Search
Close this search box.
06.10.17

Landsfundur 2017

Deildu 

Almenn stjórnmálaályktun

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Grandhótel 6.-8. október undirstrikar að komandi kosningar eru ákall um stefnubreytingu í íslensku samfélagi.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt fram fjárlagafrumvarp en í því má sjá stefnu fráfarandi ríkisstjórnarflokka. Áfram stóð til að þrengja verulega að heilbrigðiskerfinu, skólunum, vegakerfinu og kjörum aldraðra og öryrkja. Stefnubreytingar er þörf í öllum þessum málaflokkum.

Meiri þunga þarf að leggja í raunverulegar úrbætur í umhverfis- og náttúruverndarmálum þar sem stefnt skal að kolefnishlutleysi Íslands fyrir árið 2040. Það er bæði raunhæft og skýrt markmið sem hægt er að ná í samvinnu við sveitarfélögin og atvinnulífið.

Það þarf stefnubreytingu í kynferðisbrotamálum, en stjórnarslitin spruttu ekki síst af háværri umræðu brotaþola kynferðisbrota og aðstandenda þeirra sem kröfðust þess að uppreist æra brotamanna yrði endurskoðið. Í kjölfar þessa hljótum við að horfa til þess að styrkja stöðu brotaþola umtalsvert í samfélaginu öllu en ekki síst í réttarkerfinu. Breyting á hegningarlögum á nýliðnu þingi þar sem uppreist æra var felld úr lagatextanum er fyrsta skrefið af mörgum til úrbóta í þessum málaflokki.

Ný stefna er það sem íslenskt samfélag þarf og á skilið. Vinstri græn bjóða nú fram sterka lista með skýra stefnu í þágu fólksins í landinu.

  • Við viljum samfélag þar sem arðurinn af auðlindunum á að renna í sameiginlega sjóði og skattkerfið á að nýta til að jafna kjör.
  • Við viljum samfélag þar sem allir eiga möguleika á að njóta hæfileika sinna og taka þátt á eigin forsendum.
  • Við viljum samfélag þar sem ákvarðanir eru gagnsæjar, rekjanlegar og skiljanlegar öllum almenningi.
  • Við viljum samfélag þar sem efnahagur kemur aldrei í veg fyrir að fólk geti lært það sem hugur þess stendur til.
  • Við viljum samfélag þar sem enginn þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu eða lyf vegna fátæktar.
  • Við viljum samfélag þar sem húsnæði er til fyrir alla og þar sem ungar fjölskyldur sjá fjölda spennandi möguleika til að vaxa og dafna.
  • Við viljum samfélag þar sem matvælaframleiðsla er í sátt við umhverfið og vistspor er í lágmarki.
  • Við viljum samfélag þar sem búseta er um allt land og atvinnulífið einkennist af nýsköpun og fjölbreytni.
  • Við viljum samfélag þar sem stjórnvöld eru traustsins verð og standa með almenningi í landinu.
  • Við viljum réttlátt samfélag fyrir fólkið í landinu.
  • Við viljum leiða góða ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu, fyrir náttúruna og framtíðina.

Umhverfismál

Ályktun um umhverfisfræðslu og eflingu umhverfisvitundar

Forsenda árangurs í umhverfismálum er aukin þekking og umhverfisvitund. Því þarf að tryggja fræðslu um umhverfismál á öllum skólastigum, á vettvangi frjálsra félagasamtaka og aðila á vinnumarkaði. Kjörið er að nýta komandi kjarasamninga til að innleiða aukna umhverfisvitund, t.d. með samgöngustyrkjum og umhverfisfræðslu til starfsmanna.

Vöktun og rannsóknir sem stuðla að náttúruvernd þarf að styrkja til framtíðar. Nýta þarf þá þekkingu og miðlun sem þegar er til staðar, hana þarf að styrkja og auka, til dæmis með því að endurvekja Umhverfisfræðsluráð.

Ályktun um kolefnishlutleysi 2040

Ísland þarf að taka mið af niðurstöðum vísindamanna og setja stefnuna á að verða kolefnishlutlaust árið 2040.

  • Draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það gerum við með því að hverfa frá olíuvinnslu og hefja þegar öfluga uppbyggingu innviða til að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og iðnaði.
  • Ísland á að beita sér fyrir því að jarðefnaeldsneyti verði ekki unnið á Norðurslóðum.
  • Íslandi ber einnig að minnka losun frá stóriðju og binda þarf kolefni með ýmsum mótvægisaðgerðum. Í kolefnisbindingu skal ávallt styðjast við bestu fáanlegar upplýsingar og rannsóknir um ástand jarðvegshulu, mismunandi bindigetu plantna og ólíkar aðgerðir.
  • Ísland beiti sér fyrir því að losun gróðurhúslofttegunda frá flugi og skipum verið talið með í losunarbókhaldi þjóða. Hefja þarf rafvæðingu hafna og Ísland skal taka þátt í framsæknum orkuskiptum í flugi og siglingum.
  • Skipulag þarf að tryggja að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli.
  • Beita þarf hagrænum hvötum og ívilnunum til að græn samgöngutæki verði hagkvæmasti kosturinn.
  • Taka þarf upp kolefnisskatt. Kolefnisskattur leggst þyngra á efnaminni og þá sem búa á landsbyggðinni og því er mikilvægt að tryggja mótvægisaðgerðir.
  • Skylda þarf stór og meðalstór fyrirtæki til að vera með kolefnisbókhald.
  • Ávallt þarf að meta kolefnislosun aðgerða og samninga ríkisins, til að mynda við gerð búvörusamninga, og innflutning matvæla sem hægt er að framleiða á Íslandi.
  • Efla þarf menntun, rannsóknir og fræðslu til almennings um umhverfismál.
  • Loftslagsráð sem VG fékk samþykkt í þingsályktunartillögu 2016 verði þegar látið hefja störf.

Ísland á jafnframt að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C (ath. að taka þarf tillit til náttúrulegra sveiflna sem bætast við þessa stöðugu hlýnun). Tryggja þarf viðbúnað vegna þeirra óumflýjanlegu breytinga sem þegar eru hafnar í vistkerfinu og styrkja þarf fátækari þjóðir til að minnka losun og byggja upp viðnámsþrótt.

Ályktun um raforkusamninga til stóriðju

Landsfundur VG telur tímabært að hefja endurskoðun raforkusamninga til stóriðju til framtíðar, með því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fækka mengandi stóriðjuverum, auka fjölbreytni í iðnaði og fjölga í hópi „grænna“ fyrirtækja sem nota raforku á Íslandi.

Orkuspárnefnd hefur reiknað að á næstu 30 árum muni almennur iðnaður og þjónusta þurfa 600 MW orku til viðbótar við það sem nú er. Á sama tímabili munu raforkusamningar til stóriðju fyrir sama magn renna út.

Landsfundur VG telur mikilvægt að rannsaka ítarlega allar efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar hliðar raforkusamninga, sem og möguleika til þess að færa 600 MW af orku úr stóriðju í almennan iðnað og þjónustu, og forðast þannig að byggja frekari virkjanir.

Ályktun um að hætt verði við áform um að selja orku til útlanda með sæstreng

Umræður um að selja orku til útlanda með sæstreng hefur farið fram af og til á undanförnum 20 árum. Skoðaðir hafa verið efnahagslegir og félagslegir kostir og gallar.

Landsfundur VG telur sæstreng kostnaðarsamt og áhættusamt verkefni, sem myndi setja mikinn þrýsting á íslenska náttúru til að standa undir kostnaði og til að hámarka arðsemi verkefnisins. Á sama tíma gætu skapast örðugleikar fyrir græna orkufreka starfsemi á Íslandi til að afla sér orku á samkeppnishæfu verði.  Enn fremur er enn mikil óvissa um það hvernig þróun tækni tengdri orkuframleiðslu mun fara fram. Á síðustu árum hafa til að mynda stór skref verið tekin í þróun stórra sólorkuvera og vindorkuvera. Tækniþróun getur í framtíðinni gert það að verkum að verð á raforku í gegnum fyrirhugaðan sæstreng á milli Íslands og Bretlands verði ekki lengur samkeppnishæf.

Ályktun um að draga úr neyslu

Náttúrunni og samfélaginu öllu stafar ógn af neysluhyggju. Núverandi neysluhættir og framleiðsla útheimta gríðarlegt magn af peningum, orku og hráefni. Framleiðsla, flutningur og förgun gengur á dýrmætar auðlindir, veldur loftslagsbreytingum, mengar náttúruna og er oft á kostnað mannréttinda og heilsu verkafólks.

Stemma þarf stigu við matvælasóun með því að:

  • Auka til muna innlenda matvælaframleiðslu
  • Banna stórmörkuðum að henda mat, sem hefur t.d. verið gert í Frakklandi
  • Efla fræðslu um matarsóun, bæði í skólum og stofnunum

Til að tryggja möguleika okkar á framtíð hér á jörðu er mikilvægt að draga úr neyslu og hætta að nota fyrirbæri á borð við neysluvísitölu til þess að mæla velmegun.

