Baráttan gegn loftslagshamförum virðist stundum ógnarflókið viðfangsefni. Flest markmiðin eru hins vegar ofureinföld, þótt leiðin að þeim kunni að vera vandrötuð. Þannig má t.d. slá því föstu að í framtíð þar sem tekist hefur að byggja upp loftslagsvænt samfélag verði aðeins notuð endurnýjanleg orka. Nú liggur fyrir að við náum ekki markmiðum Parísarsamkomulagsins nema halda 2/3 þekktra birgða af jarðefnaeldsneyti í heiminum áfram neðanjarðar við lok þessarar aldar. Jarðarbúar verða að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti.
Mótsagnakennd orkuskipti?
Þetta gæti reynst sumum erfitt, sérstaklega þeim sterku aðilum sem hafa fjárhagslega hagsmuni af vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis. Það þarf ekki að ganga svo langt að benda á loftslagsafneitarann sem heldur um stjórnartaumana í Bandaríkjunum og lítur á bráðnun norðurskautsins sem stórkostleg tækifæri til vinnslu auðlinda, heldur má líta til Norðmanna. Þar hafa stjórnvöld lengi haft metnaðarfull áform um orkuskipti í samgöngum og að ýmsu leyti verið til fyrirmyndar í áætlunum sínum til að ná loftslagsmarkmiðum. En á sama tíma er Noregur einn stærsti framleiðandi olíu og gass í heiminum – og núna í byrjun október hóf norska ríkisolíufélagið vinnslu á nýju svæði í Norðursjó sem mun auka framleiðslu Noregs um þriðjung!
Fyrir Alþingi liggur frumvarp mitt og sjö annarra þingmanna um frystingu olíuleitar við Ísland um fyrirsjáanlega framtíð – eða a.m.k. þar til fullnaðarsigur hefur unnist í loftslagsbaráttunni. Sumir myndu segja að slík lagasetning væri óþörf, þar sem engin áform væru lengur um leit og vinnslu á Drekasvæðinu, en dæmin af olíufíklunum í Bandaríkjunum og Noregi sýna að ekkert er sjálfsagt í þessum efnum.
Orkustofnun á villigötum
Í gær birtist í Morgunblaðinu enn eitt dæmi um mikilvægi þess að löggjafinn sýni með skýrum hætti að vinnsla jarðefnaeldsneytis sé arfur fortíðar. Þar var rætt við Guðna A. Jóhannesson orkumálastjóra í tilefni umsagnar Orkustofnunar um frumvarpið. Guðna þykir mikilvægt að umræðan verði ekki of „einhliða“ og telur ýmis álitamál uppi ef útiloka á olíuleit á Drekasvæðinu. Þessi loftslagsfjandsamlega afstaða innan úr stjórnsýslunni kemur verulega á óvart á sama tíma og ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á að sýna meiri metnað í loftslagsmálum en áður hefur sést.
Orkustofnun lítur svo á að Parísarsamkomulagið geri engar kröfur um að takmarka olíu- eða gasvinnslu. Það segir sig hins vegar sjálft að ef lagt er í gríðarlega fjárfestingu við leit og vinnslu mun allt verða gert til að koma olíunni á markað. Framboð er þannig beintengt eftirspurn – og rauði þráðurinn í Parísarsamkomulaginu er að breyta neyslu þannig að dragi úr eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti.
Þá bendir Orkustofnun á að besta leiðin til að draga úr útblæstri af völdum kolabruna sé að brenna olíu og gasi á „yfirgangstímabilinu í næstu framtíð“. Þessi rök heyrast víða um lönd, borin fram af olíufyrirtækjum, en halda ekki vatni. Frekar en að skipta innviðum fyrir kolabruna út fyrir olíuinnviði þarf að taka stökkið allt í einu – að hjálpa þeim ríkjum sem stóla á kolabruna við orkuframleiðslu að færa sig beint yfir í græna orku. Þarna hefði maður vonað að orkumálastjóri sæi þau gríðarlegu tækifæri sem skapast fyrir Ísland sem þekkingarmiðstöð í nýtingu vatnsorku og jarðvarma. Samhliða því að ná loftslagsmarkmiðum gæti Ísland flutt út verðmæta þekkingu til að hjálpa öðrum ríkjum.
Loftslagsvæn framtíð umfram gróðasjónarmið
Ákvörðun um frystingu olíuleitar við Ísland myndi senda skýr skilaboð og gera íslenskum stjórnvöldum kleift að tala kröftuglega gegn olíuleit á norðurskautssvæðinu. Það heitir ekki „sýndarmennska“ eins og Orkustofnun hefur áhyggjur af, heldur heitir það að vera samkvæm sjálfum sér. Sýndarmennska væri að stæra sig af metnaðarfullum loftslagsáherslum en auka sífellt við framboð á mengandi jarðefnaeldsneyti í heiminum, eins og Norðmenn gera því miður. Verði frumvarp mitt að lögum getur Ísland talað gegn skammtíma gróðasjónarmiðum en með loftslagsvænni framtíð í þágu þeirra sem á eftir okkur koma.