Search
Close this search box.

Bjarni Jónsson. Ræða á eldhúsdegi

Deildu 

Virðulegi forseti. Þið sem heima sitjið. Nú þegar sumarið er gengið í garð og fyrsti þingvetur nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar er að baki er eðlilegt að horfa til baka, en líka fram veginn. Ég vil ræða hér í dag öryggi, nokkuð sem snertir okkur öll en hefur sannarlega mismunandi birtingarmyndir eftir því hvar við búum. Í okkar friðsæla landi spyr öryggi fyrst og fremst að búsetu þar sem grunninnviðir eru í lykilhlutverki. Náttúruhamfarir og ofsaveður hafa á síðustu árum minnt okkur á að forgangsraða í samfélagslega innviði, þá sem lúta að þjóðaröryggi, raforku, samgöngum, fjarskiptum og öruggu aðgengi að heilbrigðisþjónustu til að tryggja grunnþjónustu og búsetuöryggi fyrir íbúa landsins óháð búsetu, svo sem sjúkraflug um Blönduósflugvöll, örugga læknisþjónustu í Grundarfirði og víðar.

Við þurfum áframhaldandi átak í samgöngubótum og meiri uppbyggingu á samgöngum innan byggðarlaga til að styrkja samfélögin sem búsetuheild, færa fólk nær hvert öðru, störfum sínum og þjónustu sem það sækir. Það er mikilvægt að efla byggðarlög með betri samgöngum innan þeirra en ekki síður á milli þeirra. Við verðum líka að ganga í stærri verkefni og setja í forgang, eins og Súðavíkurgöng sem skipta samfélagið þar öllu máli.

Það er styrkleiki í öryggi þjóðar að tryggja jafnt aðgengi að grunnþjónustu. Í því samhengi var aðgengi að læknisþjónustu stóreflt á síðasta kjörtímabili til handa öldruðum og öryrkjum með niðurfellingu komugjalda. Það er sömuleiðis lykillinn að því að festa búsetu í viðkvæmum byggðum og tryggja búsetuöryggi sem víðast. Það er mikilvægt að val fólks sem kýs að búa úti um land, í byggðarlaginu sem fóstraði það eða þar sem það vill búa sér og sínum líf, þurfi ekki að fórna því búsetuöryggi sem við öll eigum að njóta og að aðgengi að læknisþjónustu verði bætt. Hinar dreifðu byggðir gegna samfélagslega mikilvægu hlutverki fyrir þjóðina og fyrir atvinnu- og matvælaöryggi.

Liður í því að tryggja hag og stöðu smærri byggða er að styðja vel við grunnatvinnuvegina, sjávarbyggðirnar, landbúnað og matvælaframleiðslu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á ábyrga umgengni um auðlindir, gert fortakslausa kröfu um sjálfbæra nýtingu og bent á mikilvægi grunnrannsókna og sterkt fræðasamfélagi um land allt.

Ég vil þakka skjót viðbrögð matvælaráðherra vegna alvarlegrar stöðu bænda vegna stríðsreksturs Rússa í Úkraínu sem er til marks um stefnu hreyfingarinnar um að landbúnaður verði órjúfanlegur þáttur í sjálfbæru samfélagi á Íslandi og verðmætasköpun í hinum dreifðu byggðum, að við stöndum vörð um matvælaöryggi á okkar forsendum. Íslensk stjórnvöld settu sér á síðasta kjörtímabili metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að fylgja þeim eftir. Við höfum ásamt öðrum þjóðum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum en ekki síður um verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Þessi verkefni eru nátengd og samofin. Við verðum að tryggja að saman fari markvissar og árangursríkar aðgerðir í loftslagsmálum og verndun búsvæða líffræðilegs fjölbreytileika og náttúruvernd. Það er okkar hnattræna skylda að standa vörð um náttúru Íslands fyrir komandi kynslóðir, fyrir náttúruna sjálfa.

Virðulegi forseti. Við megum ekki missa niður það sem hefur áunnist með betri samskiptum og friði í álfunni síðustu áratugi og viðbrögðum við sameiginlegum áskorunum, eins og loftslagsvánni, eyðingu vistkerfa og aðgerðum til að vinna að loftslagsjafnrétti. Evrópa stendur nú á erfiðum tímamótum þar sem vegið er að grundvallargildum og stríð skekur álfuna. Það er lífsspursmál fyrir farsæla framtíð álfunnar að þjóðir hennar þjappi sér saman um stoðir lýðræðis, mannréttinda, friðar og öryggis fólks þar sem jafn réttur komandi kynslóða til mannsæmandi lífs og framtíðar er tryggður, þar sem sjálfsákvörðunarréttur þjóða er virtur og samskiptaúrlausnir markast af gagnkvæmri virðingu.

Kæru landsmenn. Að lokum vil ég þakka hv. þingmönnum fyrir góða þingfundi hér og óska þeim og öllum öðrum landsmönnum gleðilegs sumars. Góðar stundir.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search