Ályktun um markvissar aðgerðir gegn plastmengun á Íslandi

Á undanförnum árum hefur plastnotkun stóraukist. Afleiðingar plastmengunar fyrir náttúru og heilsu fólks eru verulegar og niðurstöður rannsókna á plastmengun verða ískyggilegri.

Landsfundur VG ítrekar stefnu sína gegn plastnoktun. Lagt er til að plastpokar verði bannaðir á Íslandi og að mun strangari reglur verði settar um notkun plastumbúða.

Banna þarf innflutning og framleiðslu á vörum sem innihalda örplast, svo sem snyrti- og hreinlætisvörum á borð við andlitsskrúbba, tannkrem og þvottaefni. Örplast brotnar ekki niður í náttúrunni og getur flutt með sér eiturefni upp fæðukeðjuna.

Skoða má harðari viðurlög við því að henda rusli á víðavangi..

Ályktun um fráveitumál

Landsfundur VG telur að brýnt sé að bæta hreinsibúnað frárennslisstöðva á öllu landinu og bæta eftirfylgni reglna um förgun spilliefna.

Mikilvægt er að öllu skólpi sé fargað á þann veg að ekki sé hætta á því að upp komi sjúkdómar í fólki og dýrum.

Þá er mikilvægt að bæta síur og skólphreinsibúnað verulega til að koma í veg fyrir örplastsmengun sem hefur gríðarlega neikvæð umhverfisáhrif.  Plastagnir frá hjólbörðum eru líklega langstærstu hluti örplastsmengunar og því er mikilvægt að bæta einnig meðhöndlun og hreinsun ofanvatns, til dæmis með blágrænum lausnum og settjörnum til hreinsunar afrennslis af gatnakerfi þéttbýlisstaða.

Ríkið þarf að koma til móts við fámenn sveitarfélög og aðstoða þau sé þess þurfi.

Ályktun um lífrænan landbúnað og eflingu ylræktar

Landsfundur VG telur mikilvægt að bæta verulega ívilnanir miðaðar að því að stórefla lífræna ylræktun á Íslandi. Efling ylræktunar er ekki einungis mikilvæg fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar, heldur myndi hún bæta gæði afurða og minnka verulega þá mengun sem innflutningur vara til Íslands felur í sér.

Æskilegt er að við nýtum þá orku sem við búum yfir, bæði jarðhita og raforku, fyrir ylræktun og almennt sjálfbærari landbúnað. Auka þarf vitund um tengsl framleiðslukerfa matvæla og þau áhrif sem þau hafa á umhverfi sitt, þar með talin hlýnunaráhrif.

Rannsóknir sýna að lífræn ræktun ekki aðeins verndar heldur eykur jarðvegsmyndun og bindingu kolefnis. Því eru lífræn framleiðslukerfi forsenda sjálfbærrar matvælaframleiðslu framtíðarinnar. Íslensk sauðfjárrækt á vel grónu landi er eitt slíkt kerfi.

Þá er mikilvægt að auka framleiðslu og neyslu á innlendu grænmeti og draga úr innflutningi á kjöti, sem hefur stórt kolefnisfótspor. Þá er mikilvægt að dýravelferð sé ætíð höfð að leiðarljósi í matvælaframleiðslu.

Ályktun um umhverfisálag í ferðaþjónustu

Landsfundur VG áréttar að íslensk náttúra skuli sett í algjöran forgang þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustunnar, meðal annars með því að lina álag á umhverfið og aðlaga ferðaþjónustu að þolmörkum. Viðmið þolmarka er ávallt þríþætt; í ljósi náttúru, samfélags og efnahagsmála.

Gríðarhröð fjölgun ferðamanna, hörð, stjórnlítil samkeppni og sein viðbrögð hins opinbera hafa framkallað álag á umhverfi og samfélög. Þetta stjórnleysi getur ekki viðgengist lengur og það verður að koma á skilvirku kerfi um uppbyggingu ferðaþjónustunnar þar sem allir hafa skýrt hlutverk og fá tækfæri til að rækja það. Kanna þarf hvernig stýra má álagi á svæðum og að hvaða marki. Þá greiningu og umræður í átt til almenns samkomulags verður að hefja sem allra fyrst. Á sama tíma og réttur almennings til ferða um íslenska náttúru er tryggður verður að koma í veg fyrir lokun náttúrusvæða og gjaldtöku í hagnaðarskyni.

Landsfundurinn hvetur til aukinnar umræðu um þessi efni, til endurskoðunar á skiptingu tekna af ferðaþjónustu milli ríkis og sveitarfélaga og til aukinna fjárveitinga vegna uppbyggingar innviða í þjóðgörðum og á friðuðum svæðum, þar sem þeirra er þörf. Enn fremur er hvatt til álagsstýringar á fjölsóttum stöðum í samvinnu við hlutaðeigandi. Einn lykill að bættri umgengi við landið er öflug landvarsla og þróttmikið fræðslustarf. Menntun leiðsögumanna og landvarða skipar þar háan sess.

Mikilvægast er þó að fjölga landvörðum og bæta starfsaðstöðu þeirra Styrkja skal viðurlög við raski á gróðri og steindum í náttúru Íslands.

Ályktun um friðlýsingu, vöktun og stjórnun náttúruverndarsvæða

Landsfundur VG telur mikilvægt að friðlýsa hálendið í heild sem verndarsvæði, stofna þjóðgarða á Vestfjörðum/Breiðafirði og bæta við tugum annarra tegunda friðlýstra svæða. Íslandi ber að styrkja stjórnun náttúruverndarsvæða með því að bæta landvörslu og fjölga sérfræðistörfum tengdum náttúruvernd, bæði hjá stofnunum og hjá sveitarfélögum. Vöktun og rannsóknir sem stuðla að náttúruvernd þarf að styrkja til framtíðar og efla þarf tengsl á milli umhverfismála og menntunar til að tryggja viðeigandi fræðslu og þekkingu á náttúruvernd.

Landsfundur VG ítrekar stefnu sína um verndun íslenskrar náttúru og menningarminja. Það felur í sér að friðlýsa, að vakta og rannsaka, að fræða almenning, og að stjórna verndarsvæðum á viðeigandi hátt. Tryggja þarf aðkomu almennings og félagasamtaka að upplýsingu og ákvaðanatöku og nauðsynlegt er að endurskipuleggja allt stjórnkerfi umhverfismála til að skerpa áherslur og auka fagmennsku og skilvirkni.

Mikilvægt er að halda áfram að friðlýsa vistgerðir, jarðminjar, óbyggð víðerni og landslag sem og vernda líffræðilega fjölbreytni til að tryggja að sérstaða náttúru Íslands njóti verndar.

Til að stuðla að verndun hinnar náttúrulegu víðsýni á Íslandi, sem er hluti af jarðfræðilegri fjölbreytni landsins, ber okkur að varðveita skipulega heildarmynd landslags (óbyggðir, víðerni, vatnsfarvegi, fossa og stöðuvötn, strendur, fjöll og dali). Það á sérstaklega við um svæði sem eru sérstæð, fágæt eða sérlega verðmæt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis. Staðfesta þarf evrópskan sáttmála um verndun landslags og framfylgja þarf íslenskum náttúruverndarlögum hvað varðar verndun landslags.

Ályktun um mengandi stóriðju í Helguvík

Landsfundur VG er mótfallinn mengandi stóriðju í Helguvík og krefst þess að hún verði stöðvuð.

Kominn er tími til að harmsaga United Silicon taki enda og að íbúar í nágrenni verksmiðjunnar njóti vafans. Nú hefur einn ofn verið gangsettur og fram að þessu hefur fyrirtækið ekki ráðið við að það verkefni með afleiðingum sem íbúar líða fyrir. Mengun frá kísilveri United Silicon hefur haft neikvæðar afleiðingar á heilsufar og lífsgæði fjölda bæjarbúa í Reykjanesbæ. Fjölmargir hafa veikst, fólk getur ekki verið utandyra og ekki haft opna glugga á heimilum sínum. Fyrirhugaðar framkvæmdir við kísilver Thorsil munu auka á það fordæmalausa ástand sem ríkir nú þegar í Reykjanesbæ. Telur landsfundurinn að hér sé um brot á mannréttindum að ræða þar sem hagsmunir mengandi stóriðju eru teknir fram yfir hagsmuni íbúa á svæðinu.

Efla þarf Umhverfisstofnun og aðrar eftirlitsstofnanir sem koma að umhverfismálum, þar með taldar heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun verja hagsmuni íbúa á svæðinu og tryggja öryggi og velferð þeirra með því að berjast gegn og stöðva alla mengandi stóriðju í Helguvík.

