Search
Close this search box.

Áhætta sýndarveruleikans

Deildu 

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var ég sem íbúi þessa sveitarfélags einhart á móti þeirri ákvörðun meirihluta að taka þátt í þeirri áhættufjárfestingu sem aðkoma sveitarfélagins hefur verið að Sýndarveruleika ehf. Það er ágætt að rifja aðeins upp hver sú aðkoma var og er enn í dag og hvernig sú aðkoma heftir sveitarfélagið í rekstri og framkvæmdagetu. Samningur sveitarfélagsins við Sýndarveruleika er að hluta til bundinn trúnaði og bindandi til 30 ára.

Kostnaður

Kostnaður sveitarfélagsins við endurbætur á húsnæði Aðalgötu 21 á árunum 2017 til 2019 voru kr. 331.027.734. Viðhaldskostnaður á þessu sama nýuppgerða húsi var á árunum 2020 til 2022 kr. 20.495.777. Á sama tíma er fjöldi eigna sveitarfélagsins í mikilli viðhaldsskuld og fær ekki slíkum upphæðum útdeilt til viðhalds. Sveitarfélagið á þrátt fyrir þessi fjárútlát engan skráðan hlut í Sýndarveruleika ehf. Fyrirtækið fær afnot af Aðalgötu 21 leigulaust í 15 ár og með 50% afslætti á leigunni næstu 15 árin þar á eftir. Það má reikna með að leiga á slíku húsnæði ætti að vera rúmlega 1,3 milljón á mánuði, sé miðað við þá leigu sem sveitarfélagið greiðir Kaupfélagi Skagfirðinga fyrir leigu á áhaldahúsi, en sú húsaleiga var kr. 633.398 á mánuði í lok árs 2019. Leigutekjur sem sveitarfélagið gæti verið að fá fyrir Aðalgötu 21 væru þá um 235 milljónir á þessum 15 árum. Að öðrum kosti gæti sveitarfélagið verið að nýta húsnæðið undir aðra starfsemi sem raunverulega varðar rekstur þess.

Vissulega tók Aðalgata 21 stakkaskiptum til hins betra við þessar endurbætur, en það verður líklega kominn tími aftur á endurbætur að þessum 30 árum liðnum þegar samningstíminn er loks útrunninn.

Tap

Rifjum upp bókun meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á sveitarstjórnarfundi í desember 2018 um væntanlegan ávinning að aðkomu sveitarfélagsins:

„Ávinningur sveitarfélagsins af verkefninu hefur verið metinn af Deloitte og eru niðurstöður þess mats að Sveitarfélagið Skagafjörður mun hafa um 195 milljónir króna í hagnað af verkefninu á samningstímanum sem er 30 ár. Gert er ráð fyrir að 10 manns muni starfa hjá fyrirtækinu í upphafi og fjölga upp í 15 – 18 þegar fram líða stundir, gangi áætlanir eftir.”

Stöðugildi í Aðalgötu 21 hafa aldrei farið í 15 til 18, enda hafa áætlanir ekki gengið eftir. Séu ársreikningar Sýndarveruleika ehf. skoðaðir þá er fyrirtækið rekið með tapi upp á kr. 108.258.802 á árunum 2018 til 2020, en ársreikningi hefur ekki enn verið skilað fyrir síðastliðið ár. Heimsfaraldur truflaði vissulega starfsemina þarna eins og annars staðar. Þá hefði verið upplagt að draga saman kostnað við upplýsingamiðstöð eða færa þá starfsmenn í önnur þarfari verkefni en það var ekki mögulegt. Starfsmenn skulu samkvæmt samningi vera staðsettir í húsnæði Aðalgötu 21 til 10 ára. Sveitarfélagið er að greiða tæplega 15 milljónir á ári í laun starfsmanna upplýsingamiðstöðvar, starfsmanna sem meðal annars þjóna til borðs á veitingastaðnum Gránu í samkeppni við aðra veitingastaði bæjarins. Á sama tíma er kostnaður sveitarfélagsins fyrir starfsmann upplýsingamiðstöðvar í Varmahlíð um kr. 3.500.000 en þar liggur straumur ferðamanna í mun meira mæli en hér á Sauðárkróki.

