna í þágu sérhagsmuna.  Þar er mikilvægt að Vinstrihreyfingin – grænt framboð beiti sér fyrir öflugri samstöðu á vinstrivængnum og hafi hér eftir sem hingað til jöfnuð og félagslegt réttlæti að leiðarljósi í öllum sínum áherslum og verkum.

Áhrif Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í íslenskum stjórnmálum eru ótvíræð nú þegar hreyfingin fagnar fimmtán ára afmæli. Við erum stolt af því að hafa sett ný mál á dagskrá og breytt umræðu um umhverfismál, kvenfrelsi, friðarmál og félagslegt réttlæti. Allan þennan tíma hafa félagar starfað af krafti og bjartsýni. Þá orku þarf að virkja enn frekar og ráðast til sóknar gegn þeim öflum sem vilja færa alla kima samfélagsins undir markaðslögmálin og ganga á auðlindir okkar fyrir skyndigróða. Réttlátt og sjálfbært samfélag er okkar markmið.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search