Search
Close this search box.

Nýr samningur um Landgræðsluskóga

Deildu 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skógræktarfélag Íslands, Landgræðslan og Skógræktin hafa endurnýjað samning um rekstur og framkvæmd Landgræðsluskóga til næstu fimm ára.

Landgræðsluskógar hafa verið starfræktir síðan árið 1990 og er því um að ræða endurnýjun samnings um verkefnið. Landgræðsluskógar byggja á starfi áhugamanna í skógræktarfélögum á Íslandi. Markmið Landgræðsluskóga er að græða lítt og ógróið land með fjölbreyttum skógum og stuðla þannig að ræktun skóga til útivistar fyrir almenning, endurheimt vistkerfa og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

Samningurinn felur í sér ýmis ákvæði varðandi framkvæmd Landgræðsluskóga s.s. að Skógræktarfélag Íslands vinni áætlun sem að lágmarki skilgreinir markmið, tegundaval og afmörkun svæða til gróðursetningar. Skógræktarfélag Íslands tryggir að lagt sé mat á árangur gróðursetninga og að skráning aðgerða uppfylli kröfur til loftslagsbókhalds. Áætlanir og öll verkefni innan Landgræðsluskóga skulu samræmast opinberri stefnumörkun í skógrækt og landgræðslu, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, skipulagsáætlunum sveitarfélaga og ákvæðum náttúruverndarlaga og annarra laga sem við eiga.

Skógræktin og Landgræðslan veita eftir því sem þörf er á leiðbeiningar sem geta bætt og styrkt framkvæmd verkefnisins. Auk þess fara stofnanirnar með eftirlit með framkvæmd samningsins fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search