Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skoðaði í dag framkvæmdasvæði nýs Landspítala við Hringbraut þar sem standa yfir jarðvegsframkvæmdir og gatnagerð vegna nýja meðferðarkjarnans.
Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins. Aðrar byggingar eru, rannsóknahús, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús og nýtt sjúkrahótel sem tekið var í notkun í maí síðastliðnum. Þá er hafin þarfagreining á nýju dag -og göngudeildarhúsi fyrir starfsemi Landspítala.
„Það er stórkostlegt að sjá langþráðan draum okkar landsmanna um uppbyggingu Landspítala vera að rætast. Framkvæmdir hér tala sínu máli og færa okkur sífellt nær markmiði okkar sem er að taka nýjan meðferðarkjarna í notkun árið 2025. Þetta er risavaxið verkefni í margvíslegum skilningi sem mun þegar allt er tilbúið valda straumhvörfum í þjónustu við sjúklinga og stórefla alla starfsemi þjóðarsjúkrahússins okkar“ sagði Svandís Svavarsdóttir þegar hún kynnti sér framkvæmdasvæðið við Hringbraut í dag.
Stefnt er að því að ljúka jarðvegsframkvæmdum á næsta ári og hefja uppsteypu meðferðarkjarnans næsta vor, eins og fram kemur í meðfylgjandi fréttatilkynningu frá Nýjum Landspítala (NLSH) um Hringbrautarverkefnið.