Search
Close this search box.

Hafrannsóknir og kalkúnn

Deildu 

Rit­höf­und­ur­inn Nassim Taleb skrifaði í einni bók sinni um kalk­ún á kalk­úna­búi. Frá sjón­ar­hóli kalk­úns­ins er líf hans í góðum mál­um, hann fær að borða á hverj­um degi, stækk­ar og verður öfl­ugri. Ekk­ert bend­ir til þess að hann sé í háska. Vin­gjarn­legt mann­fólk fóðrar hann og hugs­ar um vel­ferð hans. Þannig geng­ur það, þar til á miðviku­deg­in­um fyr­ir þakk­ar­gjörðar­hátíð. Þá breyt­ist sitt­hvað og hann þarf að end­ur­skoða gild­is­mat sitt. En það er of seint og hann er ét­inn.

Taleb notaði þessa lík­ingu til þess að sýna fram á að skír­skot­un til sög­unn­ar hef­ur lítið spá­gildi ef við tök­um ekki til­lit til allra breytna. Hefði kalk­únn­inn þekkt all­ar breyt­urn­ar sem skipta máli, hefði hann kannski lagt annað mat á framtíðar­horf­ur sín­ar. Þess vegna beit­um við aðferð vís­ind­anna, til þess að vera ekki eins og þessi kalk­únn. Það get­ur verið erfitt að samþykkja vís­inda­lega ráðgjöf, sér­stak­lega þegar hún hent­ar okk­ur ekki eða hún fer gegn okk­ar sann­fær­ingu. Ára­tug­ir liðu frá því að fyrsta svarta skýrsl­an um ástand nytja­stofna á Íslands­miðum birt­ist, árið 1975, þar til farið væri að mestu eft­ir vís­inda­legri ráðgjöf. Í skýrsl­unni voru spil­in lögð á borðið, Íslend­ing­ar þyrftu að minnka sókn­ina eða stofn­inn myndi að end­ingu hrynja. Þetta reynd­ist erfitt, eins og gef­ur að skilja, þar sem mikl­ir hags­mun­ir voru að veði og eng­in stjórn­tæki fyr­ir hendi.

Í dag er þessi staða breytt. Farið hef­ur verið eft­ir ráðgjöf um tals­verða hríð, þó það hafi kostað mikl­ar fórn­ir. Vanda­samt verk er að telja fisk­ana í sjón­um en ár­ang­ur­inn hef­ur verið mik­ill. Stofn­mat þorsks­ins lít­ur vel út. Sam­kvæmt sam­töl­um mín­um við sjó­menn og út­gerðar­menn, er þeirra upp­lif­un sú að auðveld­ara sé að veiða þorskinn en var í þá daga sem við of­veidd­um stofn­inn. Við veiðum lægra hlut­fall af stofn­in­um en við gerðum. Auðveld­ara er að ná í fisk­inn og hann er stærri. Sá sam­drátt­ur sem varð á ráðgjöf Hafró fyr­ir síðasta fisk­veiðiár, byggðist á því að aðferðafræði stofn­mats­ins var breytt í því skyni að taka til­lit til þess að meira er nú af eldri og stærri þorski en áður. Vegna þess að sveiflu­jöfn­un er beitt í afla­regl­unni, kem­ur nú aft­ur skerðing sem leiðir af þessu breytta stofn­mati.

Haf­rann­sókn­ir eru kerf­is­lega mik­il­væg­ar fyr­ir Ísland. Á auðlind­um hafs­ins byggj­um við drjúg­an hluta af út­flutn­ings­tekj­um þjóðar­inn­ar og þúsund­ir fjöl­skyldna eiga lífsviður­værið und­ir. Haf­rann­sókn­ir eru besta mögu­lega aðferðin sem við höf­um til þess að meta nytja­stofna. Þær eru þannig besta stjórn­tækið sem við höf­um þegar gefa á út heild­arafla fyr­ir hvert fisk­veiðiár. Ég mun byggja ákv­arðanir mín­ar á vís­inda­legri ráðgjöf, hér eft­ir sem hingað til.

Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search