Aldrei vera hortugur við þá sem litlir eru fyrir sér og aldrei hrekkja nokkurt dýr. Þetta setti Halldór Laxness okkur fyrir í gegnum persónur sínar í Sjálfstæðu fólki. Um lengri tíma var seinni lexían sú sem finna mátti í íslenskri löggjöf um dýravernd. Síðan þá hefur aukin þekking og þrýstingur almennings knúið fram breytingar á dýravelferðarlöggjöf þar sem nú er tíundað með hvaða hætti við tryggjum að dýr séu ekki hrekkt.
Líf sem er þess virði að lifa
Í dag eru markmið laganna um dýravelferð frelsin fimm. Að dýr séu, eins og kostur er, laus við hungur og þorsta, óþægindi, sjúkdóma og sársauka, laus við ótta og neyð og hafi frelsi til að sýna náttúrulega hegðun. Fyrir tæpum tíu árum mælti ég, sem umhverfisráðherra, fyrir umbótalögum á sviði dýravelferðar þar sem tekið var á þessum frelsisþáttum. Með þessum umbótum vildum við sem samfélag tryggja að líf dýra, hvort sem það er búfé, villt dýr eða gæludýr, sem sjá okkur fyrir mat og klæðum, afþreyingu og félagsskap, sé þess virði að því sé lifað.
Í kjölfar þessara lagabreytinga hafa orðið miklar framfarir í dýravelferðarmálum. Við gerum í dag ríkar kröfur til bænda um að aðbúnaður og umönnun búfjár sé með þeim hætti að þessi skilyrði séu uppfyllt. Til þess að ná þessum markmiðum hefur verið farið markvisst yfir aðbúnaðarreglugerðir síðustu ár. Eftirlit hefur aukist og það orðið áhættumiðað, þannig að starfsemi sem er sérstaklega áhættusöm er heimsótt tíðar en önnur. Þetta hefur skilað árangri og mun gera það áfram á næstu árum þegar tímafrestir til aðlögunar renna út.
Þá er tryggt að við aflífun í sláturhúsum sé komið í veg fyrir sársauka og ótta. Forsenda þess að aflífun sé sæmandi er að við komum fram við dýr af mannúð. Því hversu vel sem dýrin, villt eða alin, hafa lifað á ævinni þá skipta síðustu mínúturnar í lífi þeirra máli. Það skiptir máli við lífslok að hafa lifað lífi sem var einhvers virði.
Dýravelferðarmál eru á réttri leið
Við vitum mikið um búfé, um hvernig hægt er að gera aðbúnað í gripahúsum sem bestan og hvernig hægt er að aflífa það á sem mannúðlegastan hátt. Við vitum hins vegar ekki nóg um aflífun villtra dýra. Villt dýr eiga skilið sömu mannúð við aflífun og búfé. Enda gilda lög um dýravelferð um öll dýr. Eðlilegt er því að gera sambærilegar kröfur um aflífun villtra dýra í atvinnuskyni og gerðar eru um aflífun búfjár í atvinnuskyni.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.