Search
Close this search box.

Aukin grænmetisræktun á Íslandi

Deildu 

Nú styttist óðum í að nýtt ráðuneyti matvæla verðir stofnað á grunni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þetta raungerist um næstu mánaðarmót. Í nýju ráðuneyti felast mýmörg tækifæri til að sækja fram og hlakka ég til að takast á við þau verkefni í góðu samstarfi við fagaðila. Eitt af þeim stóru verkefnum sem bíða er stefnumörkun vegna síðari endurskoðunar búvörusamninga sem er á dagskrá árið 2023. Þar skiptir máli að gefa grænmetisrækt á Íslandi aukið vægi.

Stuðningur við útiræktun

Síðustu ár hefur áhugi á innlendu grænmeti aukist mjög á Íslandi. Ástæðan er sú að neytendur vilja gæðavöru úr sínu nærumhverfi þegar það er hægt. Stór liður í því að efla innlenda framleiðslu almennt er að styðja sérstaklega við grænmetisræktun. Í stjórnarsáttmála er kveðið á um að aukinni framleiðslu á grænmeti verði náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar og sérstökum stuðningi við útiræktun í gegnum búvörusamninga. Þetta verða því þær áherslur ég legg upp með í þessari vinnu.

Heilnæmi skiptir máli

Aukin grænmetisrækt á Íslandi rennir stoðum undir fæðuöryggi því í mörgum tegundum grænmetis er hlutur innlendrar framleiðslu lítil borið saman við hlut þeirrar innfluttu. Öflug innlend grænmetisrækt stuðlar að auknu matvælaöryggi vegna lítillar notkunar varnarefna, enda er innlend garðyrkja laus við margar þær óværur sem herja á hlýrri lönd. Ef rétt er haldið á spilunum gætum við til viðbótar við aukna hlutdeild í neyslu á grænmeti hér innanlands í auknum mæli horft fram á útflutning þessarar vöru því eftirspurn eftir heilnæmum vörum með lágt kolefnisspor í heiminum fer vaxandi. Við búum vel að auðlindum og endurnýjanlegum orkugjöfum á meðan matvælaframleiðsla er víða um heim knúin áfram af kolum, olíu og gasi. Þetta skiptir neytendur sífellt meira máli enda aukast kröfur þeirra til upplýsinga um uppruna og kolefnisspor matvæla um leið og þekking á áhrifaþáttum loftslagsbreytinga eykst. 

Í þágu loftslags

Aukin matvælaframleiðsla á Íslandi skiptir líka miklu máli fyrir okkur þegar kemur að því að ná markmiðum okkar gagnvart Parísarsamningnum. Landbúnaðurinn stefnir að því að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 eins og samfélagið allt. Þess vegna skiptir líka miklu máli hvernig við aukum framleiðsluna, drögum úr kolefnisspori og að við endurskoðun búvörusamninga sé lögð megináhersla á hagræna hvata í þágu loftslagsins með aukinni grænmetisrækt og auknum stuðningi við lífræna framleiðslu. Við eigum að gera áhugasömum það auðveldara að rækta landið með loftslagsvænum áherslum, okkur öllum til heilla, og ég mun ekki láta mitt eftir liggja í þessum efnum á kjörtímabilinu.

Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search