Search
Close this search box.

Í dag varð heimurinn öruggari

Steinunn Þóra

Deildu 

Friðarsinnar um allan heim hafa ástæðu til að fagna í dag, 22. janúar, þegar nýr afvopnunarsáttmáli tekur gildi í heiminum. Sáttmálinn um bann við kjarnorkuvopnum er metnaðarfyllsta tilraun alþjóðasamfélagsins til að útrýma þessum skelfilegu vopnum sem allt of lengi hafa verið ógn við tilvist og framtíð jarðarbúa.

Tildrög sáttmálans eru þau að hópur ríkja sem ekki hefur yfir kjarnorkuvopnum að ráða misstu endanlega þolinmæðina að bíða eftir því að kjarnorkuveldin stæðu við skuldbindingar sínar um að vinna að kjarnorkuafvopnun. Á ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna á árunum 2016 og 2017 var búið til samkomulag sem 86 ríki hafa nú undirritað. Að auki hefur 51 ríki staðfest samninginn á þjóðþingum sínum og í samræmi við reglur Sameinuðu þjóðanna telst hann því fullgildur alþjóðasáttmáli á hundraðasta degi frá fimmtugustu staðfestingunni. Það er í dag.

Ljóst er að á næstu mánuðum og misserum munu enn fleiri ríki bætast í hópinn, sem gefur góða von um að samningurinn muni með tímanum stuðla að útrýmingu kjarnavopna. Fyrirmyndirnar eru fyrir hendi. Alþjóðasáttmálar á borð við þá sem banna jarðsprengjur, klasasprengjur og efnavopn voru allir í fyrstu bornir fram af löndum sem ekki áttu slík vopn en í óþökk hinna, sem urðu þó að lokum að beygja sig fyrir áliti heimsbyggðarinnar.

Það skyggir á gleði friðarsinna hér á landi á þessum tímamótum að íslensk stjórnvöld hafa ekki undirritað samninginn. Raunar hefur Ísland tekið sama pól í hæðina og önnur Nató-ríki sem hafa neitað að koma að undirbúningsvinnunni og raunar reynt að leggja stein í götu sáttmálans á ýmsan hátt.

Vonandi verður þess ekki langt að bíða að Ísland þori að taka sjálfstæða ákvörðun í þessu mikilvæga máli og skipi sér í hóp þeirra ríkja sem vinna að kjarnorkuafvopnun og öruggari framtíð.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search