Search
Close this search box.

Ræða Guðmundar Inga Guðbrandssonar varaformanns Vinstri grænna á flokksráðsfundi 28. ágúst

Deildu 

Kæru félagar!

Við hittumst hér við allt aðrar aðstæður en við höfðum hugsað okkur. Við hittumst eftir að hafa upplifað breytingar í samfélaginu sem ekkert okkar gat séð fyrir. Heimsóknir til aldraðra ættingja og vina lögðust af á tímabili, félagsleg einangrun jókst, vinafagnaðir, fermingarveislur, afmæli og kannski það sem tekur mann sárast að geta ekki fylgt ástvinum og ævifélögum síðasta spölin við jarðarfarir – allt þetta hefur verið takmörkunum háð. Þó megum við þakka fyrir það í samanburði við mörg önnur ríki, hve mikið frelsi hefur í reynd verið hér á Íslandi þrátt fyrir kórónuveiruna. Fólk fékk víða erlendis einungis að fara út í stuttan tíma á dag. Á Spáni til dæmis voru börn lokuð inni. Íslenska leiðin hefur verið öðruvísi og hún hefur staðið sterkari vörð um að viðhalda félagslegum tengslum. Að sjá til þess að þau séu ekki rofin nema brýna nauðsyn beri til.

Og það eru félagslegu þættirnir sem gera okkur að manneskjum, og gera okkur líka að betri manneskjum, og þegar þeir eru teknir í burtu eða takmarkaðir þá reynir á samfélagið.  

Við í VG höfum ætíð lagt mikið upp úr því að taka faglegt mat inn í stefnumótun og ákvarðanatöku. Það hefur svo sannarlega verið gert í baráttunni við kórónuveiruna. Sú ákvörðun var tekin af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að það að verja heilsu fólks væri í fyrsta sæti – og eins að fylgja ráðleggingum sérfræðinga. Við hlustum á vísindafólk. Og það er mikilvægt fyrir okkur að halda því á lofti að það er pólitísk ákvörðun að fara eftir ráðleggingum sérfræðinga. Við sjáum hvað hefur gerst þar sem leiðtogar hafa ekki hlustað á vísindafólk, til dæmis í Bandaríkjunum. Afleiðingarnar hafa vægast sagt verið skelfilegar.

Í þessum aðstæðum öllum er mikilvægt að tryggja sem best að daglegt líf geti haldið áfram með sem minnstum takmörkunum. Börn geti sótt skóla, hægt verði að koma á sem eðlilegustu menningarlífi og samskiptum vina og ættingja. Það þýðir ekki að við gleymum því risavaxna verkefni sem flæði fólks inn og út úr landinu er. En það verður að meta með hliðsjón af ástandinu innanlands og stöðu faraldursins erlendis. Það hefur verið leiðarljós stjórnvalda og verður áfram.

Það hefur reynt á innviði heilbrigðiskerfisins, sem stóðust fyrsta áhlaupið. Því miður misstum við fólk og aðrir þurfa að takast á við eftirköst veikinda. En ég dáist að því hvernig haldið er utan um öll þau sem veikjast og fylgst með hverju og einu þeirra, og þannig lágmörkuð hættan á alvarlegum veikindum fyrir marga. Styrkleikar opinbers heilbrigðiskerfis sem leggur sig fram um að sinna öllum jafnt hefur heldur betur sannað sig hér. Og þá segi ég: Einkavæðing hvað? Já, nei takk!

Gleymum því ekki að við höfum alla tíð barist fyrir sterku opinberu heilbrigðiskerfi – og það kerfi hefur verið styrkt í ráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur, ekki síst með því að draga markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga. Það er mikilvægt að við höldum þessu til haga á komandi kosningavetri.

Katrín mun fjalla um efnahagsaðgerðir í tengslum við faraldurinn í máli sínu hér á eftir. Ég vil halda því á lofti að áherslur Vinstri grænna hafa skinið í gegn í öllum aðgerðum stjórnvalda í baráttunni gegn vágestinum. Áhersla á réttindi og hag launþega. Áhersla á jafnréttissjónarmið. Áhersla á loftslagsmál, náttúruvernd og greiðari samgöngur. Áhersla á nýsköpun, menntaúrræði og geðheilbrigðismál. Við horfum  bæði til skemmri og lengri tíma í aðgerðum okkar.

