Search
Close this search box.

Ávarp forsætisráðherra á Austurvelli

Deildu 

Góðir landsmenn,

Það er erfitt að ímynda sér Austurvöll auðan og yfirgefinn á þjóðhátíðardegi en þannig voru torgin okkar, bæirnir og samkomustaðirnir um allt land fyrir örfáum vikum.

Ef til vill er þetta mikilvægasti 17. júní sem mörg okkar hafa lifað. Á þessum degi hugsum við og tölum um hvað það þýðir að vera Íslendingur. Í dag er sú tilfinning dýpri og sterkari að örlög okkar sem búum hér saman á þessari eyju séu samofin. Einnig að örlög og saga séu ekki aðeins það sem hendir heldur einnig orð okkar og athafnir sem móta sögu og örlög þjóðarinnar. 

Það er ekki sjálfgefið að við séum hér samankomin. Það kostaði fórnir, vinnu, einbeitingu og samstöðu. 

17. júní hefur verið haldinn hátíðlegur síðan árið 1907 þegar fólk safnaðist saman hér við alþingishúsið til að heiðra Jón Sigurðsson. Stúdentafélagið, Ungmennafélagið og Kvenfélagið gengust fyrir þessum hátíðabrigðum, sagði í Þjóðólfi. Einnig að alls hafi 60 íslenskir fánar verið dregnir að húni víðs vegar um bæ, en einnig danskir fánar og sérfánar. Eftir ræðuhöld og lúðrasveitarleik var gengið að leiði Jóns í Kirkjugarðinum við Suðurgötu og lagður blómsveigur á leiðið. Töldu menn að þar hefði verið einn mesti mannfjöldi sem saman hefði komið á Íslandi, nálægt 5000 manns en þá bjuggu um 80 þúsund á landinu.

Frá lýðveldisstofnun hefur þessi dagur verið þjóðhátíðardagur; dagurinn þar sem við fögnum lýðveldi, sjálfstæði og minnumst mannsins sem stóð fremstur í flokki jafningja í þeirri baráttu.

Jón Sigurðsson taldi þrennt brýnt til að Íslendingar gætu orðið fullvalda og sjálfstæð þjóð: sjálfstætt löggjafarvald og stjórnsýsla á Íslandi, verslunarfrelsi og skólastarf. Í ritgerð sinni Um skóla á Íslandi sagði hann: „Öll framför mannkynsins er byggð á því að halda við því, sem einu sinni er numið, og láta það gánga frá einum knérunni til annars; með því að ein kynslóð býr þannig undir fyrir aðra, verður því komið til leiðar, að mannkyninu fer alltaf fram, þegar á allt er litið, þó oft hafi verið farið afvega, og stundum sýnist það heldur reka en gánga.“

Jón rökstuddi þar að skólunum væri ætlað, hverjum á sínu sviði, að stuðla að framförum samfélagsins og mæta þörfum á hverri tíð og taldi Jón að engum fjármunum væri varið heppilegar en þeim sem keypt væri fyrir andleg og líkamleg framför sem mest mætti verða.

Við sem í dag minnumst Jóns og fögnum lýðveldinu getum þakkað fyrir þessa hugsjón. Sú harða barátta sem við höfum þurft að heyja undanfarna mánuði við skæða farsótt hefur einmitt heppnast vel vegna þeirra andlegu og líkamlegu framfara sem orðið hafa í íslensku samfélagi.

Meðal annars vegna öflugs menntakerfis og heilbrigðiskerfis, öflugra vísindamanna og rannsókna höfum við náð þeim árangri sem náðist í baráttunni gegn veirunni. Fjöldi þeirra sem hafa verið prófaðir hefur gert það að verkum að hið alþjóðlega vísindasamfélag hefur fylgst grannt með Íslandi, sú aðferðafræði að rekja, greina og nýta sóttkví og einangrun auk þess að við öll gættum hreinlætis, hefur sýnt sig vera árangursrík nálgun í baráttunni við skæðan vágest. Þær sóttvarnaráðstafanir sem við tókum öll þátt í voru ekki síst til að vernda þau sem síst máttu við að fá veiruna, aldraða og sjúka, auk allra þeirra sem þurftu að standa vaktina í framlínunni.

