PO
EN
Search
Close this search box.

Alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi

Deildu 

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar einnig upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem félagasamtök hér á landi og um allan heim taka þátt í. Byggingar víða um land, þar á meðal Stjórnarráðið, eru lýstar upp í björtum appelsínugulum lit átaksins, tákn vonarinnar og bjartrar framtíðar stúlkna og kvenna án ofbeldis.Við eigum enn langt í land með að uppræta kynbundið ofbeldi, bæði hér á landi, landi sem mælist efst á alþjóðlegum listum sem mæla jafnrétti, og um allan heim. Við höfum víða séð bakslag í jafnréttismálum á undanförnum árum og að auki hefur heimsfaraldur COVID-19 orðið til þess að heimilisofbeldi hefur aukist. Því er mikilvægt að við gefum enn betur í og tökum öll þátt í að uppræta þá meinsemd sem kynbundið ofbeldi er.

Ég bind miklar vonir við þá þingsályktunartillögu um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021 – 2025, sem Alþingi samþykkti í fyrra og er nú þegar komin í gagnið. Við upprætum ekki ofbeldi án fræðslu og sú fræðsla skal ávallt miðuð að því að börn og ungmenni skilji eðli og afleiðingar ofbeldisins.

Í tilefni dagsins langar mig til að þakka þeim hugrökku baráttukonum sem ruddu brautina hér á árum áður með því að tala um kynbundið ofbeldi og styðja við þolendur þegar enginn annar gerði það. Mig langar einnig að þakka þeim sem hafa stigið fram af miklum styrk og hugrekki á síðustu misserum og opnað sig um eigin reynslu, hvort sem hún er ný eða margra ára eða áratuga gömul. Þannig og aðeins þannig náum við takmarkinu sem er að útrýma kynbundnu ofbeldi með öllu. Með því að opna umræðuna og styðja við þolendur breytum við samfélaginu okkar til hins betra, og vonandi kemur svo að því að við fáum búið í samfélagi án kynbundins ofbeldi.

Katrín Jakobsdóttir, 25. nóvember 2021.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search