Ályktun um mengun frá skipum og umferð um hafsvæði

Fundurinn skorar á íslensk stjórnvöld að taka tafarlaust upp samskonar reglur og gilda í Norðursjó og Eystrasalti um útblástur skipa á hafsvæðinu umhverfis landið. Sífellt betur er að koma í ljós þau gríðarlegu alvarlegu áhrif sem sótagnir í útblástri hafa á heilsu fólks. Það þarf að innleiða viðauka VI í MARPOL samningnum og fylgja honum eftir með skilgreiningu ECA (Emission control area) svæðis. Þá þarf að innleiða viðauka IV í Marpol um varnir gegn skólpmengun frá skipum. 

Íslendingar eiga að stilla sér upp meðal fremstu þjóða við Norður Atlantshaf um að draga úr mengun af öllu tagi um allt Atlantshafið. Þannig sýnum við í verki náttúruvernd á viðkvæmu lífríki Norðurslóða.

Jafnréttismál

Ályktun um rétt barnsins og kynjakerfið

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á að uppbrot kynjakerfisins er grundvallarþáttur þegar kemur að stöðu, tækifærum og réttindum barna. Réttur barna til samveru með foreldrum skal  virtur og leggja þarf sérstaka áherslu á úrræði sem hafa þau réttindi í forgrunni. Tryggja skal einnig réttindi og öryggi barna þegar kemur að umgengni þeirra við foreldri sem beitt hefur ofbeldi í nánum samböndum.

Endurskoða þarf fæðingarorlofskerfið þannig að börn eigi þess frekari kost að njóta samvista við foreldra í frumbernsku. Í því skyni þarf sérstaklega að líta til þess að lengja fæðingarorlofið, lyfta greiðsluþaki, hækka fæðingarstyrkinn og draga úr skerðingum. Þá er afar brýnt að efla leikskólann þannig að börn eigi kost á leikskólavist strax að loknu fæðingarorlofi.

Leggja þarf áherslu á úrbætur á stöðu barna sem eiga lögheimili hjá öðru foreldri sínu þar sem um sameiginlega forsjá er að ræða. Ákvarðanataka og bótaréttur verði sem mest í höndum forsjárforeldra en ekki eingöngu þess sem hefur sama lögheimili og börnin. Leggja ber áherslu á stuðning við börn og foreldra þeirra í því skyni að ná sátt um fyrirkomulag umgengni og samvista eins og kostur er. Mikilvægt er að minnka líkur á árekstrum og valdbeitingu sem koma niður á lífsgæðum barna og samvistum þeirra við foreldra sína. Brýnt er að bregðast strax við þeim vanda sem blasir víða við í umgengnismálum, til að mynda með styrkingu við sýslumannsembættin og á fleiri stöðum innan dóms- og réttargæslukerfisins.

Heimildir og úrræði barnaverndaryfirvalda þarf að styrkja og efla þarf ráðgjöf og aðstoð við foreldra.

Ályktun um meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á mikilvægi þess að gerð verði heildarúttekt á stöðu kynferðisbrota í réttarkerfinu öllu. Sérstaklega verði horft til stöðu þolenda kynferðisbrota, einnig þeirra sem verða fyrir eltihrellum og þolenda stafræns kynferðisofbeldis. Auka þarf fræðslu og endurmenntun á öllum sviðum samfélagsins en ekki síst í réttarkerfinu, á rannsóknarstigi, ákærustigi og dómsstigi. Mikilvægt er að vinna að því að breyta þeim viðhorfum til málaflokksins sem endurspegla djúpstætt skilningsleysi á alvarleika umræddra brota.

Nauðsynlegt er ráðast í breytingar á lögum sem kveða á um stöðu og réttarvernd  brotaþola þannig að réttindi þeirra verði aukin innan réttarkerfisins.  

Ályktun um jafnréttisstarf sveitarfélag

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir áhyggjum af bakslagi sem hefur orðið í jafnréttisstarfi sveitarfélaga, sem lýsir sér í því að jafnréttisnefndir hafa verið sameinaðar öðrum nefndum og jafnréttisfulltrúastöður lagðar af. Brýnt er að sveitarfélög fari að lögum í þessum efnum.

Landsfundur undirstrikar mikilvægi þess að sveitarfélög vinni eftir jafnréttisstefnu í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stórátaks er þörf í eftirfylgni í samræmi við jafnréttisáætlanir sveitarfélaga og ljóst má vera að þegar jafnréttisstefna er samþykkt án framkvæmdaáætlunar þá minnka líkur á eftirfylgni til muna og stefnan verður skrautplagg eitt. Tryggja þarf að Jafnréttisstofa geti sinnt því eftirlitsstarfi sem lög kveða á um.

Þá er nauðsynlegt að sveitarfélögin sjái til þess að fjármagn fylgi áætluðum framkvæmdum vegna stefnunnar til að þær geti orðið að veruleika. Öll málefni sveitarfélaga sem lúta að kynjajafnrétti og alla ákvarðanatöku þarf að skoða vandlega út frá kynjasjónarhorni. Hér er mikilvægi þess að jafnréttismat fari fram á öllum stjórnsýsluaðgerðum undirstrikað, hvort sem um er að ræða til að mynda lagasetningar, þjónustu, framkvæmdir eða skipulagsbreytingar.

Ályktun um ofbeldi í nánum samböndum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs undirstrikar að ofbeldi í nánum samböndum er grafalvarlegt samfélagsmein. Útrýma þarf hverskyns birtingarmyndum slíks ofbeldis og kynbundnu ofbeldi með samhentu átaki sem felst meðal annars í því að leggja aukna áherslu á forvarnir, fræðslu og stuðning sem víðast í samfélaginu. Mikilvægt er að ofbeldi í nánum samböndum verði ekki lengur álitið einkamál fólks , heldur vandi samfélagsins alls sem feli í sér skyldur og ábyrgð stjórnvalda. Gera þarf úttekt á því hvernig tekist hefur til við framkvæmd austurrísku leiðarinnar, sem gerir lögreglu kleift að fjarlægja gerendur ofbeldisins af heimilum sínum.

Í þessu skyni er nauðsynlegt  að fullgilda Istanbúl-samninginn, samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, en samningurinn var undirritaður af fulltrúum Íslands 2011.

Fræðsla um ofbeldi og samskipti í nánum samböndum sem byggist á umfjöllun um tilfinningar, nánd, mörk og samþykki er bráðnauðsynleg á öllum skólastigum sem mikilvægt skref í átt að auknu jafnrétti og félagslegu réttlæti.

Ályktun um launajafnrétti

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur á það áherslu að uppræta launamun kynjanna. Til þess þarf að vinna gegn kynjaskiptingu á vinnumarkaði, sem birtist annars vegar í því að kynin sækja í mismiklum mæli í ólíkar starfsstéttir og hins vegar í því að störf sem eru í meiri mæli unnin af körlum eru oft hærra metin að launum en störf þar sem konur eru í meirihluta.

Jafnlaunavottun tryggir ákveðin gæði og jafnræði við launaákvarðanir en er engin allsherjarlausn á þeim vanda sem endurspeglast í launamisrétti kynjanna. Til að ráðast að rótum vandans þarf að grípa til frekari aðgerða sem taka á stéttaskiptingu og stigveldi á vinnumarkaði, viðhorfum og vinnumenningu og kynjuðu menntakerfi.

Ályktun um uppreist æru

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, fagnar því að endurskoðun á lögum um uppreist æru sé hafin. Feminísk barátta hefur hlotið mikla athygli síðustu ár fyrir að ögra kynbundnu misrétti, til að mynda í formi KÞBAVD (Konur þurfa bara að vera duglegri), #höfumhátt og #freethenipple.

Fundurinn fagnar þeim árangri sem baráttan hefur skilað en það kom skýrt í ljós í umræðu um uppreist æru að almenningur sættir sig ekki við samfélag þar sem þöggun og misrétti þrífst. Því má ekki gleyma að það var feminísk barátta sem felldi ríkisstjórnina.

Barátta kvenna og aðstandenda dró í sumar fram í dagsljósið stórkostlegar brotalamir á kerfinu í kringum uppreist æru sem eru í engum takti við réttlætisvitund samfélagsins. Í þeirri vinnu sem framundan er skiptir miklu máli að litið sé til fleiri þátta en uppreistar æru, til dæmis að hægt sé að tryggja að þeir sem hafa gerst sekir um kynferðisbrot komist ekki í starf með börnum og ungmennum.

Alþjóða- og mannréttindamál

Ályktun um afstöðu Íslands til kjarnorkuafvopnunar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktar að Ísland gerist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Samningur þessi, sem er niðurstaða viðræðna 122 ríkja, mun væntanlega skipa sér í hóp mikilvægustu afvopnunarsamninga sögunnar, á borð við sáttmála sem banna jarðsprengjur, efnavopn og líftæknivopn.