Og í þessari viku stigum við varfærið skref til að opna landamærin. Það var mat sérfræðinga að slíkt skref væri ráðlegt að stíga en um leið gerum við okkur fulla grein fyrir þeirri áhættu sem þeirri opnun fylgir. Stjórnvöld munu fylgjast grannt með hvernig til tekst og bregðast hratt við með afgerandi hætti, gerist þess þörf. Við verðum áfram að gæta ítrustu varfærni, enda geisar faraldurinn enn víða um heim og gæti blossað upp aftur hér. Við verðum að hafa augun áfram á boltanum. Okkur gekk vel en ef til vill var þetta aðeins fyrri hálfleikur.

En baráttan gekk vel – vegna þeirrar ákvörðunar að forgangsraða heilbrigðissjónarmiðum og mannslífum. Þeirrar ákvörðunar að fletja út kúrfuna eins og það er kallað, draga eins og unnt er úr álagi á heilbrigðiskerfið og hafa almannahagsmuni að leiðarljósi. Þegar leiðarljósið er skýrt er auðveldara að taka góðar ákvarðanir. Þegar ákvarðanir byggjast á rannsóknum og gögnum þá verða þær betri.

En eitt verkefni kallar á annað. Heimsfaraldurinn olli einu mesta áfalli í heila öld þar sem alvarlegt skarð er hoggið í útflutningstekjur. Þó má telja einstakt að tekist hefur að halda þjóðhagslegum stöðugleika þrátt fyrir þetta áfall, vextir eru lægri en nokkru sinni sem er eitt mikilvægasta lífskjaramál almennings. Þetta er ekki tilviljun. Með samstilltu átaki síðustu ár hafa stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnumarkaðarins náð miklum árangri á þessu sviði. Stóra verkefnið er að vinna bug á atvinnuleysinu – og tryggja að það verði ekki langvinnt með því að skapa störf og tryggja afkomu fólks.

Við þurfum að byggja upp til skemmri og lengri tíma, efla fjárfestingu og fjölga störfum og gleyma því ekki að við viljum kolefnishlutlaust samfélag, nýsköpunarsamfélag, þekkingarsamfélag. Þrátt fyrir alvarleg áföll eigum við nú að  horfa til framtíðar og byggja upp fjölbreyttara, grænna og tæknivæddara atvinnulíf. Þar mun almannavaldið hafa mikilvægu hlutverki að gegna enda er það svo að opinber fjárfesting í grunnrannsóknum og nýsköpun hefur skilað sér í mörgu af því sem nú telst sjálfsagt, eins og snjallsímum, rafbílum og líftæknilyfjum. Slík fjárfesting hefur skilað sér margfalt til baka í auknum verðmætum og framförum.


Góðir landsmenn

Lærdómurinn sem draga má af þessum skrýtna tíma í sögunni er ef til vill sá að hlusta á vísindin – ekki einungis í heimsfaraldri heldur líka andspænis öðrum stórum hættum. Nærtækt dæmi er loftslagsváin þar sem vísindin veita skýra leiðsögn. Okkar er að hlusta og framkvæma. Við erum tiltölulega nýfarin að bregðast við af krafti og nú þarf að halda því áfram og gefa í.

Annar lærdómur gæti verið að muna eftir verðmætunum sem við eigum í okkar sterku almannaþjónustu sem þarf að efla. Við höfum líka lært að meta að verðleikum hvað umhyggjan skiptir miklu. Kannski öllu máli. Við eigum að hugsa betur hvert um annað – ekki aðeins í heimsfaraldri heldur alla daga. Lífið verður betra þegar við sýnum hvert öðru umhyggju og ást.

Og enn einn lærdómur gæti verið að enginn hefur öll svörin. Þegar eitthvað gerist sem enginn hefur reynt áður – þá er það lærdómur fyrir hvert og eitt okkar, en líka tækifæri til að nota hugsunina, hlusta á ólík sjónarmið, staldra við, vega og meta hvert stefnir.

