Search
Close this search box.

Heita kartaflan í norðrinu

Deildu 

Ekki þarf að tíunda mikilvægi norðurslóða í heimsmálunum. Ríkin átta hafa náð árangri með samvinnu í Norðurskautsráðinu. Ég nefni þar samning um leit og björgun og um fiskveiðar. Svo má minna á alþjóðlegan samning Alþjóðasiglingastofnunarinnar IMO sem heitir Polar Code og gildir á norðurslóðum, þ.e. allskýrar hegðunarreglur í sæferðum, nothæfur Heimskautasjávarkóði. Tilvist hans minnir á sérvanda í norðurskautsmálum sem er varnar- og öryggismál. Þau eru ekki rædd á vettvangi Norðurskautsráðsins, með samkomulagi allra, og heldur ekki á vettvangi Þingmannaráðstefnu norðurslóða, CPAR. Almenn stefna er að halda lágspennu við á norðurslóðum og Ísland hefur þar sömu áherslur, m.a. í endurskoðaðri norðurslóðastefnu. Staðan minnir á að nú vantar umræður og vinnu frammi fyrir aukinni spennu á norðurslóðum og auknum hernaðarumsvifum þar. Fram til 2014 tóku Rússar þátt í umræðuvettvangi herja norðurslóðalandanna, en eftir Krím-málið var þeim vikið þaðan.

Nú skilar Ísland formennsku í Norðurskautsráðinu til Rússlands og hún gengur síðan til næstu ríkja í röðinni, með tveggja ára bili. Ég tel að við eigum að leggja til upphafsskref í átt að heimskautaöryggismálakóða í anda siglingakóðans. Það gerum við þegar á þessu yfirstandandi ári, tel ég, og næstu árum þar á eftir. Nýtum til þess Hringborð norðurslóða, nýleg og vaxandi samtök þingmanna fyrir friði (Parliamentarians for Peace), stofnanir eins og Open Diplomacy í Evrópu, Wilson-stofnunina í Washington, og, ekki hvað síst, samstarfsvettvang landhelgisgæsla norðurslóðaríkjanna (Arctic Coast Guard Forum) og auðvitað Sameinuðu þjóðirnar. Kóðinn segði til um umgengnisreglur og samskiptareglur öryggis- og varnaraðila á norðurslóðum og legði til reglur um ábyrga hegðun með því markmiði að halda við lágspennu og koma í veg fyrir mistök sem geta leitt til árekstra. Við höfum hér forystuverkefni að vinna.

Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search