Search
Close this search box.

Að hrekkja aldrei nokkurt dýr

Deildu 

Aldrei vera hort­ug­ur við þá sem litl­ir eru fyr­ir sér og aldrei hrekkja nokk­urt dýr. Þetta setti Hall­dór Lax­ness okk­ur fyr­ir í gegn­um per­són­ur sín­ar í Sjálf­stæðu fólki. Um lengri tíma var seinni lexí­an sú sem finna mátti í ís­lenskri lög­gjöf um dýra­vernd. Síðan þá hef­ur auk­in þekk­ing og þrýst­ing­ur al­menn­ings knúið fram breyt­ing­ar á dýra­vel­ferðarlög­gjöf þar sem nú er tí­undað með hvaða hætti við tryggj­um að dýr séu ekki hrekkt.

Líf sem er þess virði að lifa

Í dag eru mark­mið lag­anna um dýra­vel­ferð frels­in fimm. Að dýr séu, eins og kost­ur er, laus við hung­ur og þorsta, óþæg­indi, sjúk­dóma og sárs­auka, laus við ótta og neyð og hafi frelsi til að sýna nátt­úru­lega hegðun. Fyr­ir tæp­um tíu árum mælti ég, sem um­hverf­is­ráðherra, fyr­ir um­bóta­lög­um á sviði dýra­vel­ferðar þar sem tekið var á þess­um frels­isþátt­um. Með þess­um um­bót­um vild­um við sem sam­fé­lag tryggja að líf dýra, hvort sem það er búfé, villt dýr eða gælu­dýr, sem sjá okk­ur fyr­ir mat og klæðum, afþrey­ingu og fé­lags­skap, sé þess virði að því sé lifað.

Í kjöl­far þess­ara laga­breyt­inga hafa orðið mikl­ar fram­far­ir í dýra­vel­ferðar­mál­um. Við ger­um í dag rík­ar kröf­ur til bænda um að aðbúnaður og umönn­un búfjár sé með þeim hætti að þessi skil­yrði séu upp­fyllt. Til þess að ná þess­um mark­miðum hef­ur verið farið mark­visst yfir aðbúnaðarreglu­gerðir síðustu ár. Eft­ir­lit hef­ur auk­ist og það orðið áhættumiðað, þannig að starf­semi sem er sér­stak­lega áhættu­söm er heim­sótt tíðar en önn­ur. Þetta hef­ur skilað ár­angri og mun gera það áfram á næstu árum þegar tíma­frest­ir til aðlög­un­ar renna út.

Þá er tryggt að við af­líf­un í slát­ur­hús­um sé komið í veg fyr­ir sárs­auka og ótta. For­senda þess að af­líf­un sé sæm­andi er að við kom­um fram við dýr af mannúð. Því hversu vel sem dýr­in, villt eða alin, hafa lifað á æv­inni þá skipta síðustu mín­út­urn­ar í lífi þeirra máli. Það skipt­ir máli við lífs­lok að hafa lifað lífi sem var ein­hvers virði.

Dýra­vel­ferðar­mál eru á réttri leið

Við vit­um mikið um búfé, um hvernig hægt er að gera aðbúnað í gripa­hús­um sem best­an og hvernig hægt er að af­lífa það á sem mannúðleg­ast­an hátt. Við vit­um hins veg­ar ekki nóg um af­líf­un villtra dýra. Villt dýr eiga skilið sömu mannúð við af­líf­un og búfé. Enda gilda lög um dýra­vel­ferð um öll dýr. Eðli­legt er því að gera sam­bæri­leg­ar kröf­ur um af­líf­un villtra dýra í at­vinnu­skyni og gerðar eru um af­líf­un búfjár í at­vinnu­skyni.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search