Search
Close this search box.

Mosfellsbær verður Barnvænt sveitarfélag

Deildu 

Þann 28. janúar síðastliðin var skrifað undir samstarfssamning Mosfellsbæjar, UNICEF á íslandi og félagsmálaráðuneytisins um þátttöku bæjarins í verkefninu Barnvæn sveitafélög.
Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi Mosfellsbæjar að fræðslu og stuðning við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á sveitarstjórnarstiginu. Töluverður hluti þjónustu hins opinbera við börn og barnafjölskyldur er á ábyrgð sveitafélaga og þau leika því mikilvægt hlutverk við innleiðingu sáttmálans. Með þátttöku Mosfellsbæjar í verkefninu skuldbindum við okkur til þess að vinna markvisst að innleiðingu barnasáttmálans og tryggja að réttindi barna séu höfð í huga í öllum verkefnum, stefnumótunum og ákvörðunum bæjarins.

Mosfellsbær er tólfta sveitarfélagið til þess að taka þátt í verkefninu en framkvæmd þess verður leidd af lýðræðis- og mannréttindanefnd bæjarins. Mikill metnaður er innan nefndarinnar til þess að takast á við verkefnin fram undan en inneiðingarferlið, sem byggist á hugmyndafræði alþjóðlegs verkefnis UNICEF „Child Friendly Cities“ er óvægið. Til þess að ná árangri er mikilvægt að kjörnir fulltrúar og starfsfólk bæjarins vinni þétt saman í innleiðingaferlinu. Ég tel að lýðræðis- og mannréttindanefnd sé einstaklega vel til þess fallin að leiða vinnuna enda byggjast grunnþættir Barnvænna sveitafélaga á mannréttindum barna. Grunnþættir þessir eru þekking á réttindum barna, það sem er barni fyrir bestu, jafnræði, þátttaka barna og barnvæn nálgun.

Á kjörtímabilinu hefur Mosfellsbær einsett sér að nýta verkfæri Sameinuðu þjóðanna í stefnumótun sinni. Árið 2019 var samþykkt ný umhverfisstefna sem tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í fyrra hafði lýðræðis- og mannréttindanefnd markmiðin til hliðsjónar við gerð aðgerðaáætlunar lýðræðisstefnu bæjarins. Við búum yfir reynslu sem mun nýtast vel við innleiðingu barnasáttmálans og verður sérstök áhersla lögð á náið samstarf nefndarinnar við ungmennaráð Mosfellsbæjar. Aðkoma barna að ákvörðunartöku er veigamikill þáttur Barnasáttmálans og mikilvægt að samráð við börn og ungmenni sé tryggt frá upphafi.

Vinna við verkefnið hefst með greiningu en stefnt er að því að Mosfellsbær uppfylli allar forsendur verkefnisins á árinu 2023 og hljóti í kjölfarið viðurkenningu UNICEF sem Barnvænt sveitafélag. Verkefninu lýkur þó ekki þá, enda þarf að endurnýja viðurkenninguna á þriggja ára fresti og til þess að standast úttekt þarf sveitafélagið að sýna fram á að það tileinki sér barnaréttindanálgun á öllum stigum stjórnsýslunnar og virði réttindi barna sem tryggð eru í sáttmálanum.

Una Hildardóttir, formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search