Ég ætla ekki hafa að mörg fleiri orð um kórónuveiruna. En mig langar að þakka þeim stöllum Katrínu og Svandísi fyrir skynsama, faglega og einarða – í einu orði sagt frábæra – frammistöðu við ótrúlega krefjandi aðstæður. Ég veit að við erum hvert á sínum stað, hvert fyrir framan sína tölvu, en ég bið ykkur samt um að standa upp og klappa fyrir þeim báðum.

—————————-

Kæru félagar!

Margvíslegum málum hefur verið ýtt úr vör undir forystu Vinstri grænna í ríkisstjórn þrátt fyrir faraldurinn. Mig langar að stikla á stóru um nokkur þeirra mála sem ég tel mikilvægt að hafi náð fram að ganga að undanförnu.

Hér vil ég fyrst nefna nýsköpun og rannsóknir hafa fengið stóraukin slagkraft á þessu kjörtímabili. Nýsköpunarstefna fyrir Ísland leit dagsins ljós í árslok í fyrra. Nýr sjóður, Kría, hefur verið stofnaður og er ætlað að auka fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og stórauknu fjármagni hefur verið veitt til málaflokksins, m.a. í tengslum við Covid. Nýsköpun hefur líka verið sérstaklega styrkt á sviði loftslagsmála með stofnun Loftslagssjóðs sem úthlutaði styrkjum í fyrsta skipti í vor.

Þá hafa á vettvangi markáætlunar verið auglýstir nýir styrkir til samfélagslegra áskorana, þar sem að áhersla er á umhverfismál og sjálfbærni, heilsu og velferð og líf og störf í heimi breytinga.

Allt þetta skiptir gríðarlega miklu fyrir framtíðina og allt eru þetta mál sem VG leggur ríka áherslu á, enda stjórnmálaafl sem horfir til framtíðar.

——————

Þá að samgöngumálum, en ný lög um opinbert hlutafélag og ný samgönguáætlun til ársins 2034 tryggja fjölbreyttar almenningssamgöngur, þ.m.t. er Borgarlínan loksins komin á græna grein; stórt hagsmunamál íbúa höfuðborgarsvæðisins, stórt hagsmunamál vegna loftgæða og stórt hagsmunamál vegna skuldbindinga okkar í loftslagsmálum. Hér þarf ekki geimspekinga til að koma auga á fingraför VG. 

Með nýrri samgönguáætlun er líka fjölmörgum framkvæmdum um land allt flýtt, með bættu umferðaröryggi, með fækkun einbreiðra brúa og með fjölgun akreina á þeim vegum frá höfuðborgarsvæðinu þar sem umferð er mest: að Borgarnesi, austur fyrir Hellu og að Leifsstöð.

Vissulega eru mörg verkin óunnin í samgöngumálum á Íslandi, en stefnan er ein sú umfangsmesta sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Þar skiptir miklu áhersla á aukið öryggi og eflingu almenningssamgangna í takti við loftslagsmál og betri loftgæði. Þessu hafa fulltrúar VG í ríkisstjórn og á Alþingi haldið á lofti.

—————————

Mig langar að nefna hér mál sem leitt hefur verið af forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, en frumvarp um eignarhald á landi varð að lögum nú í vor. Með þessu er stigið fyrsta skrefið í því að stemma stigu við því að stór landflæmi safnist á  fárra manna hendur og komið í veg fyrir samþjöppun á eignarhaldi, komið í veg fyrir að auðmenn, erlendir eða innlendir, geti sópað að sér landnæði án nokkurra takmarkana. Þetta er mikilvægt út frá sjónarmiðum um byggðafestu, matvælaöryggi og náttúruvernd.    

————————–

Og þá að umhverfismálum.

