Search
Close this search box.

Menningar­sögu fargað í Hafnar­firði?

Deildu 

Þó margt sé vel gert í Hafnarfirði þá situr iðulega það á hakanum sem ekki er hægt að verðmerkja eða reikna út i krónum og aurum. Þar á meðal eru menningarmál, til að mynda staða leikfélaganna í Hafnarfirði: Leikfélags Hafnarfjarðar, sem er á hrakhólum, og Gaflaraleikhússins, sem verður brátt á hrakhólum, ef svo fer sem horfir. Það segir sitt að síðasta leikrit Leikfélags Hafnarfjarðar var sýnt í Kópavogi.

Tónlistariðja ungmenna hefur sína aðstöðu í Músík og mótor á Dalshrauni eins og við nafnarnir fengum að kynnast í menningargöngu VG í Hafnarfirði undir leiðsögn Magnúsar Kjartanssonar tónlistarmanns, fyrir stuttu. Magnús fræddi okkur um það hvað skiptir máli til að efla tónlistariðkun ungmenna og Margrét Gauja Magnúsdóttir, yfirmaður Hamarsins ungmennahúss og Músík & mótors, fræddi okkur um það starf sem þar fer fram og hugmyndafræðina á bak við það.

Göngunni lauk svo í Hljóðrita, sem er sennilega eitt best geymda menningar-leyndarmál Hafnarfjarðar: Innan um ýmislegan smáiðnað og verslanir á Trönuhrauni er hljóðverið Hljóðriti, sem var stofnsett fyrir nærfellt fimmtíu árum og er enn rekið í sama húsnæði. Þar var lengi helsta hljóðver landsins þar sem margar vinsælustu plötur Íslands voru teknar upp og líka sumar þær bestu.

Ekki er þó bara að Hljóðriti sé á efstu hæðinni á Trönuhrauni 6, heldur eru fleiri stúdíó í húsinu, hljóðverin Higher, Friðland, og Skamm, syntha smiðja- og viðgerðarstofan Lalaland, Gítarsmiðurinn Brooks, plötufyrirtækið Record Records og vinylsmiðjan og plötubúðin Vinyll.is.

Öll þessi starfsemi er er sjálfsprottin, þó ekki hafi hún orðið til úr engu, heldur er hún afrakstur atorku, skipulags og gríðarlegrar vinnu þeirra sem reka þessi fyrirtæki. Segja má að þarna á Trönuhrauninu sé vísir að einskonar menningarlegri stóriðju á íslenskan mælikvarða, listiðja sem skapar störf og tekjur fyrir þá sem að henni starfa, en líka tekjur vegna tengdrar starfsemi, til að mynda menningar-tengdrar ferðamennsku sem sækir í sig veðrið um allan heim. Það var því nöturlegt að heyra að bæjaryfirvöld virðast ekki hafa gefið þessari starfsemi gaum, vita kannski ekki einu sinni af henni, því áform eru um að rífa obbann af húsum á svæðinu til að breyta í íðbúðarbyggð. Vissulega er hægt að smíða ný hljóðver, setja upp tæki og tól í öðru húsnæði, en þá er verið að farga menningarsögu sem ekki verður endurheimt.

Árni Matthíasson skipar 4.sæti og Árni Áskelsson 18. sæti á framboðslista VG í Hafnarfirði.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search