Illu heilli kaus Ísland að taka ekki þátt í undirbúningi þessa samnings og var sú afstaða í samræmi við ákvörðun annarra aðildarríkja kjarnorkubandalagsins NATÓ, en sem kunnugt er áskilur NATÓ sér rétt til beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Enn er þó færi á því fyrir Ísland að undirrita sáttmálann, undirgangast skuldbindingar hans og leggja sitt að mörkum til útrýmingar kjarnorkuvopna í heiminum.

Ályktun: Vinnum gegn rasisma og fasisma

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar –  græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, telur að grípa þurfi til róttækra aðgerða til þess að stöðva það afturhvarf sem átt hefur sér stað víða í heiminum, þar sem uppgangur fasisma og rasisma minnir einna helst á aðstæður eins og þær voru fyrir mörgum áratugum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð minnir á þær alvarlegu afleiðingar sem hatursorðræða gegn jaðar- og minnihlutahópum getur haft í för með sér. Evrópa og heimurinn allur þarf að sýna í verki að hatur fær ekki að líðast.

Ályktun um vopnavæðingu lögreglunnar

Vinstrihreyfingin – grænt framboð varar eindregið við aukinni vopnavæðingu lögreglu og ítrekar að öll umræða um aukinn vopnaburð lögreglu verður að byggjast á staðreyndum og má ekki verða til þess að ala á ótta við tiltekna samfélagshópa.  

Vinstri græn hafa ítrekað bent á þann vanda sem lögreglan í landinu býr við. Áætlað er að um 200 almenna lögreglumenn vanti til að mönnun standi undir þeim þjónustu- og öryggiskröfum sem gerðar eru til lögreglunnar. Viðvarandi undirmönnun hefur líka leitt til óhóflegs álags á lögreglumenn í starfi. Mikilvægara er að fjölga lögreglumönnum en byssum og er það margfalt líklegra til að skila árangri og tryggja öryggi almennings um land allt.

Það er með öllu ólíðandi að ákvarðanir um meiriháttar stefnubreytingu í löggæslu – breytingu sem hefur víðtæk áhrif á íslenskt samfélag – séu teknar án nokkurrar opinberrar umræðu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð ítrekar að aukin vopnavæðing er ekki lausn á neinum vanda. Það á við jafnt hérlendis sem erlendis.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

Almenn ályktun um alþjóðamál

Á liðnum árum hefur átakasvæðum í heiminum fjölgað og ofbeldi þar færst í vöxt. Undirliggjandi ástæður þessa eru margvíslegar, svo sem umhverfislegar vegna veðurfarsbreytinga en ekki síður eru þær afleiðing af misskiptingu auðsins þar sem ríkasta brotabrot mannkyns sankar til sín sífellt meiri auðæfum. Á sama tíma keppast vopnaframleiðsluríki við að dæla hergögnum til átakasvæða, án þess að skeyta um afleiðingar þess.

Staða heimsmála sýnir fram á að íhlutunarstefna stórveldanna er stórháskaleg. Þrátt fyrir áralangan, blóðugan og kostnaðarsaman hernað er ekkert lát á átökum í Afghanistan, Írak og Lýbíu. Í Jemen þar sem Sádi-Arabar stunda stríðsrekstur af fullum þunga með stuðningi forysturíkja NATO blasir við hörmuleg hungursneyð og enn er barist í Sýrlandi.

Átökin eru í dag komin á það stig að leiðtogi eins valdamesta ríki heims hótar öðrum ríkjum eldi og brennisteini og lítur á kjarnorkuvopn sem raunhæfan kost til að „leysa“ vandamál og draga úr átökum.

Staðan sem komin er upp varðandi kjarnorkuvopnaeign Norður-Kóreu og orðaskak stjórnvalda þar við nágranna sína og Bandaríkjastjórn, er lifandi sönnun þess að kjarnorkuvopnastefna risaveldanna er dæmd til að misheppnast. Með því að ausa fjármunum í þróun og uppbyggingu kjarnorkuvopnabúra sinna, gera risaveldin framleiðslu kjarnavopna sífellt ódýrari og auðveldari með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að vopnin breiðast enn frekar út. Eina lausnin hlýtur að vera sú að ríki heims sameinist um bann það við kjarnorkuvopnum sem samþykkt hefur verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað styðja af þýlyndi við kjarnorkuvopnastefnu NATO.

Stríðsátök, sem oftar en ekki er stofnað til eða mögnuð upp af NATO-ríkjum, geta af sér neyð og eyðileggingu. Sömu ríki styðja við bakið á einræðisstjórnum sem brjóta á mannréttindum borgara sinna og NATO-ríki eru sömuleiðis í fararbroddi þeirra samfélaga sem viðhalda þeirri efnahagslegu misskiptingu sem veldur því að fjöldi fólks um heim allan sér ekki fram á að geta skapað sér sómasamlegt líf á heimaslóðum.

Allir framangreindir þættir ýta undir flutninga fólks, oft við hörmulegar og háskalegar aðstæður, í leit að friði, öryggi og betra lífi. Í stað þess að horfast í augu við þennan veruleika kjósa ýmsir á Vesturlöndum að skjóta sér undan ábyrgð, afmennska fólkið sem hér um ræðir og breyta þeim í vandamál – flóttamannavandann.

Ein birtingarmynd þessa skeytingarleysis er uppgangur þjóðernisöfgafólks, kynþáttahatara og nýnasista víða um lönd. Það eru samtök sem hafa það helst á stefnuskránni að ala á ótta við útlendinga, minnihlutahópa og ólíka menningarheima. Slík öfl hafa náð kjöri á þjóðþingum og einstaklingar sem styðja málstaðinn fremja hatursglæpi, jafnvel án fordæmingar ráðandi aðila. Hér á landi má sjá sömu orðræðu þó að reynt sé að fegra hana með umhyggju fyrir fátæku fólki og eldri borgurum, þ.e. ræða kostnaðinn við „flóttamannavandann“ í stað þess að ræða sjálfa uppsprettuna: misskiptingu auðsins.

Ísland ætti á alþjóðavettvangi að tala máli afvopnunar, mæla fyrir friðsamlegum lausnum og ýta undir umburðarlyndi í stað þjónkunar við hernaðarhyggju NATO. Í skýrslu um framtíð utanríkisþjónustunnar sem nýverið var kynnt kemur skilningsleysi íslenskra ráðamanna enn skýrar í ljós þar sem lausnin við sívaxandi misskiptingu, átökum og neyð virðist helst felast í að stofna á nýjan leik sérstaka varnarmálaskrifstofu og fella friðargæsluna undir hana.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð ítrekar stefnu sína í alþjóða- og friðarmálum og leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir að:

  • Ísland taki skilyrðislausa afstöðu gegn hernaði.
  • Ísland segi sig úr NATO.
  • Ísland beiti sér fyrir afvopnun á alþjóðavettvangi.
  • Ísland sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og banni umferð þeirra í íslenskri lögsögu.
  • Ísland undirriti sáttmálann um alþjóðlegt bann við kjarnorkuvopnum.
  • Ísland sendi ekki fulltrúa til að starfa á vegum hernaðarsamtaka erlendis.
  • Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum.
  • Ísland beiti sér gegn múrum og girðingum milli þjóða og þjóðfélagshópa.

Ályktun um norðurslóðir

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017 ítrekar afstöðu hreyfingarinnar þegar kemur að málefnum norðurslóða. Höfuðverkefni þeirra sem vinna að málefnum norðurslóða er að stemma stigu við loftlagsbreytingum af mannavöldum. Loftlagsbreytingar ógna ekki aðeins lífríki og lífsháttum á norðurslóðum heldur eru þær afdrifaríkasta áskorun mannkyns alls til framtíðar. Í þágu langtímahagsmuna komandi kynslóða gjalda Vinstri græn varhug við áformum um vinnslu gass og olíu á norðurslóðum. Jarðefnaeldsneyti er sá þáttur sem veldur mestu álagi á lofthjúp jarðar og því felst ákveðin þversögn í því að Ísland taki þátt í að auka á þann vanda á sama tíma og Ísland hefur lagt á það áherslu að skipa sér í fremstu röð þeirra ríkja sem vilja berjast gegn loftslagsvánni.

Vinstri græn leggja þunga áherslu á rétt frumbyggja til eigin lands og alhliða viðurkenningar á sjálfstæðum rétti þeirra til blómstrandi menningar á eigin forsendum, lífshátta og sjálfstjórnar. Rannsóknir hafa sýnt að verðmæti og fjármagn streymir iðulega frá jaðarsvæðum til borga og þéttbýlla svæða eða jafnvel suður á bóginn og út fyrir landsteinana. Það er úrslitaatriði fyrir samfélög norðursins til framtíðar að heimamenn fái sjálfir að njóta auðlinda norðursins með sjálfbærum hætti og að arður haldist heima fyrir á afskekktari slóðum til uppbyggingar innviða og tækifæra fyrir yngri kynslóðir.

Leggja þarf sérstaka rækt við samspil umhverfis og mannlífs á norðurslóðum og styrkja félagslegar rannsóknir og tengingar þeirra við stefnumótun. Á þeim sviðum á Ísland að sækjast eftir að vera leiðandi rödd á samráðsvettvangi Norðurslóðaríkja.