Vinstri græn hafa staðið vaktina í umhverfismálum frá stofnun hreyfingarinnar. Þegar VG er í ríkisstjórn gerist eitthvað í umhverfismálum, en lítið þess á milli. Á þessum þingvetri var frumvarp mitt um loftslagsmál sem staðfestir skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu samþykkt. Á sama tíma kynnti ríkisstjórnin með nýrri útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum áform sem ganga lengra en alþjóðlegar skuldbindingar okkar krefjast af okkur. Þriðja byltingin í útfösun jarðefnaeldsneytis, þ.e.a.s. frá samgöngum, er farin að skila árangri því að Ísland er nú í öðru sæti ríkja heims yfir hlutfall nýskráðra vistvænna bifreiða, og undirbúningur hafinn fyrir umskipti í sjávarútvegi og landbúnaði. Áherslubreytingar núverandi ríkisstjórnar með VG í brúnni vekja athygli erlendis þar sem við ætlum að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Þar skiptir miklu áhersla á aukna skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Nýsköpunarverkefni með hugviti íslenskra vísindamanna, eins og CarbFix verkefnið er dæmi um, vekja ekki síður athygli þar sem CO2 er breytt í grjót líkt og tröllin urðu að steini við sólarupprás.

Ef tröllin eru samlíking við gamla kerfið sem byggir á jarðefnaeldsneyti og ósjálfbærri loftslagsstefnu, þá er óhætt að segja að sólin sé að rísa og tröllin að verða að steini.

Ég hef í sumum kreðsum fengið viðurnefnið bann-ráðherrann. Gagnrýnin hefur snúist um það að banna hluti frekar en að nota hvata. Svar mitt er einfalt: Við bönnum auðvitað óþarfa einnota drasl sem hefur neikvæð áhrif á lífríki á landi og í sjó. Er það ekki borðleggjandi? En við beitum jafnframt hvötum til að ná fram breytingu í hegðun og starfsemi fyrirtækja og einstaklinga. Ég er því mjög stoltur af því að Alþingi hefur samþykkt frumvarp mitt um að banna tilteknar einnota plastvörur, þ.e.a.s. að banna óþarfa.

——————–

Kæru félagar!

Fyrr í vikunni var þess minnst að fyrir fimmtíu árum stóð til að fórna samfélagi norður í landi og öllu umhverfi þess fyrir megavött. Fyrir fimmtíu árum björguðu Þingeyingar lífríki einnar helstu náttúruperlu landsins. Komu í veg fyrir að Mývatn yrði gert að uppistöðulóni og lífríki Laxár þurrkaðist út.

Ég efast ekki um að sprenging sem slík var nauðvörn samfélagsins, en atburðurinn markaði svo sannarlega tímamót á Íslandi. Ekki bara varð þetta til þess að bjarga Mývatni og Laxá frá glötun heldur vakti atburðurinn fólk til umhugsunar um náttúruvernd, gaf því von um að hægt væri að koma í veg fyrir óafturkræf spjöll á íslenskri náttúru og hafði án efa mikil áhrif á þann fjölda friðlýsinga sem fylgdi næsta áratuginn.

Því miður lágu friðlýsingar að mestu niðri á þeim tíma sem leið á milli þess sem Svandís var í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og að ég tók við. Þegar ég settist í stól umhverfis- og auðlindaráðherra var eitt af mínum fyrstu verkum að setja í gang átak í friðlýsingum. Það átak snýst auðvitað um það að koma náttúruperlum í var og undirbyggja sjálfbæra atvinnusköpun á grundvelli lítt spilltrar náttúru.

Sumir hafa orðið til að segja að verið sé að friðlýsa svæði sem engin styr standi um. Varð það meðal annars haft á orði um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum gegn orkuvinnslu. Sú friðlýsing varð nú samt að umfjöllun hjá stjórnmálamönnum sem finnst sárt að hafa ekki sem flest fljót til að virkja. Og, hvers vegna? Jú, vegna þess að í þessum slag takast á hagsmunir náttúruverndar og hagsmunir virkjanasinna. Þess vegna skiptir lykilmáli að koma náttúruperlum okkar, einni og einni, í var. Það á við um Jökulsá á fjöllum, Goðafoss í Skjálfandafljóti, Gjástykki, Miðhálendi Íslands og fleiri staði.

Við höfum komið mörgum í var og vinna við fleiri í gangi. Stærsta friðlýsingin og stórt baráttumál okkar Vinstri grænna er síðan Hálendisþjóðgarðurinn. Tækifærið til að vernda stærstu víðerni landsins og ómetanlegt landslag. Fyrir komandi kynslóðir. Stærsta framlag Íslendinga til náttúruverndar fyrr og síðar. Á sama tíma má búa til efnahagsleg verðmæti. Lagafrumvarp um Hálendisþjóðgarð mun ég leggja fram á Alþingi eftir að þing kemur saman í október.

VG stendur vörð um náttúruna.

