PO
EN
Search
Close this search box.

Frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum lagt fyrir Alþingi á næstunni

Deildu 

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að skýra ákvæði laga um opinberar sóttvarnaráðstafanir í ljósi fenginnar reynslu af COVID-19 heimsfaraldrinum hefur lokið störfum og skilað ráðherra drögum að frumvarpi til breytinga á lögum um sóttvarnir. Heilbrigðisráðherra kynnti frumvarpið fyrir ríkisstjórn í liðinni viku og leggur það fyrir Alþingi á næstunni.

Við endurskoðunina var sérstaklega horft til álitsgerðar Páls Hreinssonar sem hann vann að beiðni stjórnvalda og fjallar um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana í ljósi meginreglna stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæða. Í samræmi við skipunarbréf fjallaði starfshópurinn fyrst og fremst um endurskoðun á IV. kafla laganna sem snýr að opinberum sóttvarnaráðstöfunum og tengdum ákvæðum, enda talið brýnt í ljósi reynslu af COVID-19 faraldrinum að skýra sem fyrst ýmis ákvæði hvað það varðar.

Helstu breytingar á sóttvarnalögum sem starfshópurinn leggur til eru;

  • orðskýringar með helstu hugtökum s.s. samkomubanni, sóttkví og einangrun,
  • svæðisskipting sóttvarna skýrð og kveðið á um umdæmislækna sóttvarna,
  • skýrt kveðið á um að sóttvarnaráð skuli vera ráðgefandi við stefnumótun og að hlutverk þess skarist ekki við hlutverk sóttvarnalæknis,
  • skýrt kveðið á um að sóttkví, stöðvun atvinnurekstrar og útgöngubann séu hluti af opinberum sóttvarnaráðstöfunum,
  • ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar um sóttvarnaráðstafanir gagnvart ferðamönnum leidd í lög og gjaldtökuheimildir vegna ráðstafana gagnvart ferðamönnum færðar til samræmis við ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar,
  • málsmeðferð ákvarðana um að setja fólk í sóttkví eða einangrun skýrð,
  • kveðið á um meðferð máls fyrir dómi ef einstaklingi er gert að sæta einangrun eða sóttkví gegn vilja sínum,
  • skýrar kveðið á um skyldur einstaklinga sem lækni grunar að sé haldinn smitsjúkdómi

Þörf á að endurskoða stjórnsýslu sóttvarnamála

Endurskoðun ákvæða um stjórnsýslu sóttvarnamála voru ekki á verksviði starfshópsins en að mati hans er tilefni til slíkrar endurskoðunar, líkt og nánar er skýrt í meðfylgjandi skilabréfi starfshópsins. Er þar einkum vísað til þess að sóttvarnalæknir er starfsmaður embættis landlæknis og ekki skipaður af ráðherra þrátt fyrir þær umfangsmiklu valdheimildir sem sóttvarnalæknir hefur og samband hans og ráðherra samkvæmt gildandi sóttvarnalögum. Þá bendir hópurinn á að lítið sem ekkert sé fjallað um hlutverk helstu heilbrigðisstofnana landsins í farsóttum, svo sem Landspítala. Starfshópurinn telur því tilefni til að endurskoða stjórnsýslu sóttvarna, eftir atvikum í tengslum við heildarendurskoðun sóttvarnalaga þegar sér fyrir endann á heimsfaraldrinum sem nú gengur yfir.

Formaður starfshópsins var Sigurður Kári Árnason. Aðrir í hópnum voru Dagrún Hálfdánardóttir, tilnefnd af embætti landlæknis, Inga Þórey Óskarsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu, Haraldur Briem, tilnefndur af sóttvarnalækni, Ólafur Baldursson, tilnefndur af Landspítala, Sigríður Dóra Magnúsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Víðir Reynisson, tilnefndur af embætti ríkislögreglustjóra. Starfsmaður hópsins var Rögnvaldur G. Gunnarsson.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search