Ályktun um málefni hinsegin fólks

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017 lýsir yfir áhyggjum af því að Ísland hafi dregist verulega aftur úr þegar kemur að alþjóðlegum samanburði á stöðu hinsegin fólks í heiminum. Á regnbogakorti ILGA Europe uppfyllir Ísland nú innan við helming lagalegra skilyrða til að réttindi hinsegin fólks séu tryggð og hefur Ísland því dregist mikið aftur úr síðan 2014 og er nú töluvert á eftir þeim þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Vinstri græn vilja tryggja atvinnuöryggi hinsegin fólks með lagasetningu þess efnis að ekki sé hægt að segja fólki upp á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar, líkt og staðan er í dag. Eins mótmæla Vinstri græn því að skurðaðgerðir séu framkvæmdar á intersex fólki, jafnvel frá bernsku, án nauðsynjar eða samþykkis þess. Einnig mótmæla Vinstri græn því að geðröskunargreiningu þurfi til þess eins að fólk fái að breyta kynskráningu sinni hjá hinu opinbera.

Vinstri græn vilja að intersex einstaklingar fái að ráða því sjálfir hvort þeir falli inn í þær fyrir fram ákveðnu kynjamyndir þegar þeir hafa aldur til og ekki eigi að raska kynvitund þeirra með óþarfa inngripum á kyneinkennum þeirra. Það er klárt mannréttindabrot að framkvæma aðgerðir á hvítvoðungum til þess eins að normgera kyneinkenni þeirra, svo þeir passi inn í ákveðinn kynjaramma án upplýsts samþykkis einstaklingsins.

Allir hafa rétt á að vera sú manneskja sem þeir eru óháð öllu öðru. Fólk á sjálft að fá að skilgreina sig út frá sinni kynvitund, kynhneigð, kyneinkennum og kyntjáningu, hvort sem það fari í aðgerð eða kynleiðréttingaferli, til að sækjast eftir kyneinkennum sem samrýmast betur þeirra kynvitund, eða ekki. Fólk á sjálft að fá að ákveða hvort það fari í kynleiðréttingaferli og á sömuleiðis sjálft að stjórna ferlinu.

Ekki skal gera kröfur um ákveðna kyntjáningu til þess að aðgerð sé leyfð, heldur á einstaklingurinn sjálfur að stýra ferðinni í góðu samráði við lækna. Horfið verði frá hinum úreltu viðhorfum að einstaklingar þurfi geðröskunargreiningu til þess að þeim sé hleypt inn í kynleiðréttingarferli, þar sem það er gróf tímaskekkja. Aldrei má hefta aðgengi einstaklings að heilbrigðisþjónustu og gildir nákvæmlega það sama þegar kemur að trans einstaklingum. Kynleiðréttingaferlið skal vera greitt af hinu opinbera.

Vinstri græn vilja að fólk ráði því sjálft hvernig nafn þess og kyn sé skráð í Þjóðskrá. Eins verði við fleiri valmöguleikum en aðeins hinum tveimur hefðbundnu kynjum, þar sem allt fólk fellur ekki í sama mótið. Ísland gæti í þessum efnum farið að fordæmi annarra þjóða með því að bjóða upp á X-skráningu í þjóðskrá, sem þýðir einfaldlega að hið opinbera skráir fólk hvorki sem karl né konu. Því gætu einstaklingar verið X-merktir í vegabréfi og á öðrum persónuskilríkjum sem krefjast kynskráningar.

Einnig þarf að tryggja hinsegin fólki vernd í stjórnarskrá með því að bæta við 65. grein, svo þar séu að auki tilgreind kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning. Á sama veg ætti stjórnarskráin að viðurkenna fleiri kyn en aðeins þau sem kynjatvíhyggjan gerir ráð fyrir, þ.e. karl og konu.

Stefnt skal að því að leggja af kynjaskipt salerni í opinberum byggingum eða tryggja kynhlutlaus salerni þar sem það á við, enda er það mikilvægt fyrir fólk sem ekki fellur að hinum hefðbundna kynjaramma. Bann við blóðgjöfum karlmanna sem stunda mök með öðrum karlmönnum er einnig tímaskekkja sem þarf að afnema sem fyrst. Íslenska ríkið þarf að leggja áherslu á það að semja við ríki sem heimila ættleiðingar hinsegin fólks ásamt því að vera mun sterkara þrýstiafl á þjóðir sem banna ættleiðingar hinsegin fólks.

Einnig eru hinsegin hælisleitendur hópur sem þarf að hlúa sérstaklega að, þar sem um jaðarhóp innan jaðarhóps er að ræða. Þeim þarf að tryggja bestu mögulegu ráðgjöf og þjónustu sem hugsast getur, auk þess sem Útlendingastofnun þarf að taka sérstakt tillit til þess hóps. Eins er kominn tími til að íslenska ríkið styðji í ríkari mæli við hagsmunasamtök hinsegin fólks, sem fær aðeins brotabrot af því fé sem nágrannalönd okkar leggja til sambærilegra félaga. Þá hefur ríkið hingað til vanrækt að setja slík samtök á fjárlög.

Íslensk stjórnvöld hafa gjarnan barið sér á brjóst og fagnað góðum árangri um það leyti sem hátíðarhöld hinsegin fólks fara fram. Jákvæður málflutningur stjórnvalda dugar hins vegar óneitanlega skammt ef aðgerðir og lagabreytingar fylgja ekki fögrum orðum. Alþingi og íslenska ríkið þarf að gera meira þegar kemur að málefnum hinsegin fólks og þar eru Vinstri græn tilbúin til að taka stór skref.

Fyrir hönd málefnahóps um alþjóða- og mannréttindamál,
Auður Lilja Erlingsdóttir og Daníel E. Arnarsson

Ályktun um stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólk

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017 vill stórbæta aðbúnað umsækjanda um alþjóðlega vernd og veita fleirum stöðu flóttafólks. Sem einni ríkustu þjóð í heimi ber okkur að taka betur á móti þeim sem hingað leita með ósk um alþjóðlega vernd og taka mál fleiri einstaklinga til efnislegar meðferðar, veita fleirum stöðu flóttfólks og senda færri úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar.

Nauðsynlegt er að tryggja að farið sé eftir lögum, reglum og alþjóðlegum skuldbindingum  hvað varðar móttöku, réttindi og skyldur umsækjenda um alþjóðlega vernd. Einnnig ber að tryggja að öllum umsækjendum fái fræðslu um borgaralegréttindi sín.

Mikilvægt er að skerpa á hlutverki allra sem koma að þjónustu við þessa hópa og skýra hver ber ábyrgð á hverju, bæði innan ríkis og sveitarfélaga.

Mikilvægt er að tryggja að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd búi við ásættanlegar aðstæður og fái fljótt inni í skóla, á meðan mál fjölskyldunnar bíður afgreiðslu. Sérstaklega er mikilvægt að standa betur að móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn.

Efla þarf aðgengi að íslenskukennslu og veita fólki tækifæri til að fara í skóla sem hentar þeirra menntunarstigi. Einnig þarf að rýmka réttindi til atvinnuþátttöku fyrir þau sem það vilja. Móttökurnar og stuðningurinn sem fólk fær til að byrja með ræður úrslitum um það hvort því tekst að koma undir sig fótunum og halda heilsu til lengri tíma.

Ályktun um samhengi umhverfismála, byggðamála, matvælaframleiðslu og frjálsra viðskipta

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 6.-8. október 2017 ályktar:

Horfa verður í samhengi á umhverfismál, byggðamál, matvælaframleiðslu og frjáls viðskipti.

Vöruflutningar um langa leið valda gífurlegri mengun og enn meiri ef um er að ræða flutning kæli- eða frystivöru. Það er því nokkuð ljóst að fyrr eða síðar verða gerðir alþjóðlegir samningar af umhverfisástæðum um takmarkanir á vöruflutninga á einhvern hátt.

Ísland uppfyllir nú þegar mikið af þeim kröfum til vöruflutninga sem fyrirsjáanlegar eru með þeim hömlum sem eru á innflutningi ýmissa landbúnaðarvara. Þó svo að slíkar hömlur valdi til skamms tíma hærra vöruverði í einhverjum tilfellum er ljóst að sá kostnaður mun skila sér til baka til komandi kynslóða og jafnvel strax þeirrar sem nú er að vaxa úr grasi.

Þótt sýna megi fram á að yfirtaka fjölþjóðlegra stórfyrirtækja á matvælaframleiðslu, ekki síst í landbúnaði, og alþjóðleg viðskipti þeirra með matvæli hafi í mörgum tilvikum lækkað matarverð til neytenda, hefur það um leið valdið gífurlegum umhverfisspjöllum og röskun á byggð og samfélagi. Fjöldi fólks hefur af þessum sökum neyðst til að flytja búferlum úr sveitum og sjávarbyggðum til stærri bæja og borga. Geigvænlegra áhrifa þessa gætir í viðkvæmari og fátækari samfélögum utan hinna grónu og þróuðu auðvaldsríkja en láta þau þó engan ósnortinn.