—————————-

Kæru félagar.

Forsætisráðherra hefur boðað að stefnt sé að kosningum til Alþingis í lok september á næsta ári. Ég hvet ykkur öll til að taka virkan þátt í því öfluga málefnastarfi sem hafið er og hafa þannig áhrif á áherslur hreyfingarinnar okkar í næstu kosningum.

Á þessu kjörtímabili hafa verið stigin mikilvæg skref í átt að réttlátara skattkerfi sem þjónar þeim betur sem minna hafa milli handanna, mikilvæg skref í heilbrigðisþjónustu með jöfnuð og félagslegt réttlæti að leiðarljósi, mikilvæg skref í réttindabaráttu hinsegin fólks, mikilvæg skref í loftslagsmálum, mikilvæg skref fyrir réttindi kvenna yfir eigin líkama, og mikilvæg skref í náttúruvernd með friðlýsingum svæða og stóraukinni áherslu á endurheimt votlendis og annarra gróðursamfélaga.

Við þurfum að byggja á þessum skrefum. Þegar ég horfi til umhverfismálanna vil ég að árið 2030 getum við litið til baka og sagt að okkur hafi tekist að takast á við loftslagsvána – með félagslegt réttlæti og náttúruvernd að leiðarljósi. Ég vil sjá umhverfismálin tengjast öllum öðrum málaflokkum með skýrum hætti. Við þurfum að brjóta niður múra og hugsa víðar og hugsa stærra. Umhverfismálin verða að vera meginstefnumál, rétt eins og kynja- og jafnréttismálin, og rétt eins og félagslegt réttlæti. Grænu málin og þau rauðu fléttast saman með ótvíræðum hætti. Breytingar í samfélaginu verða að eiga sér stað með sanngjörnum hætti og við verðum að tryggja að tækifæri efnaminna fólks séu jöfn tækifærum þeirra sem meira hafa milli handanna. Þetta er lykilatriði og hér hefur VG ríku hlutverki að gegna sem boðberi réttlætis.

Ég hlakka til að fylgjast með gangi mála í málefnahópum hér á eftir. Sviðið er ykkar.

———————–

En kæru félagar!

Mun nær í tíma eru aðrar kosningar, kosningar í sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Þar hafa Vinstri græn ákveðið að bjóða fram í eigin nafni og hafa á að skipa stórglæsilegum lista öflugs fólks. Það hafa verið forréttindi að fá að fylgjast með undirbúningnum, og það var virkilega gaman að hitta ykkur Austfirðinga í Laugarfelli í sumar. Ég trúi því að framboð okkar fyrir austan sé ekki aðeins mikilvægt fyrir sveitarfélagið, heldur líka fyrir VG á landsvísu inn í næstu Alþingiskosningar.

Ég vil líka nota tækifærið og fagna því hvernig sveitarstjórnarfólkið okkar hefur eflt samstarf sín á milli í kórónuveirufaraldrinum, með auknum fundum og því að deila viðbrögðum og skoðunum í því stóra verkefni sem sveitarfélögin hafa, líkt og ríkið, staðið frammi fyrir.

—————————-

Við hittumst nú við óvenjulegar aðstæður og það er leiðinlegt að við getum ekki verið saman, horft í augun hvert á öðru, hlegið, spjallað og gert að gamni okkar. En, sem betur fer getur flokksstarfið haldið áfram með aðstoð fundaforrita eins og við notum í dag. Ég stýri nú öðrum Flokksráðsfundi mínum og vona að það gangi sem best fyrir sig við þessar aðstæður. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólkinu á skrifstofu VG fyrir að bregðast skjótt við og breyta skipulagi fundarins og fyrir allan undirbúning. Björg Eva, Anna Lísa og Bjarki – bestu þakkir!

Kæru félagar.

Það er fátt skemmtilegra og jafn gefandi en að breyta heiminum til hins betra, jafna kjör og félagslegar aðstæður, draga úr mengun, bæta lífsskilyrði og vernda náttúruna fyrir okkur og komandi kynslóðir. Þetta er verkefnið okkar, hið sameiginlega verkefni okkar sem þessa hreyfingu skipa.

Að því sögðu, segi ég þennan Flokksráðsfund Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 28. ágúst 2020 settan og býð formanni okkar, Katrínu Jakobsdóttur að taka til máls.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search