Góðir landsmenn.

Hátíðisdagar nýtast til að leggja til hliðar daglegt þras, endurmeta gildi okkar, minnast góðs og líta til framtíðar. Jón Sigurðsson hefði verið stoltur að sjá hvernig þessi sjálfstæða þjóð hefur staðið sig í hremmingum faraldursins. Hann hefði verið stoltur að sjá Ísland árið 2020. Frjálslynt lýðræðisríki, með öflugar mennta- og rannsóknastofnanir, sterka samfélagslega innviði, fjölbreyttan atvinnurekstur, framsækna frumkvöðla í ólíkum geirum og ekki síst samfélag þar sem fólk er í öndvegi. Samfélag sem reglulega vekur jákvæða athygli umheimsins. Fjölbreytt samfélag þar sem fólkið sem hingað flyst frá öðrum heimshornum hefur gert samfélagið fjölbreyttara og auðugra. En Jón hefði líka hvatt okkur til að halda áfram og gera betur, tryggja öllum jöfn tækifæri og þora að taka djarfar ákvarðanir.

Við styttu Jóns Sigurðssonar er líka gott til þess að hugsa að hann var maður sem barðist gegn kúgun í stað þess að vera fulltrúi kúgunarkerfis. Fáir mótmælendur hafa haft ríkari áhrif á sögu íslensks samfélags – þegar hann stóð upp og mótmælti dönsku yfirvaldi á Íslandi. Rétturinn til að mótmæla – rétturinn til að rísa upp gegn kerfisbundnu misrétti og ofbeldi – er mikilvægur.

Mótmæli almennings erlendis gegn gömlum og nýjum kúgunarkerfum ættu að vera okkur innblástur til að skoða okkur sjálf og eigin hug. Ég tek undir með þeim sem mótmæla misrétti og kúgun um heim allan, nú á undanförnum vikum rótgrónu kynþáttamisrétti. Líf þeirra sem hafa verið undirokuð skipta máli.

Saga Íslands er gjörólík sögu gamalla nýlenduvelda en samt er sitthvað í henni sem er ástæða til að taka til gagnrýninnar skoðunar, eins og fræðimenn hafa raunar gert. Gagnrýnin skoðun á sögu okkar veitir okkur betri viðspyrnu er við reynum að skilja samtíma okkar og þá framtíð sem við kjósum okkur. Þvi þarf ávallt að hafa gagnrýna hugsun að leiðarljósi í opinberri umræðu og muna að rökræðan getur leitt okkur nær sannleikanum og þar með bestu ákvörðunum fyrir almenning.

Óttumst ekki ágreining og rökræður, veitum hvert öðru svigrúm til ólíkra skoðana en munum að skoðanir geta byggst á misáreiðanlegum gögnum. Gagnrýnin hugsun studd vísindum og þekkingu er besta vörnin gegn þeirri hættu að lýðræðisleg umræða verði marklaus og traust á lýðræðislegri umræðu minnki. Þar bera stjórnmálin ríka ábyrgð.

Góðir landsmenn

Árið 1907 var Ísland enn ekki sjálfstætt en farið að glytta í sjálfstæðið. Á fyrstu 17. júní hátíðarhöldunum hélt Bjarni frá Vogi, mikill sjálfstæðissinni, ræðu hér og sagði: „Það sjáum vér enn á sögu forfeðra vorra að alt fór vel meðan landsmenn létu alþjóðar hag sitja í fyrirrúmi fyrir eigin hagsmunum sínum.“

Þó að þessi dagur sé um margt ólíkur sama degi árið 1907 þá er sumt líkt. Eins og þetta: Þegar leiðarljósin eru skýr getum við tekið  við góðar ákvarðanir. Þegar leiðarljósið er að tryggja alþjóðar hag munu ákvarðanir verða góðar fyrir samfélagið allt.


Góðir landsmenn. Til hamingju með daginn. Megi hann vera okkur öllum fagur og gjöfull.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search