Þessi neikvæðu áhrif á umhverfi og byggðir kalla á heildstæða grenndarvæðingu eða „lókalíseringu“ í stað hnattvæðingar eða „glóbalíseringar“. Grenndarstefna byggist á því að framleiðslan fari eftir því sem unnt er fram sem næst neytandanum, án þess þó að loka á umheiminn. Hver minnsta eining samfélagsins hafi sem mest um sín mál að segja og allar ákvarðanir, hvort sem þær eiga við nánasta umhverfi eða heiminn allan, séu teknar á sem allra lýðræðislegastan hátt en ekki af stjórnendum stórfyrirtækja á skrifstofum víðsfjarri. Grenndarstefna verður að vera sveigjanleg þannig að hún taki tillit til hagsmuna allra samfélaga, hvort sem um er að ræða frumstæð og einangruð samfélög eða háþróuð samfélög mitt í hringiðu heimsins. Grenndarvæðing byggist ekki á einangrunarstefnu eða þjóðernisstefnu heldur þvert á móti lýðræðishyggju og samstöðu alþýðu allra landa.

Velferðar- og heilbrigðismál

Ályktun um heilbrigðiskerfið

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, leggur áherslu á öflugt opinbert heilbrigðiskerfi sem tryggir best aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu og er jafnframt hagkvæmasta leiðin til að veita slíka þjónustu. Flestir landsmenn vilja að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera og hafna þar með auknum einkarekstri. Þörf er á skýrri framtíðarsýn fyrir heilbrigðiskerfið og hætta skal tilraunum til  útvistunar á verkefnum sem einkaaðilar hafa síðan að féþúfu.

Heilbrigðiskerfið á að þjóna öllum óháð efnahag, aðstæðum og búsetu. Lækka þarf þak á greiðsluþátttöku sjúklinga. Kanna þarf áhrif þess að sameina eða tengja þök í greiðsluþátttöku í læknis- og lyfjakostnaði. Stefnt skal að því að tiltekin grunnþjónusta verði gjaldfrjáls.

Svara þarf ákalli Landspítalans og heilbrigðisstofnana um land allt um aukið fjármagn. Það er krafa þjóðarinnar að nauðsynlegt sé að auka fjármagn í hina opinberu heilbrigðisþjónustu til þess að hægt sé að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi þar sem engum er mismunað eftir búsetu eða efnahag.

Kanna skal möguleika á því að koma á fót embætti Umboðsmanns sjúklinga til leiðbeiningar, stuðnings og hagsmunagæslu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Ályktun um notendastýrða persónulega aðstoð

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs áréttar að notendastýrð persónuleg aðstoð þurfi að verða raunverulegt val fyrir þá sem þurfa hana til að lifa sjálfstæðu lífi og tími til kominn að festa það verkefni í sessi með lögum. Sveitarfélög eiga að bjóða upp á þjónustuna alls staðar á landinu . Tryggja verður nægjanlegt fjármagn frá ríkinu til þjónustunnar, að hún verði ekki rekin í hagnaðarskyni og að þjónustunni sé stjórnað af notendunum sjálfum. Mikilvægt er að reglur og aðgengi að notendastýrðri persónulegri aðstoða séu samræmd milli ólíkra sveitarfélaga.

Ályktun um upprætingu fátæktar á Íslandi

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 6.-8. október 2017 felur þingmönnum VG að leggja fram tillögu um að velferðarráðuneytinu verði falið að gera greiningu á umfangi, eðli og orsökum fátæktar á Íslandi með það að markmiði að gerð verði hið fyrsta í samvinnu ríkis og sveitarfélaga áætlun um að bregðast við þessum orsökum og fátækt verði upprætt á Íslandi innan fárra ára. Ísland er vel stætt samfélag og aðstæður þannig að þetta ætti að vera raunhæft markmið.

Nú þegar liggja fyrir miklar upplýsingar um fátækt á Íslandi og orsakir hennar og meðal annars hafa legið fyrir í tæp þrjú ár tillögur Velferðarvaktarinnar um aðgerðir til að uppræta fátækt. Því ætti að vera auðvelt að taka saman til bráðabirgða nægilegar upplýsingar til að hefjast handa um afmarkaðar aðgerðir sem fyrst bæði á vettvangi Alþingis og sveitarstjórna.

Ályktun um geðheilbrigðisþjónustu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 6.-8. október 2017 leggur áherslu á að geðheilbrigðisþjónusta við landsmenn verði stórefld, bæði úti í samfélaginu, grunn- og framhaldsskólum og á heilbrigðisstofnunum, með vísun í ítarlega ályktun alþingis 2016 um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Stofna ber á öllum sjö heilbrigðisstofnunum landsins sérstök geðheilbrigðisteymi, sem skipuleggi geðheilbrigðisþjónustu og veiti ráðgjöf og fræðslu til fagfólksins á sérhverri heilbrigðisstofnun í viðkomandi heilbrigðisumdæmi. Heilsugæslan fái það hlutverk að sinna geðheilbrigðisþjónustu alls staðar á landinu sem og forvarnarstarfi og verði fyrsti viðkomustaður varðandi geðheilsu eins og önnur heilbrigðismál.

VG styður réttindabaráttu geðsjúkra og hvetur til samráðs við notendur í uppbyggingu þjónustunnar. Stefnt verði að því að nauðung hverfi úr geðheilbrigðisþjónustunni.

Fundurinn telur að ekki þoli neina bið að bæta húsakost fyrir bæði Geðsvið Landspítalans og Geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri, í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru til nýrra geðdeilda sjúkrahúsa á öðrum Norðurlöndum. Einnig er stofnun sérhæfðrar öldrunargeðdeildar löngu tímabær. Enn fremur er því beint til stjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að heilbrigðismál og sérstaklega  geðheilbrigðisþjónusta verði á dagskrá næsta flokksráðsfundar til ýtarlegrar fræðslu og kynningar.

Ályktun um heilsugæsluna

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Grand Hótel 6. – 8. október 2017 telur mikilvægt að efla heilsugæslu þannig að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu. Gætt verði að nándarreglu á þann veg að þjónustuna verði að finna innan ásættanlegrar fjarlægðar við notendur.

Mikilvægt er að heilsugæslustöðvar séu mannaðar þverfaglegu teymi fagfólks sem geti sinnt heildrænum þörfum einstaklinga.  Styrkja þarf fjölskyldur sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu um langan veg með auknu fæðingarorlofi. Fara þarf í aðgerðir til að fá fleira heilbrigðisstarfsfólk til starfa í heilsugæslu. Við hörmum þá þróun sem hefur verið á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Æ meiri áhersla hefur verið lögð á sjúkraflutninga, á láði sem og í lofti, á kostnað uppbyggingar í héraði.

Með því að veita auknu fjármagni í uppbyggingu á landsbyggðinni getur Ísland stigið stórt skref til þess að uppfylla skilyrði Parísarsáttmálans.

Ályktun um misskiptingu: Almenning í fyrsta sæti

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017 kallar eftir framsækinni skattastefnu sem grundvallast á hugmyndinni um að hver gefi eftir getu og hver fái eftir þörfum. Fyrir land eins og Ísland, þar sem ríkustu 10% landsmanna eiga um 75% alls auðs, er mikilvægt að skattleggja fjármagnsflutninga, fjármagnstekjur, ofurlaun og miklar eignir. Ráðast þarf að rótum skattsvika og berjast gegn skattaskjólum á alþjóðavettvangi.

Að sama skapi þarf þjóðin að fá í auknu mæli arðinn af auðlindum landsins, hvort sem um er að ræða fiskveiðiauðlindina eða rafmagnið sem framleitt er með vatnsfallsvirkjunum. Þær aðgerðir myndu gera þjóðinni kleift að byggja upp innviði sem þjónusta alla, óháð efnahag, búsetu og öðrum þáttum. Efnahagslegur stöðugleiki þýðir ekki að allir búi við góð kjör. Stefna fráfarandi ríkisstjórnar í þágu þeirra ríku hefur fengið að viðgangast of lengi

Mennta- og menningarmál

Ályktun um grunn- og leikskóla

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir áhyggjum af fyrirsjáanlegum kennaraskorti í grunn- og leikskólum landsins. Nú er þörf á samhentu átaki mennta- og menningarmálaráðuneytis, sveitarfélaga, háskólasamfélagsins og samtaka kennara til að fjölga kennaranemum. Búa þarf betur að skólafólki með öflugra símenntunarkerfi og betri launakjörum í samræmi við sérþekkingu og skyldur. Tryggja þarf faglegt sjálfstæði kennara og sveigjanleikja í starfi um leið og stutt er við fagmennsku þeirra.

