Search
Close this search box.

Minningarorð á Alþingi um Svavar Gestsson, fyrrverandi alþingismann og ráðherra

Deildu 

MINNINGARORÐ
forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar,
um Svavar Gestsson, fyrrverandi alþingismann og ráðherra,
á þingfundi þriðjudaginn 19. janúar 2021.

Þær fregnir bárust okkur alþingismönnum í gær að Svavar Gestsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, hefði andast á Landspítalanum í fyrrinótt eftir erfiða sjúkdómslegu frá því hann veiktist óvænt og skyndilega í byrjun október næstliðins. Hann var á 77. aldursári.

Svavar Gestsson var fæddur á Guðnabakka í Stafholtstungum 26. júní 1944. Foreldrar hans voru hjónin Gestur Zóphónías Sveinsson, síðar bóndi á Grund á Fellsströnd og síðast verkamaður í Hafnarfirði, og kona hans Guðrún Valdimarsdóttir, húsfreyja og síðar verkakona í Hafnarfirði. Æskusveit sinni í Dölum unni Svavar mjög, reisti við starfslok bústað skammt frá þeim slóðum og varði tíma og kröftum til að efla söguminningu héraðsins og rækja arfleifð sagnameistaranna sem þaðan komu.

Svavar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964 og innritaðist í lagadeild Háskóla Íslands en hvarf frá námi. Hann var þá þegar orðinn virkur þátttakandi í stjórnmálum, m.a. í Æskulýðsfylkingunni, Samtökum hernámsandstæðinga og á Þjóðviljanum þar sem hann varð fastur blaðamaður 1968, þá nýkominn heim frá vetrardvöl og námi í Berlín. Ritstjóri Þjóðviljans varð hann 1971 og gegndi því starfi þar til hann var kosinn á þing í alþingiskosningunum 1978 sem oddviti Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Í kjölfar þess varð hann viðskiptaráðherra í rúmt ár og skömmu síðar, frá því í febrúar 1980, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra þar til sú ríkisstjórn fór frá í maí 1983. Svavar var þá orðinn formaður Alþýðubandalagsins, frá hausti 1980, og gegndi þeirri stöðu fram til ársins 1987. Hann settist í þriðja sinn á ráðherrabekk í september 1988 og var menntamálaráðherra fram í apríllok 1991. Eins og gefur að skilja var Svavar á þessum árum í hópi áhrifamestu manna í íslenskum stjórnmálum, mælskumaður mikill og baráttuglaður, í senn bæði dáður og umdeildur. Eftir ráðherrastörf sín gegndi Svavar þingmennsku fram í mars 1999, var þá um tíma formaður þingflokks Alþýðubandalagsins og lét mjög að sér kveða í þessum sal. Í samstarfi og samningum um afgreiðslu mála var hann fylginn sér en sanngjarn og sáttfús og átti auðvelt með að umgangast jafnt andstæðinga sem samherja.

Svavar sat á 24 löggjafarþingum 1978–1999. Hann var áhugasamur um sögu Alþingis og starfshætti þess og vildi þoka þeim í betra horf. Hann lét sig varða hvernig að Alþingi og alþingismönnum er búið og var síðar formaður Félags fyrrverandi alþingismanna um skeið. Árið 1999 ákvað Svavar að hætta beinum afskiptum af stjórnmálum og var þá skipaður aðalræðismaður Íslands í Winnipeg. Kom í hlut hans að hefja þar myndarlega menningarsókn meðal Vestur-Íslendinga. Bast hann mörgum löndum okkar vestra sterkum böndum og verður hans lengi minnst þar um slóðir fyrir brautryðjandastarf sitt. Eitt fyrsta verk hans vestra var að stýra af Íslands hálfu undirbúningi og framkvæmd hátíðahalda til að minnast þess að árið 2000 var árþúsund liðið frá fyrra landnámi Íslendinga í Vesturheimi. Svavar varð sendiherra Íslands í Svíþjóð árið 2001 og frá 2006 til ársloka 2009 sendiherra Íslands í Danmörku. Hvarvetna þar sem Svavar var fulltrúi Íslands á erlendri grund munaði um störf hans, eldlegan áhuga og dugnað.

Er opinberum störfum Svavars lauk hóf hann að sinna ýmsum menningarmálefnum og kom þá víða við, var laginn að fá menn til samstarfs, hvatti þá áfram en lét sjálfur hlut sinn aldrei eftir liggja. Svavar Gestsson var sveitamaður að uppruna, eins og hann sagði oft sjálfur, áhugasamur um verndun lands, útivistar- og hestamaður mikill, ræktaði skóg og sinnti æðarvarpi er hann var aftur snúinn á sínar æskuslóðir. Ungur að árum gekk Svavar róttækri vinstri hreyfingu á hönd og vann að henni alla ævi sína, vaskur í hverju því verkefni sem hreyfingin fól honum. Frami hans í stjórnmálum var skjótur og hann varð ráðherra aðeins 34 ára að aldri. Svavar var í stjórnmálum af lífi og sál hvort sem var með beittum penna sínum á ritvellinum, sem vissulega gat sviðið undan, hér á Alþingi eða í Stjórnarráðinu. Mörgum stórum og þýðingarmiklum málum kom hann áfram, ekki síst á sviði heilbrigðis- og félagsmála og réttindamála launafólks.

Svavar Gestsson var hreinskiptinn í öllu samstarfi, glöggur að greina kjarna hvers máls, fundvís á leiðir og úrræðagóður að leysa þann vanda sem við var að fást hverju sinni. Hann var sögufróður og vel lesinn í bókmenntum og hafði ánægju af að miðla þeirri þekkingu, hressilegur í framgöngu og glettinn jafnt í vinahópi sem á mannamótum. Þótt tveir áratugir séu liðnir frá því að Svavar Gestsson lauk þingmennsku erum við enn nokkur hér sem höfðum kynni af honum sem stjórnmálamanni og síðar embættismanni, sennilega þó fáir meiri en sá sem hér stendur og mælir þessi minningarorð um einn nánasta samferðamann sinn og vin á löngum stjórnmálaferli.

Við alþingismenn vottum dóttur hans, Svandísi, sem á sæti í þessum sal með okkur, samúð okkar óskipta, nú þegar hún sér á bak föður, vini og einlægum stuðningsmanni.

Ég bið þingheim að minnast Svavars Gestssonar, fyrrv. alþingismanns, með því að rísa úr sætum. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search