Styrkir

Þær kennitölur sem Aðalgata 21 hýsir hafa einnig verið duglegar að sækja sér styrki t.d. hjá landshlutasamtökunum SSNV. Uppbyggingarsjóður SSNV hefur veitt þessum félögum styrki upp á samtals 17.200.000 milljónir króna síðustu 4 ár. Mikil aðsókn er í þessa styrki SSNV en á síðasta ári bárust 115 umsóknir í þá. Til úthlutunar voru um 77 milljónir og hlutu 78 umsóknir styrk. Það má því sjá að félögin á Aðalgötu 21 hafa fengið góðan bita af kökunni á meðan að öðrum umsækjendum er hafnað.

Sagan

Aðkoma sveitarfélagsins að Sýndarveruleika minnir óneitanlega á aðkomu þess að Mótun ehf, plastbáta fyrirtækið sem aldrei smíðaði bát. Sveitarfélagið lagði tæplega 10 milljóna króna hlutafé í Mótun á árunum 2013 – 2014. VG og óháð lögðust gegn aukningu hlutafjár árið 2014 sem meirihluti þó veitti. Árið 2017, þegar enginn bátur hafði enn litið dagsljósið, lánaði sveitarfélagið Mótun ehf. 23 milljónir króna til að greiða niður skuldir. Fyrirtækið var einkahlutafélag, eðlilegur farvegur hefði verið gjaldþrot en þá hefði sveitarfélagið einungis tapað hlutafénu sínu. Sveitarfélagið kaus samt sem áður að bæta í eigið tap með láni á þessum 23 milljónum. Það lán samþykktu VG og Óháð ekki. Á síðastliðnum vetri voru svo þessar 23 milljónir króna afskrifaðar og er því heildartap sveitarfélagsins vegna aðkomu sinnar að Mótun ehf. 32,8 milljónir króna. Sjá nánar HÉR.

Í þessu samhengi má einnig nefna aðkomu sveitarfélagsins að lífeldsneytisstöð sem reist var fyrir kosningar 2014 með tilheyrandi kostnaði. Sú stöð er hvergi sjáanleg í dag.

Hlutverk sveitarfélaga

En hvert er ég að fara með þessum söguskýringum? Jú, að benda á hlutverk sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa gríðarlega mörg lögbundin verkefni sem þeim ber að sinna. Þau verkefni eiga ekki að vera einskorðuð við ákveðin póstnúmer eða þéttbýliskjarna, þeim á að sinna vel í sveitarfélaginu öllu. Okkar góða sveitarfélag er landfræðilega stórt og því mögulega bæði flóknara og kostnaðarsamara að sinna ákveðnum verkefnum. Það breytir því ekki að verkefnin eru lögbundin og íbúar eiga sinn skýlausa rétt óháð búsetu. Í þessu sveitarfélagi eru brotin lög á íbúum með því að sinna einungis hluta lögbundinna verkefna eða einskorða þau við ákveðna búsetu og kostnaður notaður sem afsökun á skorti á þjónustu. Þannig er eyririnn sparaður á meðan krónunum er kastað t.d. í Sýndarveruleika ehf, Mótun ehf bátasmíði og lífeldsneytisstöð. Það er algjörlega óásættanleg stjórnsýsla því þátttaka í slíku heftir bæði sveitarfélagið í rekstri og framkvæmdagetu.

Slíkri stjórnun verður seint breytt nema með opinni stjórnsýslu, gagnsæi, opnu bókhaldi, ábyrgum rekstri, íbúalýðræði, heiðarleika og vönduðum vinnubrögðum.

Álfhildur Leifsdóttir, skipar 1. sæti á lista VG og Óháðra í Skagafirði

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search