Endurskoða þarf tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga í ljósi breyttra aðstæðna í grunn- og leikskólum. Horfa þarf einnig til framlaga sveitarfélaga á hvern nemanda til að tryggja viðunandi stuðning í bekkjum. Tryggja þarf aukinn sérfræðistuðning innan skóla til að framfylgja skóla án aðgreiningar, fara verður að lögum um náms- og starfsráðgjöf og bæta félagslega þjónustu og heilsugæslu í nærumhverfi hvers skóla.

Ályktun um raunverulegt gjaldfrelsi í grunnskólum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, fagnar því að sveitarfélög séu í auknum mæli farin að bjóða börnum í grunnskóla upp á frí námsgögn. Menntun barna á að vera gjaldfrjáls að öllu leyti og ekki gera upp á milli barna eftir efnahag eða aldri. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill setja menntamál í forgang í sveitastjórnarkosningum í vor, þ.á.m. að námsgögn verði frí fyrir börn um land allt sem og skólamáltíðir.

Leggja þarf ríka áherslu á skólabókasöfnin og að safnakosturinn sé fjölbreyttur og styðji við áhugasvið og nám barna.

Ályktun um háskóla

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vill tryggja að fjármögnun íslenskra háskóla verði sambærileg við fjármögnun háskóla á Norðurlöndunum árið 2020 í samræmi við áætlun Vísinda- og tækniráðs.

Íslenskir háskólar fá nú um helmingi lægri framlög á hvern háskólanema en háskólar á Norðurlöndunum og eru framlög í íslensku háskólakerfi lægri en þau voru fyrir áratug.

Háskólarnir eru undirstaða þekkingarsköpunar og þekkingarmiðlunar í samfélaginu. Aðgengi að háskólamenntun dregur úr misskiptingu og fjölbreytt atvinnulíf byggist á góðri menntun, nýsköpun og rannsóknum. Þannig eru háskólarnir undirstöðustofnanir í að styrkja innviði íslensks samfélags.

Ályktun um LÍN: All We Need Is Somebody to LÍN On

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017, boðar heildarendurskoðun á lánasjóðskerfi fyrir námsmenn og að innleitt verði, að hluta, styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd.

LÍN er jöfnunarsjóður sem á að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag, búsetu og fjölskyldugerð.

Ályktun um framhaldsskóla til framtíðar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur til að ráðist verði í stórsókn í framhaldsskólum landsins til að tryggja fjölbreytta og góða menntun fyrir alla sem þangað sækja. Þar eiga utanaðkomandi þættir, eins og fötlun, búseta, móðurmál eða aldur, ekki að hafa áhrif. Nauðsynlegt er að það fjármagn sem sparaðist með styttingu námstíma til stúdentsprófs skili sér inn í rekstur framhaldsskólanna eins og lofað var. Jafnframt verði skólum tryggt frelsi, sjálfstæði, fjármagn og sveigjanleiki til að skipuleggja sitt nám eins og þeir telja best innan ramma laga og námskrár. Fundurinn lýsir yfir sérstökum áhyggjum af stöðu iðn- og verknáms og ítrekar fyrri áherslu um að efla og tryggja stöðu þess í skólakerfinu. Að lokum hafnar fundurinn öllum tilraunum stjórnvalda til einkavæðingar í framhaldsskólakerfinu, hvort sem er á sviði iðnnáms eða bóklegs náms.

Fyrir hönd málefnahóps um velferðar-, mennta- og heilbrigðismál
Brynhildur Björnsdóttir, Sigursteinn Másson og Sigríður Gísladóttir

Ályktun um námsefni

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur mikilvægt að gerð verði gangskör að endurnýjun námsefnis í framhaldsskólum. Ljóst er að markaðslausnir duga ekki til til að tryggja nýlegt námsefni í ólíkum námsgreinum á framhaldsskólastigi og því er mikilvægt að opinber stuðningur við námsefnisútgáfu fyrir framhaldsskóla verði aukinn.

Horfið verði frá áformum um aukinn einkarekstur á útgáfu námsefnis fyrir grunnskóla. Slík einkavæðing eykur líkurnar á því að gróðasjónarmið ráði útgáfunni frekar en vönduð, fagleg vinnubrögð með hagsmuni barna að leiðarljósi.

Ályktun um listir, menningu og skapandi greinar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að bæta þurfi stöðu lista, menningar og skapandi greina innan stjórnsýslunnar og menntakerfisins. Þetta er forsenda þess að hægt sé að byggja upp atvinnustarfsemi á sviði skapandi greina. Búa þarf mun betur að höfuðsöfnum þjóðarinnar og löngu er tímabært að reisa nýtt Náttúruminjasafn. Efla þarf stuðning við listamenn í gegnum faglega launasjóði og verkefnasjóði og tryggja að listamenn fái greitt fyrir sína vinnu. Styðja þarf betur og markvissar við opinberar menningarstofnanir og tryggja að allir landsmenn fái notið starfs þeirra. Sérlega mikilvægt er að aðgengi að listum og menningu sé óháð uppruna, búsetu, aldri og efnahag. Fundurinn fagnar því að loksins eigi að ráðast í aðgerðir á sviði máltækni en ítrekar að mikilvægt er að auka nú þegar við menntun á þessu sviði. Styðja þarf betur við bókaútgáfu, bæði með afnámi virðisaukaskatts á bækur og með öflugri stuðningi í gegnum sjóðakerfið. Þörf er á því að efla listmenntun á öllum skólastigum og tryggja aðgengi barna að listum, menningu og skapandi starfi. Þá er mikilvægt að efla rannsóknir á sviði lista og menningar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarmál

Ályktun um samgöngumál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Grand Hótel 6. – 8. október leggur áherslu á að heildsætt og nútímalegt samgöngukerfi er lífæð samfélagsins í okkar stóra landi. Vinstri græn telja  áherslur fráfarandi ríkisstjórnar í samgöngumálum forkastanlegar.

Vegakerfi landsins hefur á síðustu áratugum hvorki fengið nauðsynlegt viðhald né þá uppbyggingu sem nútímaþarfir og gríðaleg auking í ferðaþjónustu krefst. Á sama tíma og vegakerfið er bætt þarf að huga að fleiri þáttum til að bæta samgöngur og færa til umhverfisvænna og efnahagslega ásættanlegs horfs.

Bæta þarf almenningssamgöngur til muna, einkum á landsbyggðinni. Þar þarf að tryggja heildstætt kerfi almenningssamganga og skoða leiðir til að innanlandsflug verði hluti af almenningsamgangakerfi.

Úrbætur í öryggismálum eru brýnar, jafnt í dreifbýli og þéttbýli. Mikil þörf er á að útrýma einbreiðum brúm,breikka vegi og fjölga útskotum. Bæta þarf leiðir út frá helsut þéttbýlisstöðum, að lágmarki þarf að tryggja þar 2 plús 1 kerfi. Við uppbyggingu vegakerfis þarf ávallt að tryggja öryggi og leiðir fyrir hjólandi og gangandi umferð.  Jafnframt þarf að vinna að því að holóttir malarvegir í byggð heyri sögunni til.

VG telja að vegakerfið skuli byggt upp og viðhaldið úr sameiginlegum sjóðum og hafna hugmyndum um uppbyggingu grunnvegakerfis byggðri á vegatollum.

Sveitarfélög í samvinnu við ríkið leggja sitt af mörkum til stuðla að rafbílavæðingu og uppsetningu hleðslustöðva.

Málefnahópur um sveitarstjórnamál

Ályktun vegna sveitarstjórnarkosninga vorið 2018

Vinstrihreyfingin grænt framboð telur að komandi sveitarstjórnarkosningar séu vettvangur landsmanna til að jafna kjör og bæta nærsamfélagið. Sveitarfélögin veita almenningi víðtæka grunnþjónustu og móta nánasta umhverfi allra landsmanna. Stefna VG í sveitarstjórnarmálum byggir á því að þjónusta við almenning skuli greiðast af skattfé og sveitarfélögin séu virk í að jafna aðstæður og auka lífsgæði.

Til að sveitarfélögin geti rækt þetta hlutverk sitt þarf að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er grundvöllur þess að sveitarfélögin geti mætt kröfum íbúa og ríkisvaldsins um aukna og bætta nærþjónustu. Aukna hlutdeild í tekju- og fjármagnsskatti, hlutdeild gistináttagjaldi og umhverfisgjöldum þarf að skoða í þessu samhengi.

Vinstri græn munu setja húsnæðismál á oddinn í komandi kosningum. Öruggt húsnæði  er ein af grunnþörfunum í hverju samfélagi. VG vilja tryggja að fjölbreytt húsnæðisform sem miðast við þarfir hvers og eins séu í boði og að sveitarfélögin beiti sér í þessu grundvallarverkefni sínu á félagslegum grunni. 

