rin milli 16 og 29 ára eru ein helstu mótunarár í lífi okkar flestra. Þetta eru árin sem við ákveðum hvað við viljum læra og hvernig við viljum hefja starfsferilinn. Bæði rannsóknir og reynslan hafa sýnt okkur að sá hópur sem hvorki er í vinnu, námi né í annarri skipulagðri þjálfun á þessum aldri er í hættu á að verða félagslega einangraður. Þá eru einstaklingar sem eru ekki í virkni einnig líklegri til að enda á örorku. Skýr úrræði þurfa að vera fyrir hendi fyrir þennan hóp.
Vegvísir er nýtt og mikilvægt úrræði sem ætlað er að bæta þjónustu við einstaklinga á aldrinum 16-29 ára í viðkvæmri stöðu sem eru ekki í námi, þjálfun eða starfi. Vegvísir er afurð vinnu fulltrúa frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, Tryggingastofnun, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnun og Virk – Starfsendurhæfingarsjóði. Vinnumálastofnun fer með skipulag og framkvæmd verkefnisins, sem er tilraunaverkefni til tveggja ára. Markmiðið með Vegvísi er að sporna gegn ótímabæru brotthvarfi ungs fólks af vinnumarkaði en því lengur sem einstaklingur er óvirkur og án atvinnu því meiri líkur eru á ótímabærri örorku. Þetta er því frábært verkefni og það er einstaklega gleðilegt að geta stutt við það með sérstökum styrk til Vinnumálastofnunar.
Vegvísir fellur vel að áherslum ríkisstjórnarinnar um að fjölga markvisst starfstækifærum einstaklinga með skerta starfsgetu. Lögð er áhersla á snemmtæka íhlutun og þverfaglega sýn, sem felst meðal annars í því að komið verður á formlegu samstarfi þjónustukerfa sem koma að þjónustu ungs fólks sem hefur takmarkaða eða enga virkni. Margvíslegur stuðningur og ráðgjöf verður þannig veitt á einum stað.
Eitt af stóru verkefnum okkar í stjórnmálunum á næstu árum er einmitt að gera ungu fólki kleift að afla sér þekkingar sem gagnast því á vinnumarkaði og hjálpa þeim sem hafa tapað eða misst niður virkni að komast aftur af stað.
Guðmundur Ingi Guðbrandson, félagsmálaráðherra.