Eftir miklar viðræður náðust merkilegir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði síðastliðið vor. Lögðu bæði aðilar vinnumarkaðarins og hið opinbera sitt af mörkum til þess að samningar næðust á erfiðum tímum. Sú nýjung var kynnt í kjarasamningum í vor að launahækkanir verði meiri eftir því sem hagvöxtur sé meiri og tryggi þar með vinnandi fólk sinn skerf í verðmætasköpun í hagkerfinu. Einnig voru gerðar breytingar á tekjuskattskerfinu í kjölfar þessara lífskjarasamninga sem gagnast fyrst og fremst lágtekju- og millitekjuhópum. Þá hefur tryggingargjaldið verið lækkað sem á að styðja við atvinnusköpun og rekstrargrundvöll fyrirtækja.
Á sama tíma hefur verið tekin ákvörðun um að fara í hallarekstur í ár á tímum hægari gangs í hagkerfinu og mikilla áskorana í kjölfar m.a. loðnubrests, kyrrsetningar Boeing 737-MAX flugvélanna og falls WOW. Þetta er skynsamleg ákvörðun enda er ríkið að sinna sveiflujafnandi hlutverki sínu eftir tímabil mikils hagvaxtar og ört lækkandi ríkisskulda. Þá verður að fagna því að í kjölfar lífskjarasamninga hafi stýrivextir lækkað um 1,5 prósentustig og eru nú í sögulegu lágmarki. Er það einnig til þess fallið að hleypa meira súrefni í hagkerfið. Samvinna aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera er því svo sannarlega að skila árangri.
Tækifærin í grænum lausnum
Loftslagsmálin hafa skiljanlega verið mikið á vörum landsmanna upp á síðkastið, enda verður með hverjum deginum skýrari sú nauðsyn að grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Í ljósi þess er einkar jákvætt að stjórnvöld og atvinnulíf hafi gert með sér samkomulag um samstarfsvettvang um loftslagsmál og grænar lausnir síðastliðið vor, sem síðar hlaut nafnið Grænvangur. Hefur vettvangurinn þegar hafið störf. Honum er ætlað að bæta árangur Íslands í loftslagsmálum og miðla áfram framlagi landsins á því sviði og jafnframt að stuðla að samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs í metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum. Það hefur verið tíðrætt að skjóta þurfi fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf og tryggja þannig meiri fjölbreytileika og stöðugleika hagkerfisins. Á síðastliðnum misserum hefur þeim fyrirtækjum fjölgað sem vinna að grænum lausnum, t.d. með hugmyndum á borð við eflingu hringrásarhagkerfisins og bindingu kolefnis í steindir. Eru því miklir möguleikar fólgnir í grænum lausnum og þróun þeirra.
Lífsgæði um land allt
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt mikla áherslu heilbrigðismál og innviðauppbyggingu í landinu. Sá ánægjulegi áfangi náðist í upphafi vetrar að klára ljósleiðaratengingu í alla byggðarkjarna landsins. Er þetta liður í markmiðum stjórnvalda að 99,9% lögheimila og fyrirtækja eigi kost á 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu í árslok 2021. Í lok sumars var síðan nýr vegarkafli í botni Berufjarðar tekinn í gagnið og var Hringvegurinn þar með allur lagður með bundnu slitlagi. Þar að auki hafa auknir fjármunir verið settir í vegaframkvæmdir og samgöngubætur víðsvegar um landið á svæðum eins og Vestfjörðum sem setið hafa lengi á hakanum þó vissulega séu enn næg verkefni eftir sem forgangsraða þarf framar. Hugmyndir eru uppi um að flýta enn frekar samgönguframkvæmdum með einhverskonar gjaldtöku sem á eftir að útfæra nánar en þar þarf að horfa til jafnræðis, núverandi gjaldtöku af bílaumferð, neytendasjónarmiða og hvort val er um aðrar leiðir og almenningsamgöngur. Öflug innviðauppbygging er til þess fallin að ýta undir atvinnusköpun og bæta lífsgæði um land allt. Ég hef fulla trú á því að nýtt ár verði gjöfult fyrir íslenska þjóð og við höldum ótrauð áfram í þeim uppbyggingarfasa sem leggur áherslu á velsældarhagkerfi þar sem hver einstaklingurinn skiptir máli. Saman munum við efla enn frekar gott samfélag.
Gleðilegt nýtt ár.
Höfundur er formaður atvinnuveganefndar.