Vinstri græn vilja stefna að því að öll þjónusta sveitarfélaganna sem snertir börn sé fjölskyldum þeirra að kostnaðarlausu. Slíkt er grundvallarforsenda þess að öll börn hafi sömu tækifæri í samfélaginu. Sveitarfélög og ríki þurfa að vinna að því sameiginlega markmiði að við lok lengds fæðingarorlofs séu leikskólapláss í boði fyrir öll börn.

Vinstri græn vilja einnig að þjónusta sveitarfélaganna við eldra fólk og fólk með fötlun sé aðgengileg, traust og á forsendum notendanna.

Vinstri græn vilja að öll sveitarfélög setji sér markmið á komandi kjörtímabili um kolefnishlutleysi.

VG vilja auka aðkomu íbúa að ákvörðunum með opnara lýðræði, þátttökufjárlagagerð og opnu bókhaldi sveitarfélaga.

VG vilja líta á sveitarfélögin sem tæki til jöfnunar í samfélaginu. Þar undir falla tækifæri sveitarfélaganna til að jafna aðstöðu íbúanna, tryggja að allir geti notið þeirrar þjónustu sem þeir þurfa á þeirra forsendum.

VG vilja jafnframt líta á sveitarfélögin sem gerendur í umhverfismálum, í einstökum færum til að beita sér á þeim vettvangi í skipulagi, í samstarfi við önnur sveitarfélög og í stefnumótun heima fyrir. Sveitarfélögin eiga að vera fyrirmyndar „neytendur“ í samfélaginu og kolefnishlutlaus.

VG líta á sveitarfélögin sem lýðræðisvettvang þar sem hægt er um vik að gefa íbúum kost á mikilli þátttöku í ákvörðunum, bæði hvað varðar stefnumótun og fjármál.

Atvinnumál, vinnumarkaðs- og verkalýðsmál

Ályktun um sprotaumhverfi og nýsköpunarmál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6.-8. október 2017, felur stjórn að móta ítarlega stefnu í nýsköpunarmálum sem lögð verði fyrir næsta landsfund hreyfingarinnar.

Ljóst er að stórfelldar breytingar á atvinnuháttum og vinnumarkaði blasa við með tækniþróun sem fleygir hraðar fram en áður hefur þekkst. Nú þegar hefur orðið hugarfarsbreyting á Íslandi í átt frá stórum heildarlausnum í atvinnumálum. Oftar er horft til fjölbreyttra og sjálfbærra lausna. Vinstri græn telja að framtíðin í atvinnumálum sé ekki fólgin í að ganga á takmarkaðar auðlindir landsins, heldur m.a. í því að búa í haginn fyrir nýsköpun sem byggist á hugviti. Hugvit er auðlind sem þrýtur ekki, og samkeppnishæft, metnaðarfullt og frjótt umhverfi sprotafyrirtækja er leiðin í gegnum þessar öru breytingar. Vinstri græn vilja skapa nýsköpunarumhverfi sem býður einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum upp á bestu mögulegar aðstæður til að nýta hugvit sitt til atvinnuskapandi lausna.

Heildstæðrar nálgunar á umhverfi nýsköpunar er þörf. Í dag eru starfandi sjóðir og verkefni sem miða að því ýta sprotaverkefnum úr vör, en ljóst er að skýr framtíðarsýn um slíkt umhverfi, sem byggir á sjálfbærni, samvinnu og virkjun sköpunarkrafts einstaklinga, getur tryggt þjóðinni samkeppnishæfni og sóknarfæri. Við erum einnig þátttakendur í hnattrænu markaðskerfi þar sem óheft markaðsöfl ganga með ógnvænlegum hraða á auðlindir jarðar. Við getum og eigum að vera mótvægisafl og leggja til nýja nálgun og lausnir sem byggja á vistfræði-, félags- og efnahagslegri sjálfbærni, heiminum öllum til hagsbóta. Þetta getum við með því að líta á næstu skref í uppbyggingu nýsköpunarumhverfis Íslands í alþjóðlegu samhengi.

Öflugt menntakerfi, frá leikskóla- til háskólastigs, er forsenda allrar nýsköpunar. Mikilvægt er að horft sé til eflingar iðn- og tæknináms í því samhengi. Vinstri græn telja að stórsóknar sé þörf til að tryggja stöðu rannsókna á háskólastigi. Á sama tíma þarf að styrkja tengingu þeirra inn í nýsköpunarumhverfið. Rannsóknir og þróun er líklega það svið nýsköpunar þar sem Ísland hefur mest færi til að skapa sér sérstöðu. Mikilvægur þáttur þess að skapa heildstæða nálgun á umhverfi nýsköpunar er að hafa þor til að greina hvar tækifærin liggja og hafa skýra sýn á forgangsröðun.

Ályktun um raunfærnimat fyrir innflytjendur

Innflytjendur eru auðlind fyrir hvert samfélag. Innflytjendur auðga menningu og mannlíf hvers samfélags fyrir utan að vera oft lykilstoð í efnahagslífinu. Mikilvægt er að nýta þekkingu, reynslu og menntun þeirra innflytjenda sem hingað koma samfélaginu til heilla. Könnum kosti þess að faglegt mat sé lagt á færni, þekkingu og reynslu innflytjenda burtséð frá aðgengi að viðurkenndum vottorðum þegar viðkomandi kemur frá ótryggu ríki. Slíkt raunfærnimat er til dæmis hægt að þróa hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Ályktun um landbúnaðarmál og vanda sauðfjárbænda

Fundurinn beinir því til forystu flokksins og þeirra þingmanna sem skipa munu nýjan þingflokk VG að kosningum loknum að standa vörð um öflugan innlendan og sjálfbæran landbúnað, matvælaframleiðslu og matvælaiðnað á grundvelli þeirrar stefnu sem flokkurinn hefur mótað. Auka þarf nýsköpun og rannsóknir í landbúnaði, vöruþróun og upprunamerkingar. Huga þarf sérstaklega að umhverfissjónarmiðum, ábyrgri umgengni við landið, og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda greinarinnar sem og bæta möguleika á lífrænum valkostum í hvers kyns landbúnaði.

Um leið og nýtt þing og ný ríkisstjórn taka til starfa þarf að ráðast í aðgerðir vegna þess bráða vanda sem steðjar að sauðfjárræktinni og þar með byggð á stórum svæðum. Afstýra þarf  þeirri miklu kjaraskerðingu sem að óbreyttu stefnir í meðal sauðfjárbænda. Jafnframt og um leið þarf að hefjast handa í samstarfi við bændur um varanlegri lausnir og framtíðarstefnu í málefnum greinarinnar. Endurreisa þarf traust milli bænda, sláturleyfishafa og stjórnvalda sem beðið hefur skipsbrot á undanförnum misserum.

Húsnæðismál

Ályktun um húsnæði fyrir alla

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að allir eigi kost á öruggu og boðlegu húsnæði óháð efnahag og félagslegum aðstæðum þar sem aðgengi fyrir alla er tryggt. Húsnæðismál eru mannréttindamál og kjaramál. Við viljum húsnæðiskerfi sem drifið er áfram af félagslegum hugsjónum frekar en hagnaðarsjónarmiðum. Kerfið byggist á réttlátu lána- og leiguumhverfi sem tryggir aðgang að húsnæði á sanngjörnum kjörum. Miðað skal við að húsnæðiskostnaður heimilanna fari ekki yfir fjórðung ráðstöfunartekna. Efla verður samfélagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn veiti lán á viðráðanlegum kjörum til þess að rétta hlut þeirra sem minna hafa á milli handanna.

Ályktun um húsnæði og sveitarfélög

Vinstri græn vilja að sveitarfélög geti boðið fjölbreytta kosti í skipulagi nýrra og endurnýjaðra íbúðahverfa. Sveitarfélög verði jafnframt hvött til uppbyggingar íbúðahverfa með fjölbreyttu búsetuformi. Í þessu samhengi er mikilvægt að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vinni saman að skipulagi svo hægt sé að nýta nærþjónustu svæðisins sem best. Á þeim svæðum þar sem sérstök þörf er á uppbyggingu verði möguleiki á skattaívilnunum til byggingar- og leigufélaga, sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Tekjustofnar sveitarfélaganna verði styrktir þannig að þau séu betur í stakk búinn til að sinna húsnæðisþörf síns svæðis, t.a.m. með nýbyggingum. Sveitarfélögum verði gert kleift að bjóða upp á félagslegt húsnæði í samræmi við þörf og lagalega ábyrgð.

Ályktun um húsnæði í sátt við umhverfið

Vinstri græn vilja að íbúðarhúsnæði verði vistvænt og í sátt við umhverfið, þannig verði tekið tillit til umhverfissjónarmiða þegar horft er til nærþjónustu og uppbyggingar nýrra hverfa. Jafnframt að byggingarefni sé vistvænt þar sem því er við komið og hvatt til notkunar á íslensku byggingarefni. Orkunotkun við byggingu og rekstur húsnæðis verði sem minnst og skipulag húsnæðis taki mið af þeirri stefnu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search