PO
EN
Search
Close this search box.

Erindi til framtíðar og árangur hreyfingarinnar

Deildu 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, árið 2023, er haldinn í Hofi á Akureyri helgina 17. – 19. mars. Fundurinn er tækifæri fyrir félagsfólk til að skerpa áherslur og ræða stefnumál. VG hefur verið leiðandi í ríkisstjórn í rúmlega fimm ár, í samstarfi við flokka með ólíka sýn í mörgum málum.  Samstarfið hefur aðeins verið mögulegt vegna skilnings á raunveruleika íslenskra stjórnmála, þar sem málamiðlanir verða að skapa grundvöll ákvarðana. Þessi raunveruleiki endurspeglast í þeim stjórnarsáttmálum sem flokksráð VG hefur samþykkt og veitir forystu flokksins umboð til þess að koma stefnumálum okkar til framkvæmdar. Í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hafa ráðherrar og þingflokkur nýtt tækifærin til raunverulegra umbóta í mörgum málaflokkum. 

Félagslegt réttlæti og heilbrigði

Undirstaða öflugs efnahagslífs er blandað hagkerfi þar sem hinir efnamestu eru skattlagðir umfram hina tekjulægri en sú stefna skilar mestri hagsæld, jöfnuði og réttlæti. Í stjórnartíð VG hefur fæðingarorlof verið lengt úr níu mánuðum í tólf með skýrum reglum um skiptingu milli foreldra, stytting vinnuvikunnar verið innleidd og komist til framkvæmdar víða, dregið úr skerðingum á greiðslum til öryrkja og frítekjumark tvöfaldað vegna atvinnutekna, barnabætur verið hækkaðar og kerfinu breytt svo fleiri fjölskyldur fái barnabætur, húsnæðisstuðningur hefur verið hækkaður um fjórung, ný lög um kynrænt sjálfræði tekið gildi og fyrsta aðgerðaráætlunin í málefnum hinsegin fólks samþykkt. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga verið lækkuð verulega, og aukið fjármagn lagt til geðheilbrigðismála. Þá er bygging nýs Landsspítala hornsteinn í þeirri sýn sem mörkuð hefur verið í heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Umhverfisvernd

Í fyrsta skipti hefur komið fram fullfjármögnuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og Ísland lögfest markmið um kolefnishlutleysi, eitt fárra ríkja heims. Stefna hefur verið mörkuð um aðlögun íslensk samfélags að loftslagsbreytingum og aldrei hafa fleiri náttúruminjar verið friðlýstar. Svo má nefna stórt framfaraskref í úrgangsmálum, en um síðustu áramót tók í gildi ný úrgangslöggjöf sem samræmir og skyldar flokkun til sorps. Þetta eru allt stór skref í innleiðingu hringrásarhagkerfisins ásamt því til dæmis að banna markaðssetningu á óþarfa plasti. 

Kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna

Markmið nýrra jafnréttislaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skapa skýrari stefnu í baráttunni um að ná fram og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum. Með nýjum lögum um þungunarrof er sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi virt. Það var ekki fyrr en VG tók við verkstjórn sem að næstum hálfrar aldar barátta skilaði sér í nýrri löggjöf. Með breytingum á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga er stuðlað að aukinni tiltrú þolenda á réttarkerfinu. Frá árinu 2018 hefur Ísland í fyrsta skipti verið fullur aðili að Istanbúl-samningnum og ýmislegt verið gert á liðnum árum til að vinna að markmiðum samningsins. Miklu munar um fjármögnun verkefna í framkvæmdaáætlunum til að vinna gegn ofbeldi og breytingar á almennum hegningarlögum sem varða kynferðislega friðhelgi sem samþykkt voru á Alþingi.

Alþjóðleg friðarhyggja

Á umrótartímum í sögu Evrópu hefur Katrín Jakobsdóttir talað fyrir friði, umhverfismálum og jafnrétti, í hvívetna. Ísland hefur ekki áður átt forsætisráðherra sem nýtur jafn mikillar virðingar í alþjóðasamfélaginu. Því til vitnis mun fjórði leiðtogafundur í sögu Evrópuráðsins fara fram á Íslandi í maí. Evrópuráðið stendur vörð um grunngildi samfélaga; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Innrásin í Úkraínu, heimsfaraldur og efnahagsþrengingar reyna á þessi gildi. Áríðandi er að skerpa samstöðu um þessi grunngildi og eftirtektarvert að Íslandi hefur verið treyst til þess að leiða það samtal í samstarfi við þjóðir Evrópu.

VG á erindi til framtíðar

Eftir síðustu kosningar tóku Svandís Svavarsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson við nýjum ráðuneytum. Svandís hefur friðlýst svæði í hafi með verndun líffræðilegs fjölbreytileika að leiðarljósi og nú er nýútkomin skýrsla um eflingu kornræktar á Íslandi. Tækifærin til að ná alþjóðlegum skuldbindingum í umhverfis- og loftslagsmálum liggja í matvælaráðuneytinu. Í Félags- og vinnumarkaðsmálaráðuneyti Guðmundar Inga verður nýju og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES komið á, heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu stendur yfir og ráðherra vinnur að bættri þjónustu við flóttafólk. Hér er aðeins stiklað á stóru.

Stjórnmál hreyfingarinnar skila sér í verkum ráðherra okkar og stærsta þingflokki félagshyggjufólks á Alþingi. Stjórnmál hreyfingarinnar endurspegla grunnstoðir hreyfingarinnar og eru ástæða þess að ég  kýs að starfa fyrir VG. Það er vegna dugnaðar fólksins sem myndar hreyfinguna sem ég býð mig fram til ritara Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á landsfundi 2023.

Höfundur er í framboði til ritara stjórnar og bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á Akureyri.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search