Jafnrétti í breyttum heimi.

Deildu 

Share on facebook
Share on twitter

Nú þegar fimm ár eru liðin frá því að ríki heims komu sér saman um sautján heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun hefur komið í ljós að markmiðið um kynjajafnrétti er það markmið sem lengst er í land með. Ekkert land í heiminum hefur náð að afnema að fullu mismunun og ofbeldi sem konur og stúlkur verða fyrir vegna kyns síns. Jafnréttisþing 2020, sem fram fer í Hörpu á morgun, er helgað heimsmarkmiðunum og jafnrétti í breyttum heimi. Kröftugir fyrirlesarar og listafólk hefur verið kallað til leiks til að taka þátt í þessari umræðu.

Sérstaklega verður litið til samspils umhverfismála og jafnréttismála en það verður sífellt ljósara að loftslagsváin er kynjuð, þar sem afleiðingarnar koma í meiri mæli niður á konum sem eru jafnframt ólíklegri til að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Kannski kemur það því ekki á óvart að almennt eru karlar líklegri en konur til að afneita loftslagsvandanum og setja sig upp á móti aðgerðum til að sporna gegn hlýnun jarðar. Konur og stúlkur sem eru framarlega í baráttunni fyrir sjálfbærum heimi verða oft fyrir kynferðislegri og kynbundinni áreitni.

Á jafnréttisþingi verður fjallað sérstaklega um átakaorðræðu í loftslagsmálum, þar á meðal út frá sjónarhóli fötlunar. Þá verður fjallað um framtíðaráskoranir í tengslum við tæknibreytingar, loftslagsbreytingar og nýja atvinnu- og lifnaðarhætti og velt upp hvaða áhrif þessir þættir kunna að hafa á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi. Loks er hluti dagskrárinnar skipulagður í samvinnu við Stúdentaráð Háskóla Íslands og verður þar meðal annars fjallað um hugmyndafræði grænkera og karlmennsku.

Þótt Ísland standi framarlega í jafnréttismálum er enn langt í land. Ég á mér von um að Ísland verði meðal fyrstu ríkja heims til að ná heimsmarkmiðinu um jafnrétti kynjanna. Vert er að skoða gaumgæfilega hvernig jafnrétti lítur út í breyttum heimi þar sem sjálfbær þróun er ekki lengur aðeins falleg hugmyndafræði, heldur eini valkosturinn sem við höfum.

Ég hvet fólk til að fjölmenna á Jafnréttisþing í Hörpu á morgun!

Höfundur er forsætisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.